Skuggar [7] (1964-67)

Skuggar

Skólahljómsveit í Gagnfræðaskólanum í Keflavík starfaði á árunum 1964-67 undir nafninu Skuggar en fáum árum fyrr hafði starfað þar sams konar sveit undir sama nafni, hér er umfjöllunum um sveitirnar haldið aðskildum enda voru þær ekki skipaðar sömu meðlimum.

Skólahljómsveitir höfðu líklega verið starfandi nokkuð samfleytt við skólann á sjöunda áratugnum en Skuggar munu hafa fengið nafn sitt snemma árs 1964 eftir því sem heimildir herma og starfaði hún líklega til vorsins 1967. Skuggar léku fyrst um sinn mestmegnis innan veggja skólans en síðan einnig utan hans og kom þá m.a. fram með Lúdó sextett og Hljómum en nokkrir meðlimir síðarnefndu sveitarinnar höfðu leikið með Skuggum hinni fyrri.

Meðlimir Skugga voru Stefán Ólafsson gítarleikari (síðar félagsfræðiprófessor), Valdimar Harðarson gítarleikari, Ingólfur Matthíasson bassaleikari, Ólafur Júlíusson trommuleikari (bróðir Rúnars Júl úr Hljómum) og Friðrik Ragnarsson söngvari. Einnig gæti Jón Eggertsson hafa komið við sögu sveitarinnar.

Skuggar komu saman á nýjan leik við upphaf nýrrar aldar.