UXI 95 [tónlistarviðburður] (1995)

Tónlistarhátíðin UXI 95 var haldin við Kirkjubæjarklaustur um verslunarmannahelgina sumarið 1995. UXI 95 var í raun fyrsta stóra alþjóðlega tónlistarhátíðin sem haldin var hérlendis og ruddi að vissu leyti brautina fyrir fleiri slíkar hátíðir sem haldnar hafa verið hérlendis síðan, Umræðan um hátíðina var alla tíð mjög neikvæð en hún var þó hvorki verri né betri en aðrar sambærilegar hátíðir hérlendis fyrr eða síðar.

Það var samnefnt viðburðafyrirtæki, UXI ehf. sem hélt hátíðina og var öllu til tjaldað, stór nöfn erlendis frá í danstónlistargeiranum voru væntanleg, Drumclub, Prodigy, Underworld, Aphex  Twin og fleiri en einnig var keyrt á blönduðum íslenskum tónlistaratriðum á borð við Unun og Pál Óskar, Lhooq, Bubbleflies, SSSól og Olympiu, aðalnúmer hátíðarinnar var hins vegar Björk sem þá var að hasla sér völl sem alþjóðleg stórstjarna í tónlistarheiminum. Auk þess voru fjölmargir plötusnúðar á hátíðinni, alls um fjörutíu hljómsveitir og listamenn.

Búist var við tíu til fimmtán þúsund manns á UXA 95 en hvert áfallið á fætur öðru dundi á forsvarsmönnum hátíðarinnar. Ríkisskattstjóri ákvað að innheimta virðisaukaskatt af hátíðinni eins og um útihátíð væri að ræða en ekki tónleika eins og UXA-fólk ætlaði, umfjöllun fjölmiðla varð ennfremur neikvæð og voru þar mest áberandi greinaskrif talsmanns átaksins Stöðvum unglingadrykkju sem sagði UXA 95 og Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum beinlínis stríð á hendur. Einkum vildu menn tengja saman danstónlist og eiturlyfjaneyslu og hafði það sjálfsagt sitt að segja um aðsókn á hátíðina en gestir hennar urðu á bilinu fjögur til fimm þúsund. Öflug löggæsla á svæðinu varð til að fá dópmál komu upp á hátíðinni en nokkur drykkja var á svæðinu þó svo að auglýst hafði verið að áfengisneysla væri bönnuð á tónleikasvæðinu. Þess má geta að forsvarsmenn UXA fengu konur frá Stígamótum á svæðið en það var eini staðurinn sem boðið var upp á slíkt um verslunarmannahelgina 1995.

Heilmikið átak hafði verið gert í því að fá hingað til lands erlenda tónleikagesti og fjölmiðlafólk og fékk hátíðin nokkurt vægi hjá tónlistarmiðlum eins og New musical express og MTV  svo dæmi séu tekin, Volume-útgáfan ætlaði að taka upp tónleikana og gefa út valið efni frá þeim á eins konar safnplötu en af því varð aldrei. Hins vegar fylgdi safnplata sem hafði að geyma efni með UXA-sveitunum með seldum miðum á hátíðina, fyrst í stað átti það að vera með fyrstu þúsund miðunum en tvö þúsund plötum var bætt við svo upplag plötunnar, sem hlaut titilinn Journey to the top of the world: Kirkjubæjarklaustur, varð á endanum þrjú þúsund eintök.

Þó svo að UXI 95 hafi ekki heppnast vel að öllu leyti ruddi hún á vissan hátt brautina fyrir þær alþjóðlegu tónleikahátíðir sem hér hafa verið haldnar, hún varð til að auka áhuga erlendra tónlistarmanna á Íslandi en hann hafði verið lítill til þess tíma, auk þess hafa sprottið upp í kjölfarið alþjóðlegar hátíðir eins og Reykjavik Music Festival, Iceland Airwaves, All Tomorrow‘s Parties, Secret Solstice, Blúshátíð í Reykjavík og Akureyri Internationa Music Festival, svo nokkrar séu nefndar.

Efni á plötum