Utangarðsmenn (1980-81)

Utangarðsmenn

Nafn Utangarðsmanna er fyrirferðamikið þegar talað er um pönkbyltinguna sem skall á landann sumarið 1980 þó tónlist sveitarinnar teljist miklu fremur til blúsrokks en pönktónlistar. Utangarðsmenn kom fram á sama tíma og Bubbi Morthens sem sólólistamaður, og breytti íslensku tónlistarlífi sem þá hafði verið í ládeyðu til fjölda ára. Á sama tíma og í kjölfarið spruttu fram ferskar rokk- og pönksveitir í sama anda, trúbadorar sömuleiðis með ný yrkisefni og æska landsins sogaði til sín nýja strauma, nýja byltingu sem umhvolfdi íslenskri tónlist og enn í dag eimir af þeim umbreytingum.

Til að átta sig betur á tónlistarumhverfinu hér á landi á þessum tíma má nefna að fjarað hafði mjög undan þeim fersku vindum og sköpunargleði sem bítla- og síðan hipparokkið hafði leitt af sér um og eftir miðjan sjöunda áratuginn, opinber tónlistarflutningur var mestmegnis í formi diskóteka sem hafði allt að því drepið alla lifandi tónlist, sveitaböllin voru orðin að flatneskjulegum flutningi á erlendum ábreiðulögum sem voru af tónlistaráhugamönnum kölluð staðnað kúlutyggjórokk, og popp- og rokktónlistarsköpun var þannig í sögulegu lágmarki. Helst var að líf leyndist með djass- og blústónlistarmönnum sem og félagsskapnum Vísnavinum í lifandi flutningi en þeir hópar voru litlir og höfðuðu til fremur þröngs hóps tónlistaráhugafólks.

Pönkbylgjan hafði riðið yfir Bretland nokkrum árum áður og hérlendis höfðu Fræbbblarnir, Snillingarnir, Halló og heilasletturnar og fáeinar aðrar sveitin myndast við að leika eins konar pönk en við litlar undirtektir og enn minni athygli. M.ö.o. var pláss fyrir eitthvað nýtt og það var það sem Bubbi og Utangarðsmenn nýttu sér, reyndar með svo miklum látum að annað eins hefur vart sést.

Frá fyrsta giggi Utangarðsmanna

Kassagerðin er oft nefnd sem staðurinn þar sem Utangarðsmenn urðu til í mars 1980. Haustið á undan hafði Mike Pollock kynnst Bubba Morthens sem vann þar á lyftara og saman fóru þeir vinnufélagarnir að ræða blústónlist sem þeir höfðu báðir mætur á. Nokkru síðar kom Danny bróðir Mike til landsins og þremenningarnir tóku að spila saman. Pollock bræðurnir (bandarískur faðir, íslensk móðir), höfðu verið með annan fótinn hérlendis en hinn vestan hafs í blúsrótum sínum, smullu strax saman við Bubba sem þá hafði komið fram á sjónarsviðið sem trúbador, m.a. með Vísnavinum, og var nú að taka upp sína fyrstu sólóplötu (Ísbjarnarblús) í Tóntækni.

Svo varð úr að Pollock bræður heimsóttu Bubba í hljóðverið og komu reyndar lítillega við sögu við upptökur á plötunni (í laginu Jón pönkari), í kjölfarið kom upp sú hugmynd að stofna hljómsveit. Þeir félagar auglýstu eftir bassa- og trommuleikara og svöruðu tveir félagar frá Raufarhöfn kallinu, það voru þeir Rúnar Erlingsson bassaleikari og Magnús Stefánsson trommuleikari, sem smullu inn í bandið sem flís við rass og þá voru Utangarðsmenn til. Síðasta lag A-hliðar plötunnar, Jón pönkari, varð fyrsta lag Utangarðsmanna.

Utangarðsmenn voru fljótir að spila sig saman um vorið og ekki liðu margar vikur þar til sveitin debuteraði í Félagsstofnun stúdenta við Hringbraut, í kjölfarið fylgdu gigg á Hótel Borg sem þá varð í kjölfarið eins konar athvarf pönksenunnar ásamt Kópavogsbíói þar sem sveitin lék einnig á tónleikum sem báru yfirskriftina Heilbrigð æska, ásamt fleiri sveitum.

