Afmælisbörn 17. júlí 2021

Óskar Guðjónsson

Í dag eru fjögur afmælisbörn tengd íslenskri tónlist á lista Glatkistunnar, þau eru eftirfarandi:

Erdna (Ragnheiður) Varðardóttir söngkona er fjörutíu og sjö ára gömul í dag. Hún hefur einkum sérhæft sig í trúarlegri og gospeltónlist, sungið til að mynda með Gospelkór Fíladelfíu en einnig hefur komið út jólaplata með henni.

Óskar Guðjónsson saxófónleikari er fjörutíu og sjö ára gamall á þessum degi. Óskar hefur starfrækt og leikið með fjölda sveita sem margar eru djass- og fönktengdar og má þar nefna ADHD, Dýrin í Hálsaskógi, Jagúar, Astral sextett og Delerað en hann hefur jafnframt leikið sem session leikari á ógrynni útgefinna platna auk þess sem hann á nokkrar sólóplötur að baki og í félagi við aðra.

Einar (Einarsson) Markan baritónsöngvari (f. 1902) átti einnig afmæli þennan dag en hann var bróðir Maríu og Sigurðar Markan sem einnig voru þekkt söngfólk. Fjölmargar 78 snúninga plötur komu út með söng Einars á þriðja áratug síðustu aldar, einnig þar sem hann söng ásamt Maríu systur sinni og Eggert Stefánssyni. Einar lést 1973.

Gissur Ingi Geirsson eða Gissur Geirs eins og hann var iðulega nefndur var einn af eftirminnilegri sveitaballakóngum Suðurlands hér á árum áður. Gissur (f. 1939) sem spilaði á hljómborð, harmonikku og saxófón starfrækti fjölmargar sveitir, Hljómsveit Gissurar Geirs, Caroll quintet, Tónabræður og Glæsir voru meðal sveita hans og oft sungu systur hans, Úlfhildur og Hjördís Geirs í þeim sveitum. Gissur lést 1996.

Vissir þú að út hefur komið harmonikkuplata með lögum hljómsveitarinnar Nýdanskrar?