Urmull (1992-95 / 2010-)

Urmull

Ísfirska hljómsveitin Urmull vakti nokkra athygli fyrir tónlist sína í lok síðustu aldar, sveitin gaf þá út snældu og geislaplötu.

Urmull var stofnuð haustið 1992, keppti vorið eftir (1993) í Músíktilraunum Tónabæjar og lék þar gruggrokk, oft kennt við Seattle í Bandaríkjunum. Þá voru meðlimir sveitarinnar Símon Jakobsson bassaleikari, Guðmundur Birgir Halldórsson gítarleikari, Stefán Freyr Baldursson gítarleikari, Davíð Sveinsson trommuleikari og Hjalti Ágústsson söngvari. Þó svo að sveitin kæmist ekki í úrslit Músíktilraunanna gáfust þeir félagar hvergi upp, sveitin starfaði reyndar ekki alveg samfleytt næstu mánuðina en spilaði mestmegnis opinberlega á heimaslóðum fyrir vestan. Síðar það ár sendi Urmull reyndar frá sér fimm laga snældu, Hitler was framed, en hún vakti ekki mikla athygli.

Vorið 1994 fór svo að meðlimir Urmuls fluttust suður til höfuðborgarinnar til að taka upp plötu og starfrækja sveitina sunnan heiða. Símon bassaleikari samdi lög en Hjalti söngvari texta og úr varð platan Ull á víðavangi, sem kom út um haustið á vegum útgáfufyrirtækisins Ryms.

Þær mannabreytingar höfðu þá orðið í Urmul að Jón Geir Jóhannsson hafði tekið við trommunum af Davíð, um svipað leyti og platan kom út var Valgeir Bogi Einarsson gítarleikari orðinn hluti af sveitinni og hafði þá líklega tekið var af Stefáni.

Ull á víðavangi, sem var gefin út í takmörkuðu upplagi (um fimm hundruð eintök), fékk þokkalega gagnrýni í dagblöðunum, platan fékk sæmilega dóma í Morgunblaðinu og Helgarpóstinum og þokkalega í DV.

Urmull virðist hafa starfað til sumarsins 1995, þá um vorið auglýsti sveitin eftir trommuleikara en nokkrum vikum síðar átti sveitin lagið Himnalagið (sem Grafík hafði gert vinsælt áratug fyrr) á safnplötunni Ís með dýfu. Á þeirri útgáfu lék Birgir Jónsson á trommur með sveitinni. Lagið kom einnig út á safnplötunni Ávextir ári síðar.

Urmull 2010

Meðlimir Urmuls hafa komið víða við í íslensku tónlistarlífi og reyndar verið nokkuð áberandi í rokksenunni allt frá því að sveitin lagði upp laupana. Jón Geir hefur gert garðinn frægan með sveitum eins og Skálmöld, Ampop og Hrauni, Hjalti varð fyrsti söngvari Dimmu og Birgir hefur einnig trommað með þeirri sveit, Símon lék með Buttercup og Guðmundur með Reykjavík! svo dæmi séu tekin

Urmull lá í dvala þar til um páskana 2010 þegar hún var endurreist og lék þá á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður á Ísafirði. Um það leyti var platan Ull á víðavangi endurútgefin enda hafði platan þá verið ófáanleg um árabil, nýja útgáfan var endurhljóðblönduð og með nýju umslagi en fyrra umslag plötunnar hafði verið nokkuð umdeilt. Við endurútgáfuna hafði Himnalaginu verið bætt við plötuna.

Síðan þá hefur Urmull verið starfandi nokkuð samfleytt.

Efni á plötum