
Funkstrasse
Hljómsveitin Funkstrasse (einnig ritað Funkstraße / Fönkstrasse) lífgaði töluvert upp á músíklíf höfuðborgarsvæðisins á fyrri hluta tíunda áratugarins en sveitin var angi af rokksveitinni Ham, eins konar diskóarmur sveitarinnar ef svo mætti að orði komast. Sveitin var þannig náskyld Jazzhljómsveit Konráðs Bé sem hafði svipuðu hlutverki að gegna litlu fyrr en í þeim báðum gegndu meðlimir eins konar gælunöfnum sem kalla mætti aukasjálf. Bogomil Font hafði orðið til sem sjálfstætt fyrirbæri tengt Jazzhljómsveit Konráðs Bé en Prófessor P-Imp (eða Prófessorinn) úr Funkstrasse hefur á síðari tímum öðlast sjálfstætt líf og poppað upp á ólíklegustu stöðum.
Hljómsveitin Ham hafði starfað í nokkur ár og hafði Sigurjón Kjartansson gítarleikari sveitarinnar og helsti hugmyndasmiður hennar fengið það hlutverk að gera tónlist við kvikmynd Óskars Jónassonar, Sódómu árið 1991 en þar var Ham í töluvert stóru hlutverki undir nafninu Helia. Í því umhverfi varð Funkstrasse til sem eins konar hliðarverkefni Ham, hljómsveit sem lék diskófönk, einnig kallað þungafönk og var auðvitað grínsveit. Meðlimir sveitarinnar sem komu út Ham voru auk Sigurjóns sem söng bakraddir, þeir Óttarr Proppé söngvari (Prófessor P-Imp), Björn Blöndal bassaleikari og Jóhann Jóhannsson sem gekk til liðs við Ham um svipað leyti en hann lék á gítar og annaðist forritun. Margrét Kristín Blöndal (Magga Stína) kom svo inn sem fimmti meðlimur í þessa fyrstu útgáfu Funkstrasse en hún hafði þá verið í Risaeðlunni (og Jazzhljómsveit Konráðs Bé ásamt Sigurjóni o.fl.).

Sigurjón, Páll Óskar og Jóhann
Þegar tónlistin úr Sódómu Reykjavík kom út á plötu sumarið 1991 innihélt hún tvö lög með sveitinni, Komdu í partý og Niðri í bæ, og um svipað leyti kom lag með henni einnig á safnplötunni Bandalög 5 (Komdu með (meira, meira, meira)) sem Steinar gáfu út. Þar með var Funkstrasse komin á kortið án þess þó að hafa leikið opinberlega en það átti ekki eftir að gerast fyrr en í febrúar 1993. Sveitin spilaði aldrei mikið enda voru þeir Ham-liðar töluvert hlaðnir verkefnum þarna en hún vakti þó iðulega athygli þegar það gerðist.
Árið 1993 var Páll Óskar Hjálmtýsson að vinna að sinni fyrstu breiðskífu, Stuð sem kom svo út um haustið. Hann hafði fengið til liðs við sig þá Jóhann og Sigurjón til verksins og segja má að andi Funkstrasse hafi heldur betur legið yfir gerð þeirrar plötu, ekki aðeins voru þeir Jóhann og Sigurjón áberandi sem höfundar tónlistarinnar heldur var tónlistin mjög í anda Funkstrasse og heyra má t.d. mikil líkindi milli laga sveitarinnar úr Sódómu og upphafslags Páls Óskars á Stuð, TF-Stuð. Þá komu þau Magga Stína og Óttarr einnig við sögu plötunnar, Óttarr sem Prófessorinn (í laginu Leitin að prófessornum) en það var í fyrsta sinn sem hann birtist utan Funkstrasse með sína sérstöku rödd. Þess má og geta að Arnar Geir Ómarsson trommaði plötuna en hann átti síðar eftir að ganga til liðs við sveitina.
Funkstrasse lék lítið sumarið 1993, líklega aðeins tvívegis en sveitin átti þó lag (Prófessorinn ráðleggur) á safnplötunni Núll&Nix, 1994 kom sveitin svo við sögu á safnplötunni Smekkleysa í hálfa öld með lagið HM Atómíka (Heimsmeistarakeppni í bassaleik) en um það leyti sem síðarnefnda platan kom út voru Ham hættir. Aldrei stóð þó annað til en að hliðarverkefnið Funkstrasse héldi áfram störfum og þarna voru sveitarliðar farnir að huga að útgáfu plötu með henni.

