Hispurslausi kvartettinn (2000)

Hispurslausi kvartettinn var ekki eiginleg hljómsveit heldur öllu heldur spunasveit sem lék aðeins tvívegis opinberlega og æfði hugsanlega einu sinni fyrir hvort skiptið. Kvartettinn sem reyndar var sextett og gekk einnig undir nafninu Hispurslausi sextettinn (líklega þegar kominn var endanlegur fjöldi meðlima á hana) var skipaður þekktum tónlistarmönnum sem fengnir voru af félagsskapnum Tilraunaeldhúsinu til að leika á heimasmíðuð hljóðfæri myndlistamannsins Barkar Jónssonar í tónleikaröðinni Óvæntir bólfélagar á tónleikum í Listasafni Íslands á Menningarnótt sumarið 2000, en hljóðfærin voru eins konar skúlptúrar smíðaðir úr ýmsum efnum og buðu upp á alls konar hljóðmyndanir.

Meðlimir Hispurslausa kvartettsins (sextettsins) voru þeir Arnar Geir Ómarsson, Guðni Finnsson, Músíkvatur (Sighvatur Ómar Kristinsson), Auxpan (Elvar Már Kjartansson), Birgir Baldursson og Óskar Guðjónsson en sá síðast taldi var titlaður einhvers konar hljómsveitarstjóri.

Uppákoman í listasafninu tókst með ágætum og herlegheitin voru hljóðrituð og hluti þeirra gefin út á safnplötunni Motorlab#1: Óvæntir bólfélagar um haustið, þá kom sveitin aftur saman og lék á útgáfutónleikum í 12 tónum. Framlag sveitarinnar fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu og Fókus þegar platan var gerð upp þar.