Þrjú á palli (1969-80)

Fyrsta myndin sem birtist af Þremur á palli í fjölmiðlum

Þjóðlagasveitin Þrjú á palli skipar sér í hóp þekktustu sveita af sinni tegund hérlendis, hún naut mikilla vinsælda á sínum tíma og hafa mörg laga sveitarinnar orðið sígild og heyrast þ.a.l. enn spiluð í útvarpi og útgefin á safnplötum.

Hálfgerð tilviljun réði því að tríóið varð að veruleika en Jónas Árnason hafði um haustið 1969 samband við Troels Bendtsen í því skyni að fá hann ásamt fleirum í söngtríó sem hefði hlutverk í nýjum söngleik, Þið munið hann Jörund, sem þá átti að setja á fjalirnar í Iðnó en Jónas hafði þá þegar slegið í gegn með nokkra söngleiki s.s. Delerium Búbónis. Jónas hafði þá væntanlega í huga að Troels kallaði saman Savanna tríóið sem hann hafði áður verið hluti af og notið mikilla vinsælda, en þegar því var ekki við komið hafði Troels samband við Eddu Þórarinsdóttur leikkonu og Helga R. Einarsson en sá síðarnefndi hafði þá m.a. verið í Hryntríóinu. Sagan segir að einnig hafi verið rætt við Heimi Sindrason sem þá var þekktur fyrir samstarf sitt við Jónas Tómasson undir nafninu Heimir og Jónas, hann hafi hins vegar ekki verið tiltækur.

Þremenningarnir þekktust ekkert fyrir en þau Edda og Helgi slógu til og fljótlega hófust æfingar fyrir söngleikinn en tríóið hafði það verkefni að flytja tónlistina í verkinu, vera eins konar kráartríó á sviði í söngleiknum. Tónlistin var fengin úr þjóðlagaarfi Bretlandseyja og textana samdi Jónas sjálfur.

Þrjú á palli

Fljótlega eftir áramótin 1969-70 var farið með hópinn til London og tónlistin úr leikritinu tekin upp í því skyni að gefa hana út, SG-hljómplötur undir stjórn Svavars Gests önnuðust þann hluta og Þórir Baldursson sá um upptökurþáttinn, í leiðinni var efni fyrir aðra plötu tekið upp, erlend þjóðlög við texta Jónasar. Þar með var búið að hljóðrita tvær plötur, alls tuttugu og fimm lög og tríóið var enn ekki farið að koma fram opinberlega, hafði reyndar enn ekki fengið nafn en það kom síðar frá Jónasi og átti einkar vel við, Þrjú á palli.

Þið munið hann Jörund var frumsýnt skömmu eftir áramótin og var í leikstjórn Jóns Sigurbjörnssonar, sýningin sló samstundis í gegn og þegar upp var staðið urðu þær á annað hundrað.

Þrjú á palli var í upphafi aldrei hugsað til annars en að leika tónlistina á leiksviðinu en fljótlega var þó ákveðið að fara með tríóið út fyrir Iðnó og það fór að koma fram víðs vegar með prógramm sitt við miklar vinsældir sem minnkuðu ekki þegar platan kom út um vorið undir titlinum …eitt sumar á landinu bláa, sem var skírskotun í textalínu úr leikritinu. Platan fékk reyndar ekkert sérstaklega góða gagnrýni í Vikunni en hins vegar frábæra í Vísi og hún seldist ennfremur mjög vel.

Um sumarið kom sveitin oftsinnis fram opinberlega, m.a. í útvarpi og sjónvarpi, og einnig í Húsafelli um verslunarmannahelgina. Þar kom Ríkarður Örn Pálsson kontrabassaleikari fram með Þremur á palli í fyrsta skipti en hann átti eftir að starfa með þeim um árabil, hann varð þó aldrei fastur meðlimur sveitarinnar.

Efni á aðra plötu hafði verið tekið upp í Bretlandi en þegar til kom var ákveðið að nota ekki þær upptökur enda hafði tónlist Þriggja á palli þá þróast og þroskast, og þótti ekki gefa rétta mynd af sveitinni. Í staðinn voru lögin tekin upp á nýjan leik um mitt sumar, endurútsett af Þóri Baldurssyni  og með fjölda auka hljóðfæraleikara en á eldri upptökunum höfðu þau einungis verið þrjú. Meðal gesta á plötunni var Ríkarður Örn Pálsson á bassa. Það var Pétur Steingrímsson sem tók upp lögin í hálfkaraðri Háteigskirkju á heimasmíðað stereó upptökuborð og var platan frumraun hans á því.

Þrjú á palli 1970

Platan, Við höldum til hafs á ný, kom út um haustið 1970 og hafði að geyma eins og áður hefur komið fram erlend þjóðlög við ljóð Jónasar. Hún hlaut feikigóðar viðtökur, góða dóma í Vikunni, Vísi og Morgunblaðinu.

