Samkór Mýramanna (1981-)

samkor-myramanna-1997

Samkór Mýramanna 1997

Blandaður kór hefur verið starfandi í áratugi í Borgarbyggð undir nafninu Samkór Mýramanna, hann hefur sent frá sér tvær plötur og eina snældu.

Það var Einar Ole Pedersen bóndi í Álftártungukoti sem var aðal hvatamaður að stofnun kórins vorið 1981, Hans Jensson (saxófónleikari Lúdó sextetts o.fl.) varð fyrsti stjórnandi hans en hann var ennfremur einn af stofnendum kórsins sem yfirleitt inniheldur um þrjá tugi söngfólks. Æfingar kórsins hafa í gegnum tíðina farið fram í félagsheimilinu Lyngbrekku en hann hefur víða sungið á tónleikum, mestmegnis auðvitað í heimabyggð en einnig víðar innan lands auk söngferðalaga erlendis s.s. til Þýskalands, Ítalíu, Austurríkis og Færeyja.

Hans stjórnaði Samkór Mýramanna í um tvö ár en þá tók Björn Leifsson tónlistarkennari í Borgarnesi við og var með kórinn allt til ársins 1994. Undir stjórn Björns sendi kórinn frá sér plötuna Yfir bænum heima (haustið 1993) en á henni var að finna tuttugu og fjögur lög úr ýmsum áttum. Jerzy Tosik-Warszawiak annaðist undirleik á plötunni. Í stjórnartíð Björns mun kórinn einnig hafa sent frá sér snældu en engar upplýsingar er að finna um þá útgáfu.

samkor-myramanna-2014

Samkór Mýramanna 2014

Haustið 1994 tók Dagrún Hjartardóttir við Samkór Mýramanna en var ekki lengi við stjórn og tók Jónína Erna Arnardóttir (tónlistarkennari í Borgarnesi) við af henni.

Árið 2005 sendi Samkór Mýramanna frá sér plötuna Máttur söngsins undir stjórn Jónínu. Svo virðist sem Bjarni Valtýr Guðjónsson og Bragi Þór Valsson hafi eitthvað komið að söngstjórn kórsins í stjórnartíð hennar en líkast til var um afleysingar að ræða.

Núverandi stjórnandi Samkórs Mýramanna er Hallbjörg Erla Fjeldsted en hún tók við af Jónínu haustið 2014.

Efni á plötum