Utangarðsmenn í Kópavogsbíói 1980

Mönnum varð fljótlega ljóst að eitthvað ferskt var í uppsiglingu og Utangarðsmenn fengu strax mikinn meðbyr með sitt frumsamda hráa blúsrokk og reyndar einnig reggískotnu tónlist.

Og mönnum lá aldeilis á, strax var talið í tónleikaferð um norðanvert landið í apríl, landsbyggðin var ekki alveg tilbúin fyrir Utangarðsmenn og þar var spilað í hálftómum og jafnvel alveg tómum samkomuhúsum við misjafnar undirtektir, margir héldu fyrir eyrun við hávaðann og keyrsluna en aðrir meðtóku rokkið og hrifust með, að minnsta kosti er hægt að segja að sveitin hafi verið umdeild. Móttóið var að spila, sama hversir fáir væru mættir. Tap varð á túrnum enda spilaði margt þar inn í, misjöfn mæting og biluð rúta áttu þar stærstan hlut að máli.

Ísbjarnarblús Bubba kom út á þjóðhátíðardaginn, 17. júní 1980 og það sama kvöld léku Utangarðsmenn á tónleikum í Laugardalshöllinni ásamt fleiri vinsælum hljómsveitum, þ.á.m. Brimkló. Segja má að sveitin hafi fylgt Ísbjarnarblús eftir um sumarið því hún lék bæði efni af plötunni auk eigin efnis. Fáeinum vikum síðar hitaði sveitin upp fyrir Clash og þannig var keyrt þetta sumar.

Samtímis þessu var farið í Hljóðrita og byrjað að taka upp lög sem komu síðan út á fjögurra laga plötu á vegum hljómplötuútgáfunnar Steinars um miðjan október, á henni lék Karl Sighvatsson með sveitinni á Hammond orgel og setti mikinn svip á Rækjureggae, vinsælasta lag plötunnar.

Smáskífan var gefin út í tvö þúsund og fimm hundruð eintaka upplagi, seldist fljótlega upp og er ill- eða ófáanleg í dag. Platan fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu, Helgarpóstinum og Poppbók Jens Guð, gagnrýnanda Tímans tókst hins vegar á einhvern hátt að komast hjá því að taka afstöðu í gagnrýni sinni.

Utangarðsmenn

Um það leyti sem smáskífan kom út var sveitin að vinna breiðskífu undir upptökustjórn Geoffs Calver í Hljóðrita. Eins og annað sem Utangarðsmenn gerðu gengu hlutirnir hratt fyrir sig en platan var tekin upp á um áttatíu hljóðverstímum, alls fimmtán lög og þar af fimm á ensku enda var hugmyndin alltaf að keyra á erlendan markað einnig.

Og í lok nóvember kom gripurinn út, hlaut titilinn Geislavirkir og varð sannkölluð bomba í íslensku tónlistarlífi, hrátt rokkið átti vel við ungdóm Íslands og plötuumslagið þar sem meðlimir sveitarinnar standa frammi fyrir bjarmanum frá sveppinum í kjölfar kjarnorkusprengingar, sló í gegn og kaupendur streymdu í plötubúðirnar til að kaupa gripinn.

Gagnrýnendur blaðanna voru flestir á einu máli, platan fékk frábæra dóma í Morgunblaðinu, Helgarpóstinum, Dagblaðinu, Þjóðviljanum, Tímanum og Poppbók Jens Guð en Gunnar Salvarsson á Vísi var ekki alveg eins hástemmdur, menn virtust þó almennt átt sig strax á að þarna var tímamótaplata á ferð.