Um það leyti er Þrjú á palli áttu eins árs afmæli hætti Helgi í tríóinu en hann var kominn í samstarf með Kristínu Ólafsdóttur þjóðlagasöngkonu og var að gefa út plötu með henni. Það var Halldór Kristinsson, oft kenndur við ungbítlasveitina Tempó, sem tók sæti Helga en hann hafði þá nýverið vakið nokkra athygli í söngleiknum Hárinu sem sýnt var við miklar vinsældir í Kópavogsbíói. Helgi starfaði þó áfram með tríóinu á þeim sýningum sem eftir voru af Þið munið hann Jörund.

Við þessi mannaskipti gerði sveitin áætlun um að gefa út þriðju plötuna með erlendum þjóðlögum við texta Jónasar en snúa sér að því loknu að íslenska þjóðlagaarfinum.

Halldór smellpassaði inn í Þrjú á palli og hóf þegar að koma fram með tríóinu. Þau héldu sig við þá áætlun að gefa út eina plötu í viðbót með erlendum þjóðlögum og var hún tekin upp af Pétri Steingrímssyni eins og platan á undan. Í þetta skiptið voru þau aðeins þrjú auk Ríkarðs bassaleikara. Platan bar nafn sveitarinnar og hlaut eins og fyrri plöturnar fádæma góðar viðtökur þegar hún kom út um haustið. Hún hefur margoft verið endurútgefin síðan rétt eins og hinar plöturnar tvær á undan.

Þrjú á palli léku víða þetta árið og um hvítasunnuhelgina (1971) lék tríóið ásamt flestum af þekktustu sveitum og tónlistarfólki landsins á frægri útihátíð sem haldin við í Saltvík á Kjalarnesi, en hún hlaut nafnið Saltstokk ´71 og hafði fengið fyrirmynd sína frá Woodstock hátíðinni.

Þrjú á palli ásamt Ríkarði Erni Pálssyni

Um sumarið höfðu borist fréttir um að sveitin væri á leið til Svíþjóðar til að leika á tónleikum í tilefni af afmælishátíð Gautaborgar og myndi í leiðinni koma fram í sænska ríkissjónvarpinu þar sem þau sungu síðan íslensk þjóðlög í beinni útsendingu – í lit. Þetta var í fyrsta skipti sem Þrjú á palli lék á erlendri grundu og langt frá því síðast skipti því þau áttu eftir að koma reglulega fram á þjóðlagahátíðum erlendis auk annarra tónleika. Reyndar fóru þau tvívegis til Svíþjóðar áður en árið var úti og í síðari ferðinni var plata tekin upp undir stjórn Þóris Baldurssonar sem þá bjó í Svíþjóð. Þetta var jólaplata og fékk hún titilinn Hátíð fer að höndum ein: Folksongs of Iceland og kom út fyrir jólin 1971. Platan varð fjórða plata sveitarinnar á aðeins tuttugu mánuðum og má segja að þau afköst hafi verið með ólíkindum.

Lögin voru að þessu sinni eingöngu íslensk þjóðlög og fæst þeirra höfðu heyrst á plötum en Jón Sigurðsson útsetti, þetta voru lög m.a. úr ranni sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði og voru allt frá fimmtándu öld auk yngri laga sem geymst höfðu í handritum. Mikið var lagt í upplýsingar á plötuumslagi og lagði Helga Jóhannesdóttir til skýringar við textana, bæði á íslensku og ensku en platan var einnig hugsuð til útflutnings.

Jólaplatan sló í gegn og mörg laganna sem án nokkurs vafa hefðu fallið í gleymskunnar dá annars voru nú vakin til lífsins og eru vel þekkt í dag, meðal þeirra má nefna Gilsbakkaþulu, Það á að gefa börnum brauð og Komdu til mín fyrsta kvöldið jóla. Platan var lengi ófáanleg en var loks gefin út á geislaplötu 1994 og aftur 2003.

Í kjölfar útgáfu plötunnar róaðist heldur hjá tríóinu í bili enda við meðlimir þess einnig önnum kafnir á fleiri vígstöðvum, Edda í leikhúsinu og víðar, og Troels og Halldór í tónlistinni. Þau voru þó komin á fullan skrið aftur um sumarið 1972 og þá um verslunarmannahelgina fóru þremenningarnir víða, spilaði á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, í Galtalæk og í Húsafelli.

Árið 1974

Um haustið kom upp sá orðrómur um að næsta plata Þriggja á palli innihéldi lög við ljóð Halldórs Laxness og staðfesti Troels það í blaðaviðtali. Af einhverjum ástæðum varð ekki úr þeim áformum og ný plata dróst á langinn. Þrjú á palli voru þó áfram öflug á tónleikasviðinu og fóru m.a. til Danmerkur um haustið til að spila.

1973 rann upp og fljótlega á árinu kom upp sá kvittur að sveitin væri hætt, Edda var nokkuð erlendis þar sem eiginmaður hennar var um tíma og starfsemin lá því niðri á köflum, Halldór gaf ennfremur út fimm laga barnaplötu við ljóð Jóhannesar úr Kötlum og naut hún mikilla vinsælda hjá yngri kynslóðunum. Þrjú á palli komu þó eitthvað fram opinberlega þetta sumar þótt það væri í minni mæli en oftast áður.

