Fásinna (1983-85)

Fásinna1

Fásinna

Hljómsveitin Fásinna frá Eiðum og Egilsstöðum var starfandi á árunum 1983-85 en hún vann sér það helst til frægðar að sigra hljómsveitakeppni í Atlavík um verslunamannahelgina 1984, þar veitti sveitin verðlaununum viðtöku úr hendi Ringos Starr sem þar var staddur.

Ennfremur tók sveitin þátt í Músíktilraunum Tónabæjar 1985, komst þar í úrslit og gerði gott betur – lenti í þriðja sæti á eftir Gypsy sem sigraði og Special treatment (Greifunum) sem lentu í öðru sæti.

Meðal verðlauna í Músíktilraunum voru hljóðverstímar í Stúdíó Mjög og í kjölfarið gaf sveitin út sex laga plötu sem kom út sumarið 1985, Platan var samnefnd sveitinni og náði Hitt lagið nokkrum vinsældum í útvarpi. Um það leyti sem platan kom út hætti sveitin störfum.

Meðlimir Fásinnu voru í upphafi Bjarni H. Kristjánsson gítarleikari, Gissur Kristjánsson gítarleikari, Höskuldur Svavarsson bassaleikari og Sigurður Jakobsson trommuleikari en veturinn 1983-4 urðu trommuleikaraskipti þegar Kristján Kristjánsson tók við trommunum af Sigurði, Þórarinn Sveinsson hljómborðsleikari og Viðar Aðalsteinsson söngvari bættust í hópinn í stað Gissurar gítarleikara. Karl Erlingsson var einnig gítarleikari sveitarinnar um tíma og hugsanlega urðu einhverjar fleiri mannabreytingar í henni.

Plata þeirra Fásinnu-liða er löngu ófáanleg en Hitt lagið kom út á safnplötunni Í laufskjóli greina, sem gefin var út 1997 í tilefni afmælis Egilsstaðakaupstaðar.

Efni á plötum