Benedikt Benediktsson (1928-2011)

Benedikt Benediktsson

Nafn Benedikts Benediktssonar söngvara telst varla meðal þeirra þekktustu í íslenskri tónlistarsögu en eftir hann liggur þó tuttugu laga plata.

Benedikt fæddist vorið 1928 í Dölunum en hlaut þar ekkert sérstakt tónlistaruppeldi. Hann var kominn fram á fullorðins ár þegar sönghæfileikar hans uppgötvuðust en hann þótti afar góður söngmaður af nánast óskólagengnum manni að vera, hann nam þó eitthvað söng við Tónlistarskólann í Reykjavík og í Kaupmannahöfn. Eftir lýsingum að dæma hafði hann „fallega og hlýja bassa/baritónrödd“.

Benedikt starfaði mest alla sína starfsævi sem kennari og skólastjóri en mun hafa sungið í nokkrum kórum í gegnum tíðina, lengst af með Þjóðleikhúskórnum en þar tók hann m.a. þátt í mörgum óperu- og óperettuuppfærslum. Hann mun þó einnig hafa sungið einsöng með kórum sínum og jafnvel haldið einsöngstónleika.

Benedikt söng jafnframt nokkrum sinnum í útvarpinu á árunum 1972 til 84 og voru upptökur gerðar með söng hans, þær voru varðveittar og gaf Benedikt þær sjálfur út á plötu árið 1997 sem bar heitið Nú ríkir kyrrð. Á henni er að finna tuttugu einsönglög úr ýmsum áttum, bæði íslensk og erlend, við píanóundirleik Guðrúnar A. Kristinsdóttur og Ólafs Vignis Albertssonar.

Benedikt lést árið 2011.

Efni á plötum