Myrkir músíkdagar [tónlistarviðburður] (1980-)

Veggspjald fyrir fyrstu hátíðina 1980

Tónlistarhátíðin Myrkir músíkdagar hefur verið haldin frá árinu 1980 og hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem einn helsti viðburður hérlendis í samtímatónlist.

Myrkir músíkdagar voru fyrst haldnir árið 1980 á vegum Tónskáldafélags Íslands en þá hafði undirbúningur staðið í nokkurn tíma, meðal hvatamanna að stofnun hátíðarinnar var Þorkell Sigurbjörnsson. Hátíðin dregur nafn sitt af því að vera haldin á myrkasta tíma ársins, í janúar og febrúar, og hefur yfirleitt staðið í sjö og allt upp í tuttugu daga – síðustu árin hefur hún reyndar verið mun styttri. Framan af um tíma var hátíðin haldin annað hvert ár en hefur nú verið haldin árlega um nokkurt skeið og oft við góða aðsókn.

Hátíðin hefur verið með þeim hætti að ýmsir tónlistarviðburðir hafa verið haldnir víðs vegar um borgina en einnig hafa verið viðburðir á vegum hennar úti á landi, megin áherslan hefur verið á íslenska samtímatónlist en einnig hafa erlendir gestir og tónskáld komið þar við sögu, tónlist af ýmsu tagi hefur jafnframt verið frumflutt á Myrkum músíkdögum.

Fleiri aðilar hafa komið að Myrkum músíkdögum í seinni tíð, þeirra á meðal má nefna Kammersveit Reykjavíkur, Tónlistarfélag Kristskirkju, Konsertklúbbinn, Listvinafélag Hallgrímskirkju og marga aðra en einnig hafa erlendir aðilar komið að henni enda hefur hátíðin vakið athygli langt út fyrir landsteinana og hlotið alþjóðlegar viðurkenningar, þá hefur hún m.a. verið sótt af erlendum tónlistarskríbentum.