Taugadeildin (1980-81)

Taugadeildin

Taugadeildin er ein þeirra sveita sem náði að senda frá sér plötu á pönk- og nýbylgjuskeiðinu um og eftir 1980, hún varð þó ekki langlíf fremur en margar sveitir þess tíma.

Upphaflega var um dúett að ræða en þeir Árni Daníel Júlíuson bassaleikari og Óskar Þórisson söngvari byrjuðu að vinna tónlist saman með aðstoð trommuheila haustið 1980, fljótlega bættist gítarleikarinn Arnór Snorrason (Fræbbblarnir o.fl.) í hópinn. Arnór staldraði ekki lengi við og Óðinn Guðbrandsson tók sæti hans, Þorsteinn Hallgrímsson bættist einnig í sveitina en hann lék á hljómborð. Síðastir komu inn Kormákur Geirharðsson trommuleikari og Egill Lárusson söngvari.

Tónlist sveitarinnar var eins konar hljómborðsskotið síðpönk og þegar blaðamaður skilgreindi hana sem ska-sveit vildu meðlimir hennar ekkert kannast við það. Löngu síðar þegar Taugadeildin kom saman á nýjan leik áttu þeir sér hins vegar hliðarsjálf sem þeir kölluð Ska-deildin, og komu reyndar fram undir því nafni.

Vorið 1981 tók Taugadeildin upp fjögurra laga plötu sem Fálkinn kom að sem útgefandi. Sveitin var mjög öflug í spilamennskunni á meðan beðið var eftir plötunni, spilaði mikið á Hótel Borg, sem var aðalvígi pönksenunnar, en einnig eitthvað úti á landi. Sveitin kom ennfremur fram á tónlistarhátíðinni Annað hljóð í strokkinn sem haldin var um sumarið, auk þess að vera ein þeirra sveita sem hitaði upp fyrir bresku sveitina Any trouble.

Taugadeildin á sviði

En líftími Taugadeildarinnar varð ekki langur fremur en margra annarra sveita og um það leyti sem platan kom loks út um haustið eftir nokkrar tafir, hætti hún störfum.

Platan sem kom út í litlu upplagi, fékk ágætar viðtökur gagnrýnenda dagblaðanna s.s. fremur jákvæða dóma í Þjóðviljanum og Helgarpóstinum og þokkalega í Dagblaðinu.

Platan er fáséð í dag og mikill safngripur, lögum Taugadeildarinnar hefur lítt verið haldið á lofti og kemur líklega til hversu erfitt er að nálgast plötunar. Her longing (sem var það lag sem mest var áberandi á sínum tíma) kom þó út á safnplötunni Northern light playhouse sem Fálkinn gaf út á sínum tíma (stuttu eftir að sveitin lagði upp laupana) og var ætluð til að kynna íslenska nýbylgju- og pönktónlist erlendis, en einnig komu tvö lög út löngu síðar á tveimur safnsnældum á vegum Erðanúmúsík þegar Pönksafn Íslands opnaði í Bankastrætinu. Sagan segir að lag hafi komið út með sveitinni á erlendri safnplötu en engar upplýsingar finnast hins vegar um það.

Meðlimir Taugadeildarinnar birtust flestir hverjir í öðrum sveitum síðar meir en beint afsprengi sveitarinnar var dúett þeirra Óskars og Óðins, Mogo homo.

Sveitin var endurvakin árið 2004 og hefur komið fram í nokkur skipti síðan, hún hefur þó ekki starfað samfellt.

Efni á plötum