Safnarabúðin [annað] (1974-2007)

safnarabudin-auglysing

Auglýsing frá Safnarabúðinni

Safnarabúðin er líkast til þekktasta verslun hérlendis sem hefur haft með kaup/sölu á notuðum plötum að gera.

Verslunin var sett á laggirnar í janúar 1974 af Sæmundi B. Elímundarsyni og var í fyrstu helguð frímerkjum mestmegnis. Smám saman bættust við bækur, tímarit, plötur og kassettur, og enn síðar videóspólur, geislaplötur og dvd-diskar.

Safnarabúðin var fyrst um sinn á annarri hæð Laugavegs 17, þaðan flutti hún á Laufásveg, Bókhlöðustíg og aftur á Laugaveg (26) þar til hún fór í endanlegt húsnæði að Frakkastíg 7 haustið 1979 þar sem hún var starfrækt til loka.

Sæmundur rak Safnarabúðina fram til um 1990 þegar sonur hans tók við rekstrinum og sinnti honum allt þar til verslunin lokaði haustið 2007. Þá hafði hún verið starfandi og þjónað plötusöfnurum og öðru áhugafólki um tónlist, frímerki og kvikmyndir, í rösklega þrjátíu og þrjú ár.