Skólahljómsveit Gagnfræðaskóla Keflavíkur (1956-61)

Skólahljómsveit Gagnfræðaskóla Keflavíkur 1956

Í Gagnfræðaskólanum í Keflavík starfaði merkileg hljómsveit í kringum 1960 en hún ásamt Drengjalúðrasveit Keflavíkur innihélt kynslóð tónlistarfólks sem hratt af stað bylgju með hljómsveitina Hljóma í fararbroddi og á eftir fylgdu ótal þekktir tónlistarmenn og hljómsveitir úr bænum sem síðan þá hefur verið kallaður bítlabærinn Keflavík, hér má nefna Gunnar Þórðarson, Rúnar Júl, Magnús og Jóhann, Magnús Kjartansson, Jóhann G. Jóhannsson, Engilbert Jensen, Þóri Baldursson, Óðmenn og Júdas svo aðeins nokkur nöfn séu nefnd.

Hljómsveitin sem nefndist Skólahljómsveit Gagnfræðaskóla Keflavíkur en var oft einnig kölluð Hljómsveit GK, var líklega stofnuð haustið 1956 og voru upphaflegir meðlimir hennar þeir Agnar Breiðfjörð Sigurvinsson saxófónleikari, Magnús Sigtryggsson harmonikkuleikari, Eggert V. Kristinsson trommuleikari, Hörður Jónasson klarinettuleikari, Ragnar Lúðvíksson gítarleikari og Þórir Baldursson píanóleikari. Þeir voru allir á aldrinum fjórtán til sextán ára nema Þórir sem var lang yngstur, tólf ára og var þá reyndar enn í barnaskólanum. Söngvarar voru Engilbert Jensen og Einar Júlíusson. Sveitin lék á skemmtunum og dansleikjum innan gagnfræðaskólans og naut þar nokkurra vinsælda, og átti eftir að starfa í nokkur ár með nokkrum mannabreytingum enda tóku yngri meðlimir við þegar þeir eldri útskrifuðust úr skólanum.

Ári síðar (1957-58) voru í sveitinni þeir Eggert, Þórir, Magnús, Engilbert og Ragnar Eðvaldsson gítarleikari en ekki liggur fyrir hverjir skipuðu sveitina næsta skólaár eftir það. Veturinn 1959-60 kom Gunnar Þórðarson trommuleikari að öllum líkindum inn í sveitina og aðrir meðlimir hennar þá voru Erlingur Björnsson gítarleikari og Páll V. Bjarnason píanóleikari, sveitin var þá bassaleikaralaus en Karl Hermannsson var söngvari hennar. Ýmsir tóku lagið með hljómsveitinni á þeim tíma og má hér nefna Rúnar Marvinsson (síðar veitingamaður og kokkur) og sjálfur Rúnar Júlíusson sem þá var ekki byrjaður í tónlist.

Skólahljómsveit Gagnfræðaskóla Keflavíkur

Síðasta skólaárið sem Skólahljómsveit Gagnfræðaskóla Keflavíkur starfaði var veturinn 1960-61 en þá hafði sveitin tekið sér nafnið Skuggar enda var gítartónlist í ætt við þá sem The Shadows léku í brennidepli þá stundina. Meðlimir sveitarinnar voru þá Gunnar Þórðar sem þá hafði fært sig yfir á gítar (reyndar eftir að hafa leikið á bassa um tíma), Grétar Skaptason gítarleikari, Þorsteinn Þorsteinsson gítarleikari, Björn Ólafsson píanóleikari og Páll Ólafsson trommuleikari, söngvarar voru Karl Hermannsson og María Baldursdóttir yngri systir Þóris.

Sveitin starfaði áfram í nokkur ár undir Skugga-nafninu eftir að skólagöngu við Gagnfræðaskóla Keflavíkur lauk og hugsanlega vantar í þessa upptalningu einhverja þeirra sem störfuðu með sveitinni meðan hún var enn skólahljómsveit, upplýsingar þ.a.l. má gjarnan senda Glatkistunni.

Margir af þeim fjölmörgu hljóðfæraleikurum og söngvurum sem störfuðu með Skólahljómsveit Gagnfræðaskóla Keflavíkur áttu síðar eftir að starfa með Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar í Keflavík og má með réttu segja að sveitin hafi verið eins konar uppeldisstöð fyrir Guðmund, og á sama hátt má segja að hljómsveit Guðmundar hafi verið stökkpallur fyrir næsta stig því að Gunnar, Eggert og Einar stofnuðu Hljóma þegar Guðmundur hætti með sína sveit vorið 1963. Þeir fengu til liðs við sig Rúnar og Erling sem kunnugt er og síðar einnig Engilbert – allir vita hvernig saga Hljóma fór en einnig áttu fleiri þeirra sem komu við sögu skólahljómsveitarinnar eftir að gera það gott s.s. Þórir og María.