Acropolis (1970-72)

Acropolis 19711

Acropolis

Hljómsveitin Acropolis (var kölluð Ítök í blábyrjun) var sjö manna sveit sem innihélt m.a. blásara, stofnuð upp úr Tárinu og Tjáningu um áramótin 1969/70. Margir efuðust um að svo fjölmennt band borgaði sig á sama tíma og sveitir með færri meðlimum kvörtuðu undan því lítið væri til skiptanna, þeir Acropolis menn létu slíkt sem vind um eyru þjóta.

Meðlimir sveitarinnar voru þeir Svein Arve Hovland trompet- og gítarleikari, Ólafur Garðarsson trommuleikari, Ólafur Torfason hljómborðsleikari, Páll Eyvindsson bassaleikari, Sigþór Hermannsson saxófónleikari, Þorgils Baldursson gítarleikari og Benedikt Torfason söngvari. Sveitin í þeirri mynd varð ekki langlíf en ekki varð það þó beinlínis fjölmennið sem gerði útaf við hana heldur ósætti í kringum einn meðlima hennar, fljótlega heltust úr lestinni þeir Páll og Ólafur trommuleikari en í stað þeirra komu ásláttarleikarinn Áskell Másson og Gunnar [?] bassaleikari. Ekki gekk það heldur því fljótlega hættu þeir Benedikt og Svein Arve, hinir hættu skömmu síðar. Þá hafði sveitin einungis spilað saman í fáa mánuði.

Flestum á óvart birtist sveitin þó aftur ári síðar en í það skiptið var hún öllu fámennari. Úr gömlu útgáfunni komu Páll bassaleikari, Ólafur orgelleikari og Sigþór sem nú spilaði reyndar á gítar, en auk þeirra var trommuleikarinn Halldór Olgeirsson fjórði meðlimurinn. Þessi síðari útgáfa Acropolis gekk mun betur og lengur og spilaði á öldurhúsum bæjarins í um eitt og hálft ár áður en hún lagði endanlega upp laupana síðsumars 1972. Þá höfðu mannabreytingar orðið í sveitinni, Gunnar Jósefsson trommuleikari hafði gengið til liðs við sveitina sem og Sævar Árnason gítarleikari.
Þótt Acropolis hafi svosem ekki breytt tónlistarsögunni á neinn hátt náði hún þó að spila á frægri útihátíð sem haldin var í Saltvík um hvítasunnuhelgina 1971.