Hvert lagið á fætur öðru varð vinsælt og nokkur þeirra lifa enn í dag góðu lífi, heyrast reglulega spiluð í útvarpi og eru enn að koma út á safnplötum. Þetta eru lög eins og Hirosima, Barnið sefur, Poppstjarnan, Kyrrlátt kvöld og Sigurður er sjómaður, sem var rokkuð útgáfa af laginu Laus og liðugur sem Ragnar Bjarnason hafði gert ódauðlegt áratugum fyrr. Útgáfa Utangarðsmanna hafði aukinheldur aukaerindi eftir Tolla Morthens (bróður Bubba) sem Númi Þorbergs, höfundur upphaflega textans, hefur varla verið ánægður með en þar lifir Sigurður sjómaður heldur nöturlegu lífi, lamaður í hjólastól – hafði lent undir trollhlera og fær engar bætur.

Annars var yrkisefni Utangarðsmenna allt frá því að vera raunsæir verbúðartextar um slor og skít eins og Bubbi var að flytja á Ísbjarnarblús, til þess að vera nöturlegir heimsósómatextar um ógn atómbombunnar og kalda stríðið. Í öllu falli var hér um harðar samfélagsádeilur sem var mjög á skjön við ástar- og saknaðarljóðin sem höfðu ómað í óskalagaþáttum Ríkisútvarpsins til fjölda ára. Og Utangarðsmenn létu ekki þar við sitja heldur létu þeir höggin dynja á „skallapoppurunum“, (nýyrði um popparakynslóðina á undan pönkkynslóðinni) í lögum eins og Rækju-reggae þar sem Bubbi söng hin frægu og fleygu orð; Ég er löggiltur hálfviti, hlusta á HLH og Brimkló.

Bubbi og Mike sömdu tónlistina og textana, og reyndar var á þessum tímapunkti þegar farin að myndast nokkur spenna innan sveitarinnar vegna textanna, Bubbi var rammpólitískur í sínum textum og félagar hans voru ekki alveg sáttir við þann pól sem tekinn var í hæðina. Allt kom þó fyrir ekki og Bubbi fékk sínu framgengt, og líklega voru textarnir stór partur af því hversu vinsælt sveitin var. Og textarnir hittu ekki aðeins í mark hjá tónlistaráhugafólki heldur urðu þeir einnig mjög umdeildir og tilefni mikilla blaðaskrifa um haustið 1980, sem hófust með grein Jóns Óskars um sjómannatexta í Tímariti Máls og menningar. Árni Björnsson þjóðháttafræðingur skrifaði eins konar svargrein í Þjóðviljann og í kjölfarið hófst lífleg umræða um „gúanótexta“ Bubba, þar sem hart var barist með og á móti textum hans. Skáldið lét sér hins vegar fátt um finnast.

Við tökur á áramótaþætti Sjónvarpsins

Geislavirkir var að margra mati plata ársins 1980 og Utangarðsmenn sömuleiðis hljómsveit ársins, þá þarf varla að tíunda hlut Bubba í uppgjörum ársins þar sem hann var bæði á ferð með hljómsveitinni og sem sólólistamaður. Það var þó í anda sveitarinnar að þeir gáfu skít í allt slíkt og m.a. hundsuðu þeir verðlaunahátíðina Stjörnumessuna í febrúar 1981 þar sem hver viðurkenningin á fætur annarri beið þeirra. Umboðsmaður sveitarinnar, Einar Örn Benediktsson (oftast kenndur við Purrk Pillnikk), var hins vegar sendur til að sækja verðlaunin.

Sem fyrr segir var spennan farin að magnast innan Utangarðsmanna, keyrslan á bandinu og reyndar dópneysla samhliða því átti ekki síður þátt í spenna bogann en textagerð Bubba, og fljótlega varð ljóst hvert stefndi þótt meðlimir sveitarinnar horfðu framhjá því, þess í stað var farið rakleiðis í hljóðver á nýjan leik og sex lög tekin upp. Hvergi var heldur slegið af í spilamennskunni og Utangarðsmenn fóru víða um land á þessu fyrstu vikum ársins.

Nýja platan kom út í apríl 1981 undir heitinu 45 rpm og var í umslagi sem var um leið eins konar pappírspoki sem hægt var að rífa handfangið af. Steinar gaf plötuna út eins og hinar tvær og hún fékk góðar viðtökur, mjög góða dóma í Dagblaðinu, Morgunblaðinu, Poppbók Jens Guð og Helgarpóstinum.

