Skólahljómsveit Hveragerðis (1977-95)

Skólahljómsveit Hveragerðis 1986

Skólahljómsveit Hveragerðis var starfrækt um árabil innan grunnskólans í Hveragerði og var fastur liður í menningarlífi bæjarins, lék við ýmis tækifæri innan grunnskólans, í kirkjustarfinu og þegar kveikt var á jólatréi þeirra Hvergerðinga við upphaf aðventu, þá lék sveitin við ýmis einstök tilefni eins og t.d. við vígslu Hótels Arkar árið 1986 og fór að minnsta kosti einu sinni í tónleikaferð til útlanda en þá var ferðinni heitið til Færeyja.

Sveitin, sem einnig gekk undir nafninu Lúðrasveit Hveragerðis mun hafa verið stofnuð 1977 en ekki liggur fyrir hver stjórnaði henni í upphafi, Guðmundur Eiríksson var stjórnandi hennar árið 1979 og stýrði henni líklega til 1982 þegar Kristján Ólafsson skólastjóri tónlistarskólans í Hveragerði tók við en líklega var sveitin starfrækt í einhvers konar samstarfi grunn- og tónlistarskólans.

Hljómsveitin var um tíma talsvert öflug sveit og þegar haldið var upp á tíu ára afmæli hennar árið 1987 voru um 40 meðlimir í henni sem hlýtur að teljast dágott í ekki stærra bæjarfélagi. Sveitin var enn í fullu fjöri við upphaf tíunda áratugarins og árið 1992 var hún í eins konar stuttu samstarfi við skólahljómsveitina í Þorlákshöfn en eftir það fer minna fyrir henni, hún var þó ennþá starfandi 1995 en eftir það lítur út fyrir að dagar hennar hafi verið taldir – ekki liggur fyrir hver stjórnaði sveitinni undir lokin.

Árið 1999 var hljómsveit starfandi innan tónlistarskólans og lék a.m.k. einu sinni opinberlega en litlar upplýsingar er að finna um þá sveit, hvort hún telst vera hluti sögu Skólahljómsveitar Hveragerðis.