Aage Lorange (1907-2000)

Aage Lorange

Aage Lorange

Aage Reinhart Lorange (f. 1907) var þrátt fyrir nafnið, íslenskur tónlistarmaður sem verður einna helst minnst fyrir að hafa starfrækt hljómsveitir undir eigin nafni í um þrjátíu ár um miðja 20. öldina.

Aage fæddist í Stykkishólmi en fluttist til Reykjavíkur um tíu ára aldur þar sem hann bjó æ síðan, hann hóf að læra á píanó hjá Páli Ísólfssyni og Emil Thoroddsen, og síðan tónfræði hjá Victor Urbancic.
Hann gekk 1923 til liðs við hljómsveit Þórarins Guðmundssonar sem var þá ein fyrsta alvöru hljómsveit Íslandssögunnar og sama ár átti hann þátt í stofnun Jazzbands Reykjavíkur, sjö manna hljómsveitar sem lék einkum á veitinga- og skemmtistöðum en hún starfaði í eitt ár.

Á þessum árum stundaði hann menntaskólanám en spilamennskan samhliða náminu var rektor skólans ekki að skapi enda var spilað flest kvöld vikunnar, og setti hann Aage úrslitakosti, annað hvort veldi hann námið eða tónlistina. Það var þó úr að samningar tókust þeirra á milli um að Aage fengi að spila á laugardagskvöldum. Hann lék einnig með Dansbandi Eimskipa, Hljómsveit Poul Bernburg og Hljómsveit Karls Runólfssonar áður en hann stofnaði eigið band, Hljómsveit Aage Lorange árið 1931 en hún starfaði allt til 1961 þótt hljóðfæraskipanin væri ekki alltaf sú sama. Á þeim árum voru hljómsveitastjórar ráðnir til skemmtistaðanna til að annast lifandi tónlist og þeir sáu síðan um að manna sveitirnar, þannig að ef því var að skipta gátu þeir skipt úr allri áhöfninni. Fyrst um sinn lék sveitin í Iðnó og síðar í Oddfellow húsinu en lengst lék hún í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll eða í níu ár og síðar í Tjarnarbúð, sveitin lék einnig mikið undir í revíusýningum. Fyrir vikið gekk Aage undir nafninu jazzkonungurinn. Hann starfaði einnig um skemmri tíma með Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar samhliða eigin sveit, auk þess að kenna á píanó.

Aage lék með hljómsveit sinni inn á nokkrar 78 snúninga plötur á sjötta áratugnum með Alfreð Clausen, Svavari Lárussyni og Soffíu Karlsdóttur en einnig lék Aage með Tríói Bjarna Böðvarssonar á plötu Sigurðar Ólafssonar.

Haustið 1961 hætti Aage öllum hljómsveitarekstri en lék þá áfram á píanó í hléum hljómsveita á skemmtistöðum fram á áttunda áratuginn og enn lengur lék hann dinnertónlist á veitingastöðum og við önnur tækifæri eða allt til ársins 1985. Hann hætti þó ekki að koma fram, t.d. Lék hann með sveit sem kallaðist Orchestra Hótel Borgar árið 1991 þegar sá staður var enduropnaður eftir breytingar, þá kominn vel á níræðisaldur. Jafnframt var hann framan af öflugur í félagsmálum tónlistarmanna, var einn af stofnendum Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) og sat í stjórn um árabil.

Þess má geta að Emilíana Torrini söngkona er barnabarn Aage, hann lést árið 2000.