Flest laganna urðu vinsæl, Fuglinn er floginn, Þór og Það er auðvelt  nutu hvað mestra vinsælda og svolítið kvað við annan tón í laginu Where are the bodies? en það lag átti eftir að poppa upp í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík síðar, það er þó önnur saga.

Og keyrslan hélt áfram, Bubbi tók upp sína aðra sólóplötu, Pláguna um það leyti sem 45 rpm var að koma út og Utangarðsmenn spiluðu með honum á plötunni, að Danny undanskildum. Um leið og tökum lauk var sveitin farin utan í tónleikaferð um Skandinavíu, fyrst var flogið til Amsterdam þar sem Tolli bróðir Bubba hafði keypt rútu fyrir túrinn og svo var hafist handa við að gera hana túrklára á mettíma auðvitað. Svo gat ferðin hafist eftir að sveitin var búin að birgja sig vel af grasi.

Á tónleikum í Osló 1981

Á erlendum vettvangi spiluðu Utangarðsmenn undir nafninu Outsiders enda var íslenska heitið vart til þess fallið að falla vel að framburði erlendra aðdáenda sveitarinnar. Tónleikatúrinn varð þó ekki sá glans sem menn ætluðu, keyrt var á milli borga í Svíþjóð, Noregi og Danmörku, yfirleitt spilað á litlum stöðum fyrir litlar tekjur og samhliða almennum blankheitum, hungri og pirringi jókst spennan enn á milli manna, einkum Bubba og Magnúsar trommuleikara – reyndar svo að endaði með slagsmálum. Partur af þeirri spennu kom einnig til vegna þeirra áráttu fjölmiðlamanna að stilla dæminu upp sem Bubba og Utangarðsmönnum, Bubbi var alltaf tekinn út sérstaklega og í stað þess að fjölmiðlaumfjöllunin snerist um hljómsveitina Utangarðsmenn, fjölluðu þeir um Bubba og svo hina, rétt eins og þeir væru undirleikarar stórstjörnunnar. Auðvitað var ekki beinlínis við Bubba sjálfan að sakast en þeim hinum, og sérstaklega kannski Magnúsi fannst Bubbi gera í því að magna upp stjörnuhlutverk sitt. Því var varla aftur snúið og segja má að sveitin hafi sprungið endanlega í Skandinavíutúrnum.

Utangarðsmenn komu heim til Íslands um miðjan júlí, nokkuð fyrr en áætlað hafði verið, en þá var önnur sólóplata Bubba, Plágan að koma út. Sveitin spilaði síðan ásamt fleirum í Félagsgarði í Kjós um verslunarmannahelgina, á einum tónleikum um miðjan ágúst sem voru teknir upp, og svo var það búið –  Utangarðsmenn voru hættir og opinber tilkynning var gefin út í lok mánaðarins.

Stanslaus keyrsla í eitt og hálft ár, upptökur og útgáfur á þremur plötum (breiðskífu, sex laga plötu og smáskífu) auk tveggja plata með Bubba, ógrynni tónleika (líklega í kringum tvö hundruð) innan lands og utan, stöðugt áreiti fjölmiðlafólks og aðdáenda ásamt grasreykingum og síðar harðari efnum, gerði spennuna innan hópsins óbærilega og Bubbi var rekinn úr Utangarðsmönnum. Fréttin kom ekki að öllu leyti á óvart, ef rýnt er í blaðaumfjöllun frá þeim tíma virtist allt stefna í þá átt en orðrómur þess efnis hafði þá gengið um tíma þótt sveitarmeðlimir reyndu að kveða niður þann orðróm. Utangarðsmenn byrjuðu með látum, lifðu hratt og spungu með látum, þannig var saga þeirra í stuttu máli.

Á sama tíma og sveitin var að hætta bárust þær fréttir að 45 rpm væri að koma út í enskri útgáfu í Svíþjóð undir merkjum Islandska Original Produkter. Þá kom Geislavirkir (Radioactive) einnig út þar í landi á ensku á vegum Hot ice music. Litlar sögur fara af viðtökum Svía en sveitinni bauðst þó mun oftar að koma fram í sænsku sjónvarpi heldur nokkurn tímann í því íslenska. Líklega komu Utangarðsmenn einungis einu sinni fram í Ríkissjónvarpinu, í áramótaþætti í lok árs 1980.

