Skuggar [12] (1974-86)

Skuggar

Danshljómsveitin Skuggar var starfrækt um töluvert langt skeið á áttunda og níunda áratug síðustu aldar en ekki er þó ljóst hvort hún starfaði alveg samfellt.

Sveitin mun hafa verið stofnuð haustið 1974, hún var lengst af tríó sem ráðin var sem húshljómsveit í Þjóðleikhúskjallaranum og spilaði hún þar að minnsta kosti fram á vorið 1979. Eftir það var hún mest í árshátíðarspilamennsku og þorrablótum, og fór sveitin í nokkur skipti til Lundúna og Lúxemborgar og lék fyrir Íslendinga þar á þorrablótum. Skuggar virðast hafa leikið mun stopulla á níunda áratugnum en starfaði þó að minnsta kosti til 1986.

Það voru þeir Loftur Hilmar Loftsson trommuleikari, Sveinn B. Ingason gítarleikari og Guðlaugur Heiðar Jörundsson píanó- og harmonikkuleikari sem skipuðu sveitina framan af en Sigurður Þórarinsson kom einnig við sögu sveitarinnar, e.t.v. tók hann við af Guðlaugi sem hætti árið 1977. Fleiri gætu hafa komið við sögu sveitarinnar.

Skuggar munu fyrst og fremst verið með blandaða dansleikjatónlist og hafa þá bæði væntanlega boðið upp á gömlu dansana og „nýjustu“ smellina, allir meðlimir sveitarinnar sungu.

Árið 1994 lék sveit undir þessu nafni á árshátíð en ekki liggur fyrir hvort um sömu sveit var að ræða enda voru þá komin átta ár síðan síðast spurðist til hennar. Frekari upplýsingar um sveitina eru vel þegnar.