Strandhögg (1980-84 / 2018-)

Strandhögg

Hljómsveitin Strandhögg starfaði á Sauðárkróki um nokkurra ára skeið á fyrri hluta níunda áratugar síðustu aldar og afrekaði þá að gefa út kassettu með frumsömdum lögum, sveitin hætti þó skömmu síðar án þess að fylgja afurðinni almennilega eftir.

Strandhögg mun hafa verið stofnuð 1980 og var líklega þá skipuð meðlimum á grunnskóla- eða framhaldsskóla aldri því að þegar kassettan kom út vorið 1984 var útgefandi hennar Nemendafélag Fjölbrautaskólans á Sauðárkróki. Kassettan bar titilinn Undir nöfunum og hafði að geyma átta frumsamin lög, flest eftir Eirík Hilmisson gítarleikara og söngvara og Magnús Helgason söngvara en aðrir meðlimir sveitarinnar á þeim tíma voru Guðni Kristjánsson hljómborðsleikari, Jónas Björnsson trommuleikari og Halldór Kr. Jónsson bassaleikari. Þá hafði einhver nokkur fjöldi manna farið í gegnum sveitina frá því hún hóf störf en upplýsingar er ekki að finna um nöfn þeirra. Textar komu úr ýmsum áttum, m.a. frá hljómsveitarmeðlimum en einnig áttu ljóðskáldin Geirlaugur Magnúson og Gyrðir Elíasson texta á plötunni, Geirlaugur starfaði þá sem kennari við fjölbrautaskólann en Gyrðir var ungt og efnilegt ljóðskáld á Króknum.

Strandhögg hætti störfum um svipað leyti og kassettan leit dagsins ljós og því var henni ekki fylgt eftir og vakti þ.a.l. enga athygli utan e.t.v. innanbæjar á Sauðárkróki. Sveitin lá svo í dvala þar til sumarið 2018 að hún vaknaði til lífsins og kom fram á Menningarnótt síðsumars og svo líklega aftur á Menningarnótt næstu árin, þá voru þeir Magnús söngvari, Halldór bassaleikari og Guðni hljómborðsleikari ennþá í henni en auk þeirra voru nú Ársæll Másson gítarleikari, Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson gítarleikari og söngvari og Örvar Erling Árnason trymbill.

Efni á plötum