Tríóið hóf þó að vinna næstu plötu, aftur voru íslensku þjóðlögin í forgrunni en platan var tekin upp í Noregi. Jón Sigurðsson var í útsetningum eins og áður og voru þær nokkuð útlendingamiðaðar enda var platan stíluð nokkuð á erlenda ferðamenn. Umslag plötunnar bar þess heldur betur merki enda var þar mynd frá eldgosi (Vestmannaeyjar 1973). Platan kom út vorið 1974 (þrátt fyrir að ártalið 1973 sé á plötunni).

Fyrir jólin 1974 var gerð útvarpsuppfærsla af söngleiknum Þið munið hann Jörund og tók tríóið þátt í þeirri uppfærslu.

Þegar hér var komið sögu höfðu Þrjú á palli liðar dregið sig nokkuð í hlé opinberlega hér heima og hafði lítið komi fram en var þeim meira í tónleikaferðum erlendis að kynna íslenska þjóðlagahefð, einnig nokkuð á skemmtunum Íslendingafélaga erlendis. Ein ferðin sker sig nokkuð úr en það var þegar sveitin fór til Svíþjóðar vorið 1975 að leika á Alternativ music festival í Stokkhólmi en það vr eins konar tónlistarhátíð haldin til að mótmæla Eurovision söngkeppninni og þeirri tónlistarlegu stöðnun sem þótti fylgja þeirri keppni en auk þess að vekja athygli á fjölbreytni evrópskrar tónlistarflóru. Þess má geta að Abba hafði sigrað Eurovision keppnina árið áður og þess vegna var keppnin haldin í Svíþjóð.

Þrjú á palli 1976

Í upphafi árs 1975 hafði tríóið komið fram í nokkrum þáttum af Stundinni okkar ásamt telpnakór, Sólskinskórnum úr Melaskóla sem stofnaður var og stjórnað af Magnúsi Péturssyni söngkennara þeirra úr skólanum. Gömul kynni við Jónas Árnason voru endurnýjuð og hann fenginn til að semja barnatexta við írsk og skosk þjóðlög.

Lögin voru síðan tekin upp af Pétri Steingrímssyni við útsetningar Jóns Sigurðssonar og gefin út um vorið undir titlinum Þrjú á palli ásamt Sólskinskórnum: ný barnaljóð Jónasar Árnasonar. Platan hlaut auðvitað frábærar viðtökur og gagnrýni eins og flest það sem Þrjú á palli hafði gert, og lög eins og Syngjandi hér – syngjandi þar, Langi-Mangi Svanga-Mangason og Sumar í sveitinni okkar voru kyrjuð í öllum skúmaskotum og öðluðust þegar sígildi.

Þegar Edda söngkona fékk heilablóðfall haustið 1975 varð hún að minnka við sig vinnu en hún hafði þá bæði haft leik og leikstjórn á sinni könnu, endurhæfingarferlið hjá henni var hins vegar nýtt til að æfa og taka upp efni fyrir nýja plötu Þriggja á palli og sú plata kom út fyrir jólin 1976 á vegum SG-hljómplatna eins og allar aðrar plötur tríósins. Platan hlaut heitið Tekið í blökkina: Þrjú á palli syngja sjómannakvæði eftir Jónas Árnason og eins og nafnið titillinn gefur til kynna var samstarf þeirra við Jónas enn í fullum gangi. Í þetta skiptið var það Sigurður Árnason sem annaðist upptökur sem fóru fram í nýju hljóðveri Svavars Gests, Tóntækni.

Þrjú á palli árið 2002

Þessi plata var sú síðasta sem sveitin sendi frá sér enda var hún svo gott sem hætt að koma fram opinberlega þegar hér var komið sögu, tríóið kom þó eitthvað áfram fram á erlendum þjóðlagahátíðum , t.a.m. höfðu þau komið fram á slíkri hátíð í Bandaríkjunum sumarið 1975 og svo í Svíþjóð haustið 1976, og svo koll af kolli en þau virðast hafa hætt endanlega 1980. Það ár áttu Þrjú á palli tvö lög á safnsnældu Vísnavina, Vísnakvöld 1: lög með Vísnavinum, en þar með var sögunni endanlega lokið utan þess að tríóið hefur komið í nokkur skipti við sérstök tilefni, 1993 þegar Jónas varð sjötugur, 1998 þegar tónleikadagskrá var sett á laggirnar til heiðurs Jónasi sem þá var nýlátinn, og þegar tuttugu og fjögurra laga safnplata Lífið er lotterí: þjóðlög við texta Jónasar, kom út 2002.

Annars hafa lög Þriggja á palli komið út á ógrynni safnplatna í gegnum tíðina, meðal þeirra eru hér nefndar nokkrar: Á sjó (1971), Stóra barnaplatan (1977), Óskastundin 4 (2005), Það gefur á bátinn (1981), Jólasnjór (1979), Stóra barnaplatan (1997), Jólasnær (1991), Barnagælur (1995), Svona var 1971 (2008), Stóra bílakassettan II (1979) og Óskalögin 4 (2000).

Efni á plötum