Strákabandið (1989-2017)

Strákabandið 1989

Hljómsveitin Strákabandið starfaði innan Harmonikufélags Þingeyinga, var þar yfirleitt nokkuð virk enda var töluverð endurnýjun meðal meðlima sveitarinnar. Hún sendi frá sér tvær plötur.

Strákabandið var eins og reyndar mætti giska á, skipuð hljóðfæraleikurum í eldri kantinum en sveitin hafði í raun verið starfandi síðan Harmonikufélag Þingeyinga var stofnað 1978, þá hafði verið stofnuð hljómsveit innan félagsins sem síðan hlaut nafnið Laskabútar en nafni sveitarinnar var síðan breytt í Strákabandið árið 1989. Meðlimir hennar voru líklega í upphafi þeir Haraldur Björnsson, Jósteinn Finnbogason, Baldur Árnason, Karl Ingólfsson, Aðalsteinn Ísfjörð og Jóel Friðbjarnarson, sem allir voru harmonikkuleikarar.

Á næstu árum og áratugum tók sveitin miklum breytingum meðlimalega séð, flestir voru þeir í eldri kantinum og því var eðlilegt að endurnýjun væri nokkur, ekki liggur fyrir hvort hrynsveit væri innan hennar alltaf en í seinni tíð voru trommu-, bassa- og gítarleikarar viðloðandi sveitina – einnig söngvari. Sveitin lék mestmegnis á samkomum harmonikkufélagsins og þótti ómissandi partur af félagsstarfinu, böll félagsins voru yfirleitt haldin í Breiðumýri í Reykjadal og Skúlagarði í Kelduhverfi en sveitin lék einnig eitthvað sunnan heiða.

Árið 1989 voru Jóel, Karl og Jósteinn enn í Strákabandinu, Kjartan Jóhannesson, Hákon Jónsson, Haraldur Björnsson og Ólafur Þ. Kristjánsson einnig en litlar upplýsingar er að finna um meðlimi sveitarinnar næstu árin á eftir. Undir lok aldarinnar sendi sveitin svo frá sér nítján laga plötuna Ljúfu lögin og voru meðlimir hennar þá þeir Hákon, Kjartan, Jóel, Kristján Kárason og Rúnar Hannesson sem allir léku á harmonikkur en aðrir meðlimir voru þeir Grímur Vilhjálmsson bassaleikari og Elvar Bragason trommuleikari sem söng jafnframt. Faðir Elvars, Bragi Ingólfsson hafði áður verið trommuleikari og söngvari sveitarinnar en hann var þá látinn, Benedikt Ingólfsson hafði þá einnig verið gítarleikari með Strákabandinu. Þá komu Bylgja Steingrímsdóttir söngkona og Haukur Pálmason einnig við sögu á plötunni en voru líklega ekki meðlimir hennar. Platan seldist gríðarlega vel og þau þúsund eintök sem framleidd voru í upphafi seldust fljótlega upp, sem og tvö þúsund eintök til viðbótar.

Strákabandið 2002

Strákabandið starfaði áfram og árið 2010 kom út önnur plata með sveitinni, hún var átján laga og bar heitið Ljúfu lögin 2, hún seldist þó ekki nándar nærri eins vel og fyrri platan – flestir gömlu harmonikkuleikaranna voru þá enn í sveitinni, Rúnar, Kjartan, Jóel og Kristján en ekki liggur fyrir hverjir skipuðu hrynhluta hennar, Aðalsteinn Júlíusson söng hins vegar á plötunni.

Strákabandið starfaði allt til ársins 2017 að minnsta kosti og var Jóel líklega sá eini sem var allan tímann í sveitinni, Kristján og Rúnar voru einnig lengi en einnig var Kristján Þórðarson harmonikkuleikari í henni undir það síðasta, aðrir liðsmenn sveitarinnar síðustu árin voru Grímur bassaleikari en einnig Jón Arngrímsson á bassa, Pálmi Björnsson, Jóhann Möller og Númi Adolfsson gítarleikarar, og Hjörtur Hólm og Magnús Kristinsson trommuleikarar. Fleiri komu sjálfsagt við sögu Strákabandsins meðan hún starfaði.

Efni á plötum