Saltvík ´71 [tónlistarviðburður] (1971)

saltvik-71a

Tónlistargjörningur í Saltvík

Útihátíðin Saltvík ´71 er að öllum líkindum með þekktustu unglingasamkomum sem haldnar hafa verið hérlendis.

Það voru hljómsveitin Trúbrot og æskulýðsráð Reykjavíkur með Hinrik Bjarnason í forsvari, sem stóðu að hátíðinni en hún sótti fyrirmynd sína til hinnar þriggja daga Woodstock hátíðar sem haldin hafði verið í ágústmánuði tveimur árum fyrr í New York fylki í Bandaríkjunum. Af þeirri ástæðu gekk hin íslenska samkoma einnig undir nafninu Saltstokk.

Saltvíkur hátíðin var haldin í samnefndri vík á Kjalarnesi um hvítasunnuhelgina 1971, sem þá var í lok maí og því gat brugðið til beggja vona hvað veðurfar varðaði. Enda fór svo að rigning og rok settu heldur betur svip sinn á hátíðina en á laugardeginum fór að rigna svo hressilega að svæðið varð fljótlega að drullusvaði.

Það kom þó ekki í veg fyrir að fjöldi fólks lét sjá sig í Saltvík og talið er að yfir tíu þúsund manns hafi mest verið á svæðinu aðfararnótt laugardagsins en þá flykktist fólk upp á Kjalarnes eftir að skemmtistaðir lokuðu í höfuðborginni. Fullvíst má telja að fjöldinn hefði orðið miklu meiri ef veður hefði verið skaplegra. Veður skánaði heldur þegar leið á hátíðina og um miðjan sunnudag hætti alveg að rigna.

saltvik-71b

Hátíðargestir í stuði

Dagskrá Saltvíkur-hátíðarinnar var fjölbreytileg en alls tróðu upp tutttugu og átta hljómsveitir og tónlistarfólk. Þeirra á meðal voru auðvitað Trúbrot sem var vinsælasta hljómsveit landsins um þær mundir, og fluttu megnið af …lifun sem þá nýlega komin út, en aðrar sveitir og flytjendur voru t.a.m. Mánar, Haukar, Náttúra, Árni Johnsen, Trix, Júbó, Arkimedes, Tiktúra, Einar Vilberg o.m.fl.

Þrátt fyrir afleitt veður heppnaðist Saltvíkur-hátíðin að mörgu leyti vel, samfelld tónleikadagskrá hófst klukkan tíu á morgnana og stóð fram á næturnar, og meira að segja var lifandi tónlistarflutningur á mánudeginum á meðan hátíðargestir voru að tygja sig til heimferðar.

Saltvík varð þó mörgum umræðuefni lengi á eftir og segja má að lesendabréf dagblaðanna hafi um sumarið verið meira og minna full af tuði eldri kynslóða og viðbrögðum þeirra yngri í kjölfarið. Drykkja unglinganna var fólki vinsælt umræðuefni og í því samhengi var dregið fram að franskir sjóliðar hefðu verið áberandi drukknir á svæðinu, bandarískir hermenn af Keflavíkurflugvelli hefðu a.á.m. verið til fyrirmyndar. Einnig var nokkuð gagnrýnt hversu margir ungir krakkar voru á svæðinu, ekkert aldurstakmark var inn á hátíðina en tónleikadagskráin tók mið af smekk fjórtán ára unglinga, að sögn eins þeirra sem stóð að hátíðinni. Almennt séð höguðu hátíðargestir sér vel þrátt fyrir mikla ölvun en það er eftirtektarvert að eftir hátíðina voru mörg hundruð skópara í óskilamunum, skýringuna má eflaust rekja til þeirra berfættu vakningar sem var órjúfanlegur hluti hippismans og áberandi á Woodstock.

saltvik-71d

Saltvík ´71

Til stóð að gera kvikmynd um Saltvík ´71 og gefa út plötur líka eins og gert hafði verið á Woodstock en af því varð aldrei af einhverjum ástæðum. Hins vegar má vel vera að kvikmyndefni leynist einhvers staðar frá hátíðinni.

Hugmyndir voru uppi um að endurtaka leikinn ári síðar en af þeim áformum varð ekki. Saltvík ´71 var auðvitað ekki fyrsta útihátíðin var haldin var á Íslandi, fólk hafði hist um hvítasunnuhelgina fyrr og einnig síðar en verslunarmannahelgin hefur aftur á móti orðið ofan á í útihátíðahefðum Íslendinga enda veður yfirleitt betra í ágútsbyrjun.