Geysiskvartettinn (1968-90)

Geysiskvartettinn 1979

Geysiskvartettinn á Akureyri naut nokkurra vinælda á áttunda og níunda áratug síðustu aldar, hann var nokkurs konar afsprengi Karlakórsins Geysis og sendi frá sér plötu sem síðar var endurútgefin og aukin að efni.

Kvartettinn mun hafa verið stofnaður fyrr hálfgerða tilviljun en það var árið 1968 er Æskulýðssamband kirkjunnar í Hólastifti var að vinna að plötuupptökum fyrir útgáfu plötu með lögum úr söngbókinni Unga kirkjan, þá vantaði bakraddir í lag sem Sigrún Harðardóttir söngkona var að syngja og var þá kallað í fjórar raddir nánast af handahófi úr Karlakórnum Geysi, þeir voru Aðalsteinn Jónsson (fyrsti tenór), Guðmundur Þorsteinsson (annar tenór), sr. Birgir Snæbjörnsson (fyrsti bassi) og Sigurður Svanbergsson (annar bassi). Þar með má segja að Geysiskvartettinn hafi orðið til í plötuupptökum en þess má geta að á plötuumslagi eru flytjendur með Sigrúnu sagðir vera kvartett úr Karlakórnum Geysi, nafnið Geysiskvartettinn kom ekki til fyrr en síðar.

Ekki liggur fyrir hvenær nafnið festist við kvartettinn eða hvenær hann varð að sjálfstætt starfandi einingu en Geysiskvartetts-nafnið kemur fyrst við sögu í blaðaumfjöllun árið 1976, þá höfðu þeir félagar komið margoft fram opinberlega með söngatriði sín, þó óreglulega og með hléum líklega allt frá árinu 1970 eða þar um bil.

Geysiskvartettinn

Það var svo vorið 1979 sem Geysiskvartettinn hélt sína fyrstu sjálfstæðu tónleika en það var í Borgarbíói á Akureyri, skipan kvartettsins var með sama hætti og í upphafi, Jakob Tryggvason var undirleikari þeirra og hafði þá líklega verið frá upphafi, auk þess að vera hálfgildings söngstjóri kvartettsins og að annast útsetningar á efni þeirra. Kvartettinn hélt fjölda tónleika í kjölfarið, oftast norðan heiða en einnig í Bæjarbíói í Hafnarfirði, og fékk hvarvetna góðar viðtökur og síðar þetta sama ár (haustið 1979) sendi hann frá sér plötu sem bar nafn kvartettsins. Platan sem var fjórtán laga hafði verið hljóðrituð í Hljóðrita í Hafnarfirði en var gefin út af Tónaútgáfunni á Akureyri.

Næstu árin má segja að hafi verið blómaskeið Geysiskvartettsins, kvartettinn varð nokkuð virkur og hélt reglulega tónleika og við ágætar undirtektir, hann var iðulega skipaður sama mannskap en verið gæti að Eiríkur Stefánsson hafi eitthvað komið við sögu hans. Kvartettinn hélt árið 1982 til Esbjerg í Danmörku þar sem hann tók þátt í söngkeppni kvartetta, þar lentu þeir félagar í þriðja sæti en alls voru kvartettarnir níu talsins og frá flestum hinum Norðurlöndunum.

Geysiskvartettinn starfaði til ársins 1990 en þá lagðist starf hans niður um svipað leyti og Karlakórinn Geysir sameinaðist Karlakór Akureyrar, sögu hans var þó ekki fyllilega lokið því árið 1997 komu þeir félagar aftur saman og sungu á afmælishátíð Karlakórsins Geysis, og einnig árið 2000 þegar kvartettinn söng á minningartónleikum um Jakob Tryggvason sem hafði látist 1999.

Platan sem komið hafði út árið 1979 var endurútgefin árið 2002 á geisladiski en hún hafði þá verið ófáanleg um árabil, á þeirri endurútgáfu var einnig að finna fimm aukalög sem ekki höfðu komið út áður.

Efni á plötum