Funkstrasse á sviði
Funkstrasse kom ekki fram opinberlega næst fyrr en vorið 1995 er sveitin lék á tónleikum á Tunglinu og þá var hún töluvert breytt, Guðni Finnsson bassaleikari, Pétur Hallgrímsson gítarleikari og áðurnefndur Arnar Geir Ómarsson trommuleikari voru þá í sveitinni auk Sigurjóns, Óttars, Jóhanns og Möggu Stínu en heimildir segja að sveitin hafi um þessar mundir innihaldið allt að tíu meðlimi. Nöfn eins og söngkonurnar Sara Guðmundsdóttir (sem var þá í Lhooq ásamt Jóhanni og Pétri) og Emilíana Torrini hafa verið nefnd en einnig Úlfur Eldjárn [hljómborðsleikari?] og Óskar Guðjónsson saxófónleikari. Ekki er víst að þau hafi þó öll verið samtímis í Funkstrasse.
Sumarið 1995 var Funkstrasse líklega virkust en sveitin lék þá mjög víða og oft, m.a. á frægri útihátíð við Kirkjubæjarklaustur, UXA 95 og Rykkrokk-hátíðinni. Safnplatan Journey to the top of the world: Kirkjubæjarklaustur, gaf gefin út í tenglum við Uxa-hátíðina og þar átti sveitin lagið Prófessorinn kennir dans. Fleiri fréttir þess efnis að sveitin væri að vinna að plötu birtust, og nú var gefið út að hún kæmi út um páskana 1996 – vinnuheiti hennar var sagt vera Skert flog en hún kom aldrei út, hins vegar kom síðar út plata með endurreistri Ham undir sama nafni.
1996 spilaði Funkstrasse lítið framan af ári, birtist reyndar ekki fyrr en um vorið en fór þá í eins konar samstarf ásamt SSSól, Spoon, Botnleðju (og Astral sextett) en sveitirnar spiluðu eitthvað saman á tónleikum og dansleikjum um sumarið, oftast þó í sitt hverju lagi með SSSól. Safnplata með þessu samstarfi kom út undir titlinum Súper 5 en þar átti Funkstrasse þrjú lög (Þú hefur fengið nóg (af því að fá ekki nóg), Ferðalag og Prófessorinn ráðleggur). Sveitirnar hituðu svo upp fyrir bresku sveitin Pulp í Laugardalshöllinni um sumarið.
Minna kvað að Funkstrasse eftir þetta sumar, sveitin virtist enn vera að vinna að plötugerð en svo heyrðist ekkert frá henni fyrr en að platan Megasarlög kom út haustið 1997 en á þeirri plötu heiðruðu hinir ýmsu tónlistarmenn og hljómsveitir meistara Megas, framlag Funkstrasse var lagið Paradísarfuglinn af plötu Megasar og Spilverks þjóðanna, Á bleikum náttkjólum.

Funkstrasse 1995
Eftir það heyrðist ekkert frá sveitinni og aldrei hefur platan komið út henni. Hins vegar hefur sveitin að minnsta kosti tvívegis komið saman í seinni tíð, annars vegar árið 2005 þegar Megas var heiðraður með tónleikum á sextugs afmælinu og svo árið 2007. Prófessorinn (Óttarr Proppé) hefur aftur á móti lifað ágætu lífi en hann hefur öðlast nýtt líf utan Funkstrasse eins og komið hefur fram, fyrst á plötu Páls Óskars, Stuð en svo aftur á Diskóeyjunni, plötu Prófessorsins og Memfismafíunnar sem kom út 2010 en þar snýst sagan um Prófessorinn. Fimm árum síðar kom út önnur plata frá sömu aðilum, Karnivalía og kom prófessorinn þar við sögu en í öllu minna hlutverki. Þá hefur Óttarr notað rödd prófessorsins með hljómsveit sinni, Dr. Spock en óvíst er hvor þeirra er þar á ferð, Óttarr eða prófessorinn.
Áður útgefin lög hafa komið út með Funkstrasse á safnplötum á nýrri öld, Alltaf sama svínið: Smekkleysa í 15 ár (2002) og Lobster or fame: Two decades of Badtaste (2003).
Í raun hefði verið unnt að gefa út plötu með sveitinni sem innihéldi þau níu lög (plús Megasarlagið) sem höfðu komið út á safnplötum og sjálfsagt eru til nokkur lög tilbúin eða nánast fullunnin til útgáfu, e.t.v. koma þau einhvern tímann út.