Bodies (1981-82)

Bodies á opnumynd í Vikunni

Hljómsveitin Bodies spratt fram á sjónarsviðið í kjölfar þess að Utangarðsmenn sprungu í loft upp sumarið 1981, en naut aldrei vinsælda í líkingu við það sem Utangarðsmenn gerðu.

Í raun má segja að sveitin hafi orðið til síðla árs 1979 þegar fjórmenningarnir Mike Pollock gítarleikari og söngvari, Dan Pollock gítarleikari, Magnús Stefánsson Stefánsson og Rúnar Erlingsson bassaleikari hófu samstarf (án þess að hafa tekið upp nafn) en skömmu síðar gengu þeir til liðs við Bubba Morthens sem þá var að vinna fyrstu sólóplötu sína, Ísbjarnarblús, og í beinu framhaldi tóku þeir upp nafnið Utangarðsmenn.

Utangarðsmenn hættu skyndilega í lok ágúst 1981 eftir mikla keyrslu og álag og fjórmenningarnir héldu þá áfram samstarfinu án Bubba undir nafninu Bodies. Þeir félagar voru staðráðnir í að sanna sig án Bubba og aðeins nokkrum dögum síðar, 9. september, hitaði sveitin upp fyrir The Fall á Hótel Borg. Eftir það tóku þeir reyndar nokkurra vikna pásu til að ná áttum enda höfðu síðustu vikurnar sem Utangarðsmenn tekið á bæði andlega og líkamlega.

Í október 1981 fór sveitin á fullt og spilaði þá víðs vegar á tónleikum, m.a. þar sem tökulið á vegum kvikmyndarinnar Rokk í Reykjavík var á ferð, og í desember voru þeir farnir að huga að plötu. Um þetta leyti tóku þeir einnig þátt í kvikmyndinni Okkar á milli í hita og þunga dagsins eftir Hrafn Gunnlaugsson, þar sem þeir léku tvö pönklög en þau  komu síðan út á plötu með tónlist úr myndinni eins og Rokk í Reykjavík.

Bodies lék á fjölmörgum tónleikum fram yfir áramótin 1981-82 en í janúar bárust þær fréttir í fjölmiðlum að Magnús trommari væri í þann mund að gang til liðs við hljómsveitina Brimkló sem ýmsum þótti skjóta skökku við enda höfðu Magnús og Utangarðsmenn skotið fast á þá hljómsveit aðeins einu og hálfu ári fyrr þegar þeir sungu „ég er löggiltur hálfviti, hlusta á HLH og Brimkló“. Þegar að var gáð var ekki nema hálfur sannleikur í fréttunum, Brimkló hafði jú boðið Magnúsi trommuleikarastöðuna en hann ekki þegið hana, en hitt var að hann var að hætta í Bodies til að ganga til liðs við Bubba Morthens og Egó, en Utangarðsmenn höfðu sprungið í loft upp ekki síst vegna samstarfsörðugleika þeirra tveggja.

Bodies í Rokk í Reykjavík

Síðustu tónleikar Magnús með Bodies voru á Hótel Borg þann 14. janúar 1982 en þeir tónleikar voru teknir upp og síðar gefnir út á kassettu um vorið undir titlinum Live Hótel Borg 14.1.82, upplagið var ýmist sagt vera hundrað eða tvö hundruð eintök.

Tímasetning brottfarar Magnúsar kom sveitinni fremur illa því hún var í þann mund að fara í upptökur í Hljóðrita í Hafnarfirði á fyrstu plötu sinni, það varð þó úr að Magnús lék inn á upptökurnar sem session maður en hann var í raun hættur þá í sveitinni.

Platan, fjögurra laga, kom út í apríl á vegum Spors en hún bar nafn sveitarinnar. Til stóð að Spor myndi stefna á útgáfu plötunnar erlendis en af þeim fyrirætlunum varð aldrei. Platan hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu, DV, Helgarpóstinum og Tímanum og þokkalega í Mánudagsblaðinu, Samúel og Poppbók Jens Guð. en í öðrum dómi sem birtist í Morgunblaðinu fékk hún hins vegar slaka gagnrýni.

Bodies var ekki trommaralaus lengi en Magnús Bjarkason tók sæti nafna síns Stefánssonar, hinn nýi Magnús var frá Raufarhöfn rétt eins og Magnús Stefánsson og Rúnar Erlingsson bassaleikari. Magnús hinn nýi lék með sveitinni í fyrsta sinn um svipað leyti og platan kom út.

Bodies

Það var ljóst að smám saman væri að fjara undan Bodies og þegar Magnús Bjarkason hætti um sumarið var stutt eftir, þeir Halldór Lárusson trommuleikari og Örn Hjálmarsson gítarleikari úr Spilafíflum gengu til liðs við sveitina og léku með henni í nokkrar vikur en síðan hætti sveitin, Dan vildi halda sveitinni gangandi áfram en fékk að því er virðist enga með sér og því dó hún drottni sínu um sumarið 1982.

Bodies kom saman aftur í tilefni af 30 ára afmæli kvikmyndarinnar Rokk í Reykjavík árið 2012 og notaði þá tækifærið og gaf út á stafrænu formi safnplötuna 30th anniversary 1982-2012 á vegum Synthadelia records en á þeirri útgáfu var að finna tíu lög, þeirra á meðal voru sex lög sem tekin höfðu verið upp í Tóntækni um svipað leyti og Ísbjarnarblús Bubba Morthens var tekin upp, sem sum hver urðu síðar Utangarðsmannalög. Platan fékk mjög góða dóma í Fréttablaðinu.

Sveitin kom einnig saman ári síðar (2013) þegar hún lék á styrktartónleikum.

Efni á plötum