M.Í. kvartettinn (1983-86)

M.Í. kvartettinn

M.Í. kvartettinn var söngkvartett starfandi innan Menntaskólans á Ísafirði um miðjan níunda áratug síðustu aldar.

Upphaflega hafði verið ætlunin að stofna kór innan MÍ árið 1983 en þegar aðeins um tíu manns sýndu málinu áhuga og fækkaði heldur þar til eftir voru fjórir, var M.Í. kvartettinn stofnaður. Meðlimir hans voru þeir Heimir S. Jónatansson og Hjalti Karlsson tenórar og Baldur Trausti Hreinsson og Steinþór B. Kristjánsson bassar.

Kvartettinn söng við ýmis tækifæri fyrir vestan til ársins 1986 að minnsta kosti en hann kom einnig fram m.a. á höfuðborgarsvæðinu. Þeir félagar hafa einnig stöku sinnum komið saman og sungið í seinni tíð.