Íslenskir tónar [2] (1991-93)

islenskir-tonar-2-1992

Íslenskir tónar

Hljómsveitin Íslenskir tónar vakti nokkra athygli á árunum 1991-93, sveitin var nokkuð virk um tíma og átti þá efni á safnplötum.

Íslenskir tónar voru stofnaðir í Menntaskólanum við Sund fyrri part árs 1991. Á þeim tíma var heilmikil tónlistarvakning innan skólans, framsækinn andi í loftinu og fjölmargir tónleikar haldnir innan veggja hans, og innan þess andrúmslofts varð sveitin til.

Íslenskir tónar var kvintett framan af og þá voru þeir Þórir Viðar Þorgeirsson bassaleikari, Snorri Sturluson gítarleikari og söngvari, Stefán Már Magnússon gítarleikari og söngvari, Páll Úlfar Júlíusson trommuleikari og Finnur Björnsson hljómborðsleikari í henni en fljótlega gekk Ottó Tynes söngvari til liðs við sveitina, hann hafði þá verið með Þóri og Snorra í Ottó og nashyrninginum en Páll og Stefán komu úr hljómsveitinni Dufþaki, Finnur hljómborðsleikari hafði hins vegar áður verið í Moriarty.

Sveitin lék framan af einhvers konar illskilgreinanlegt indí-rokk en síðar breyttist tónlistin nokkuð og hún sótti áhrif til bresku dansrokkssenunnar sem þá var í gangi og lék m.a. á nokkrum neðanjarðartónleikum þess tím, rave-samkomum. Þeir félagar störfuðu eitthvað fram á árið 1993 en þá lagði sveitin upp laupana

Íslenskir tónar áttu efni á safnplötunum Icerave (1992) og Núll og nix: ýkt fjör (1993) og lék á útgáfutónleikum sumarið 1993 tengt síðarnefndu plötunni.