Félag harmonikuunnenda í Skagafirði [félagsskapur] (1992-)

Hljómsveit Félags harmonikuunnenda í Skagafirði

Félag harmonikuunnenda í Skagafirði hefur starfað síðan snemma á tíunda áratug síðustu aldar og er með öflugri félögum af því tagi á landinu.

Félagið var stofnað snemma árs 1992 með það að markmiði að efla og kynna harmonikkutónlist í Skagafirðinum. Starfsemin hófst að nokkrum krafti og m.a. var þar starfandi hljómsveit sem lék m.a. með Karlakórnum Heimi á tónleikum um tíma. Eins og gengur og gerist dofnaði yfr félaginu eftir nokkurra ára starfsemi en þegar Gunnar Ágústsson kom inn í stjórnina árið 1998 lifnaði yfir því aftur og síðan þá hefur það verið mjög öflugt.

Undir stjórn Gunnars (sem varð fljótlega formaður félagsins) kom til sögunnar hátíð á vegum félagsins sem ýmist var kölluð Fjölskylduhátíð í Húnaveri eða bara Húnavershátíðin en hún hefur verið haldin á Jónsmessunni síðan 1999, síðustu árin hefur hún reyndar verið haldin á Steinsstöðum í Skagafirði en hátíðina sækir fjöldi áhugafólks um harmonikkuleik, af öllu landinu. Hátíðin hefur stundum verið haldin í samvinni við félag harmonikkuleikara í Húnavatnssýslum og á Siglufirði.

Þá hefur félagið staðið fyrir dansleikja- og tónleikahaldi víða um norðanvert landið og má nefna þar sem dæmi tónleikaröðina Tekið í belg og tónlistarsýninguna Manstu gamla daga? sem haldin var í nokkur skipti á árunum 2010 til 2016 að minnsta kosti, nokkrar sýningar hafa verið haldnar í hvert sinn og hefur þema sýningarinnar yfirleitt verið tengt ákveðnum ártölum. Tónlist Manstu gamla daga? hefur jafnframt verið gefin út á geisladiskum í einhverjum tilfellum.

Félag harmonikuunenda í Skagafirði hefur jafnframt unnið frumkvöðlastarf í að kynna harmonikkutónlistina, félagið hélt utan um fyrsta landsmót ungra harmonikkuleikara í samstarfi við tónlistarskólana í landinu, og þegar SÍHU (Samband íslenskra harmonikuunnenda) gaf út plötuna Harmonikan í leikskólum landsins með hljóðfæraleik Baldurs Geirmundssonar, gaf félagið öllum leikskólum í Skagafirði eintak af plötunni.

Innan félagsins hafa tvær til þrjár öflugar hljómsveitir verið starfandi hverju sinni og hefur það ekki síst átt þátt í að halda starfinu gangandi undir stjórn Gunnars. Tónlist með harmonikkuleik félaga félagsins var gefin út að minnsta kosti árið 2007 og e.t.v. oftar, á þeirri plötu var að finna tónlist frá harmonikudeginum 2007.

Efni á plötum