Faxar (1966-69)

Faxar[2]1

Faxar

Faxar voru í raun fyrsta meikhljómsveit Íslands, hún spilaði víða um Noreg og Svíþjóð og gerði það ágætt þótt ekki liggi neitt markvert á plasti með þeim nema undirleikur á lítilli plötu með bandaríska söngvaranum Al Bishop (1926-97). Mörgum þætti það þó gott.

Sögu Faxa má skipta í tvennt, jafnvel að um tvær sveitir sé að ræða. Hún var stofnuð vorið 1966 og í þessari frumútgáfu sveitarinnar voru Bjarni Ragnar Jónsson trommuleikari, Ólafur Rúnar Þórðarson gítarleikari, Þorgils Baldursson gítarleikari og Páll Dungal bassaleikari. Þórhallur Sigurðsson (Laddi) leysti Bjarna þó af á trommunum áður en eiginleg saga sveitarinnar hefst vegna þess að kærasta Bjarna var því mótfallin að hann væri í hljómsveitinni og Þórhallur var því tekinn inn í staðinn. Þórhallur sagði síðar í blaðaviðtali að umrædd kærasta hefði falið föt Bjarna til að koma í veg fyrir að hann spilaði með Föxum. Þess má líka geta að Þórhallur var upphaflega hugsaður sem gítarleikari sveitarinnar en síðan komið í ljós að hann kunni ekkert á hljóðfærið. Hann gat hins vegar sungið og því varð hann söngvari og trommuleikari Faxa.

Faxar voru fastráðnir sumarið 1966 á Seyðisfirði en um það leyti var síldarævintýrinu að ljúka fyrir austan land, þar sem sveitin dvaldi um sumarið eystra héldu margir að hún væri frá Seyðisfirði. Um haustið átti sögu sveitarinnar í raun að ljúka enda var hún aldrei hugsuð lengra en í þetta Seyðisfjarðarævintýri en það fór öðruvísi.

Um áramótin 1966/67 hefst síðari kafli sögu Faxa en þá ákváðu þeir félagar (sem nú voru á heimaslóðum á höfuðborgarsvæðinu) að stofna hljómsveit og lá beinast við að nota gamla nafnið. Þórhallur, Páll, Þorgils og Tómas Sveinbjörnsson gítarleikari frá Siglufirði (sem hafði komið inn fyrir Ólaf Rúnar) byrjuðu að æfa og síðan bættist í hópinn söngvarinn Haraldur Sigurðsson (Halli) bróðir Þórhalls en þeir urðu síðar þekktir sem gríntvíeykið Halli og Laddi. Haraldur hafði eitt sinn tekið lagið með Föxunum á balli sumarið á undan en hann var þaulvanur söngvari, hafði m.a. verið í bandarísku hljómsveitinni Halli and the Hobos.

Faxar21

Faxar á sviði

Faxar spiluðu nú á öldurhúsum borgarinnar og þar kom bandaríski söngvarinn Al Bishop til að hlusta á þá en hann hafði komið hingað til lands í nokkur skipti og sungið, hann bauð sveitinni að koma með sér til Noregs þar sem hann var búsettur, og spila undir í tónleikaferð með sér. Þeir Faxa-liðar voru meira en til í slíkt ævintýri og um sumarið 1967 fóru þeir fyrst í hringferð hér heima og síðan til Noregs og spiluðu víðs vegar um landið um fjögurra mánaða skeið, ekki var þó alveg um samfellda spilamennsku þar sem umboðsmanni Bishops sinnaðist við kappann og því urðu einhverjar tafir á að þeir byrjuðu. Þær tafir voru nýttar til að taka upp litla plötu þar sem Faxar léku undir við söng Bishops. Sú plata hefur líkast til ekki borist til Íslands.

Ferðin var æði skrautleg, í för með hópnum voru tvær stúlkur, sænsk vísnasöngkona og önnur söngkona sem hafði jafn mikinn áhuga á vísnasöngkonunni og aðrir meðlimir sveitarinnar. Sá áhugi var ekki gagnkvæmur og þeim viðskiptum lauk með því að sú samkynhneigða var látin hætta. Mannabreytingar urðu líka í Föxum í Noregi, Þórhallur hætti og Einar Óskarsson tók við trymbilstarfinu, Páll bassaleikari hætti líka og færði Tómas sig yfir á bassann en þeir félagar plötuðu norskan gítarleikara, Svein Arve Hovland  til liðs við sig og kom hann með sveitinni til Íslands að Noregstúr loknum. Hann átti eftir að ílendast nokkuð hérlendis og spila m.a. með Haukum.

Sveitin hélt áfram spilamennsku eftir að heim var komið og næsta sumar (1968) fór hún aftur utan, og nú til Svíþjóðar. Faxar voru þá skipaðir Tómasi á bassa, Svein Arve gítarleikara, Þorgils einnig á gítar, Einari á trommum og Haraldi söngvara. Enn kom sveitin heim til Íslands áður en hún hélt í þriðja skiptið utan og aftur til Svíþjóðar þar sem hún spilaði um haustið 1968. Sveitin virðist hafa gert það ágætt á þessum túrum sínum og leikið við nokkrar vinsældir.

Um áramótin 1968/69 hafði Haraldur fengið nóg og hætti og kom Benedikt Torfason (bróðir Harðar Torfa) inn sem nýr söngvari. Þá var greinilega komin nokkur þreyta og los á mannskapinn og um vorið 1969 hættu Tómas bassaleikari og Benedikt söngvari og komu tveir gamlir félagar inn í þeirra stað, Páll Dungal og Þórhallur sem nú söng eingöngu. Þannig skipuð spiluðu Faxar um sumarið 1969 á skemmtistöðum borgarinnar þar til sveitin að lokum hætti um haustið og önnur sveit, Tárið var stofnuð upp úr leifum Faxa.

Faxar komu saman 1987 þegar Ólafur Laufdal blés til Leitarinnar að týndu kynslóðinni á skemmtistaðnum Hollywood, og léku eina kvöldstund eða svo en þar með lýkur líka sögu þessarar stórmerku sveitar sem upplifði meikdrauminn í Noregi og Svíþjóð.

Efni á plötum