Í miðjuopnu Vikunnar

Í október sendu Steinar frá sér plötuna Í upphafi skyldi endinn skoða (á plötumiða: Í upphafi skyldi endirinn skoða) með Utangarðsmönnum en hún hafði að geyma sextán lög, þar af tíu sem ekki höfðu komið út aftur. Eins og aðrar afurðir sveitarinnar hlaut platan almennt góða dóma, frábæra í Poppbók Jens Guð, mjög góða í Morgunblaðinu, Helgarpóstinum, Þjóðviljanum og Dagblaðinu en síðri í Tímanum og Vísi.

Utangarðsmennirnir sem eftir voru störfuðu áfram sem hljómsveitin Bodies og gáfu fljótlega út plötu, þeir fóru síðan í sína áttina hver og fengust allir við tónlist æ síðan nema Rúnar bassaleikari. Bubbi fylgdi Plágunni eftir, stofnaði Egó mjög fljótlega, lifði áfram hratt um tíma en hefur gefið út fjöldann allan af plötum einn og með hljómsveitum sínum, og er meðal fremstu og afkastamestu tónlistarmönnum landsins eins og flestir vita.

Ríflega tíu ár liðu ár áður en Geislavirkir kom út á geislaplötu en platan hafði þá verið ófáanleg um árabil. Haustið 1994 sendi Smekkleysa síðan frá sér plötu samnefnda sveitinni sem hafði að geyma fimmtán lög, tekin upp á tónleikum í Svíþjóð sumarið 1981, skömmu áður en Utangarðsmenn sprungu í loft upp. Platan fékk þokkalega dóma í DV, ágæta í Morgunblaðinu og frábæra í Helgarpóstinum.

Á þessum tíma höfðu Utangarðsmenn löngu fyrr slíðrað sverðin og þeir áttu eftir að koma saman aftur, það gerðist snemma árs 1999 þegar þeir tóku lagið í sjónvarpsþætti í Ríkissjónvarpinu, sjónvarpsstöðinni sem nánast hafði hundsað sveitina á sínum tíma.

Utangarðsmenn

Í kjölfarið fóru Utangarðsmenn aftur af stað og sumarið 2000 var farið í stutta tónleikaferð út á land með pomp og prakt, meðlimir sveitarinnar voru þá komnir á miðjan aldur og sukk og svínarí í anda pönkáranna var ekki í boði.

Tvöföld safnplata, Fuglinn er floginn, kom út og rifjaði upp sældartíma fyrir aðdáendur sveitarinnar og kynnti nýjum og yngra fólki tónlist sveitarinnar. Veglegur bæklingur fylgdi plötunni og Ólafur Páll Gunnarsson útvarpsmaður ritaði örlítinn formála í honum. Á þessum tímamótum (um aldamótin 2000) voru Utangarðsmenn ennfremur kjörnir rokkhljómsveit aldarinnar á Íslensku tónlistarverðlaununum, Bubbi Morthens var við það sama tækifæri kjörinn rokkari aldarinnar.

Árið 2005 kom út viðhafnarútgáfa af Geislavirkum en sú útgáfa hafði einnig að geyma áður óútgefnar útgáfur af lögum plötunnar, alls sjö aukalög. Annars hafa lög Utangarðsmanna komið út á ýmsum safnplötum í gegnum tíðina, þeirra á meðal má nefna Flugur (1981), Northern light playhouse (1981), Rokkland 2007 (2008), Óskalögin 5 (2001), Pottþétt rokk (1997), Nælur (1998), 100 bestu lög lýðveldisins (2008), Icelandic rock classics (2015), Með lögum skal land byggja (1985), Aftur til fortíðar 70-80 I (1990), Næst á dagskrá (1982), Gæðapopp (1981) og Íslenski draumurinn – úr kvikmynd (2000), og einnig á safnplötum tengdum Bubba Morthens s.s. 06.06.06. (2006), Sögur af ást, landi og þjóð 1980-2010 (2010) og Blindsker – úr kvikmynd (2004).

Efni á plötum