Afmælisbörn 7. febrúar 2019

Gylfi Þ. Gíslason

Afmælisbörn dagsins eru fimm talsins en öll eru þau látin:

Gylfi Þ. Gíslason tónskáld og stjórnmálamaður (1917-2004) hefði átt þennan afmælisdag en hann samdi sönglög sem mörg hafa komið út á plötum. Hann samdi m.a. lög við ljóð Tómasar Guðmundssonar sem margir þekkja, t.d. Hanna litla, Ég leitaði blárra blóma, og Lestin brunar.

Þorvaldur Steingrímsson fiðluleikari (1918-2009) átti einnig afmæli á þessum degi, hann nam fiðluleik hér heima og í London, og þegar heim var komið hóf hann að leika með Útvarpshljómsveitinni og Sinfóníuhljómsveitinni sem þá var nýstofnuð, hann varð konsertmeistari við Þjóðleikhúsið, kenndi við Tónlistarskólann í Reykjavík og vann að ýmsum tónlistartengdum félagsstörfum.

Friðrik Theodórsson bassa- og básúnuleikari (1937-2014) hafði þennan afmælisdag einnig. Hann lék á kontrabassa með ýmsum hljómsveitum í áratugi áður en hann skipti yfir í básúnu. Hann var einnig þekktur fyrir sönghæfileika og söng meira að segja sem gestasöngvari á plötum Hjördísar Geirs og Grétars Sigurbergssonar. Friðrik var um tíma í stjórn Jazzvakningar og Jazzhátíðar Reykjavíkur.

Ingimundur Árnason (1895-1964) tónlistarfrömuður á Akureyri átti einnig afmæli þennan dag. Ingimundur varð kunnastur fyrir að stjórna Karlakórnum Geysi í áratugi en hann kom einnig að stofnun Heklu, sambands norðlenskra karlakóra, auk annarra tónlistartengdra starfa nyrðra.

Lárus Sveinsson trompetleikari (1941-2000) er síðastur í upptalningunni að þessu sinni sem afmælisbarn dagsins. Hann kom upphaflega frá Norðfirði, lék þar fyrst með hljómsveitum en eftir að hann fluttist á höfuðborgarsvæðið lék hann með ýmsum hljómsveitum s.s. Sinfóníuhljómsveit Íslands og Lúðrasveit Hafnarfjarðar en einnig stjórnaði hann kórum og lúðrasveitum syðra. Leik Lárusar er að finna á fjölmörgum plötum og einnig kom út lítil plata hjá SG-hljómplötum með trompetleik hans.