Afmælisbörn 21. apríl 2024

Benedikt Benediktsson

Tvö tónlistartengd afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar á þessum degi:

Annað þeirra er dans- og raftónlistarmaðurinn Stephan Stephensen, sem einnig gegnir nafninu President Bongo og hefur gefið út plötu undir því nafni, en hann er fimmtíu og þriggja ára gamall í dag. Stephan er kunnastur fyrir veru sína í Gus Gus en hefur einnig starfað í Gluteus Maximus auk þess að hafa verið bassaleikari í hljómsveitinni Tussuli fyrir margt löngu og reyndar komið mjög víða við í tónlistarsköpun sinni. Stephan hefur ennfremur starfrækt útgáfufyrirtækið Radio Bongo.

Hitt afmælisbarnið er Benedikt Benediktsson söngvari (1928-2011) sem einnig átti afmæli þennan dag. Benedikt starfaði sem kennari og skólastjóri mest alla sína tíð og var að mestu óskólagenginn í tónlist en söng með kórum, þar á meðal Þjóðleikhúskórnum í nokkrum óperu- og óperettuuppfærslum. Hann sendi frá sér einsöngsplötuna Nú ríkir kyrrð, árið 1997 með upptökum frá ýmsum tímum.

Vissir þú að Taugadeildin er nú um þetta leyti að senda frá sér plötu eftir fjörutíu og þriggja ára hlé?