Skuggar [2] (1960-62)

Fjölmargar heimildir er að finna um keflvíska skólahljómsveit sem starfrækt var í upphafi sjöunda áratugar síðustu aldar enda var þessi sveit að einhverju leyti forveri hinna einu sönnu Hljóma frá Keflavík, gallinn er hins vegar að heimildirnar eru bæði misvísandi og sundurleitar og því verður að geta nokkuð inn í eyðurnar.

Svo virðist sem hljómsveitin sé stofnuð árið 1960 í gagnfræðaskólanum í Keflavík og mun hún að öllum líkindum hafa verið nafnlaus í byrjun, það var ekki fyrr en síðar að hún hlaut nafnið Skuggar í höfuðið á bresku gítarsveitinni The Shadows sem þá hafði verið að slá í gegn víða um Evrópu um nokkurra ára skeið en hafði ekki mikið verið leikin í Kanaútvarpinu sem bítlakynslóðin svonefnda í Keflavík hlustaði mikið á – meðlimir sveitarinnar hafa því kynnst The Shadows í gegnum aðrar leiðir.

Líklega var fyrsta útgáfa sveitarinnar á þá leið að Gunnar Þórðarson var trommuleikari, Páll Bjarnason píanóleikari og Erlingur Björnsson gítarleikari, sveitin hefur að líkindum á þeim tímapunkti verið nafnlaus og söng Rúnar Júlíusson á einni skólaskemmtun með þeim félögum. Það þarf varla að taka fram að þeir Hljómafélagar voru að stíga sín fyrstu skref á tónlistarsviðinu, Gunnar reyndar á trommur og þarna þreytti Rúnar frumraun sína sem söngvari.

Það var svo næsta vetur (1961-62) að hljómsveitin hlaut Skugga-nafnið, þá höfðu orðið þær breytingar á liðsskipan hennar að Gunnar hafði fært sig yfir á bassa (gítarinn kom síðar) en aðrir meðlimir sveitarinnar voru Grétar Skaptason gítarleikari, Þorsteinn Þorsteinsson gítarleikari, Björn Ólafsson píanóleikari og Páll Ólafsson trommuleikari. Söngvarar sveitarinnar voru hin fjórtán ára gamla María Baldursdóttir (síðar eiginkona Rúnars) og Karl Hermannsson (síðar söngvari Hljóma), sveitin mun hafa leikið eitthvað á skóladansleikjum og jafnvel utan skólans og var að minnsta kosti einu sinni auglýst undir nafninu Skugga, Kalli og Maja. Einnig mun Rúnar Marvinsson (síðar kunnur kokkur) hafa sungið með sveitinni þennan vetur. Grétar gítarleikari átti svo eftir að flytjast til Vestmannaeyja og stofna aðra sveit þar undir sama nafni. bræðurnir Jóhann G. Jóhannsson og Eiríkur Jóhannsson (báðir á gítar) munu hafa komið við sögu Skugga á einhverjum tímapunkti en ekki liggur fyrir hvenær, sá síðarnefndi gæti hafa sungið einnig.

Þeir sem til þekkja vel til sögu Skugga mættu gjarnan senda leiðréttingar og lagfæringar um sveitina en erfitt er að geta í eyðurnar eins og segir hér að ofan, ekki hjálpar heldur til að fáeinum árum síðar (1964-67) starfaði hljómsveit skólans aftur undir sama nafni. Sú hljómsveit er þó skráð undir Skuggar [5].

Þeir Gunnar, Rúnar, Erlingur og Karl áttu síðar eftir að skipa Hljóma ásamt fleirum