Áheyrilegt og vandað gæðapopp

Bjarni Ómar – Enginn vafi
Bjarni Ómar Haraldsson LP01 / CD03, 2018

 

 

Tónlistarmaðurinn Bjarni Ómar Haraldsson frá Raufarhöfn hefur leikið með fjölda nafntogaðra og minna þekktum sveitum norðan heiða í gegnum tíðina, þeirra á meðal má nefna sveitir eins og Kokkteil / Antik, Þrumugosa, Laugabandið, Þokkalegan mola og Sífrera.

Fyrir margt löngu hafði Bjarni einsett sér að senda frá sér sólóplötur á tíu ára fresti og kom sú fyrsta – Annað líf, út árið 1998, önnur (Fyrirheit) birtist árið 2008 og nú nýverið leit sú þriðja dagsins ljós en hún ber titilinn Enginn vafi og er hér fjallað um. Áður en lengra er haldið skal hér nefnt að platan er gefin út bæði á geisla- og vínylplötuformi en síðarnefnda útgáfan er tvöfalt albúm í því skyni að ná sem bestum hljómgæðum – geri aðrir betur.

Bjarni kallar til sín Vigni Snæ Vigfússon til samstarfs á plötunni en hann ásamt því að stýra upptökum og taka upp, útsetur með Bjarna, leikur á gítar, raddar og eitthvað fleira. Auk þeirra tveggja koma við sögu þau Róbert Þórhallsson bassaleikari, Þorvaldur Þór Þorvaldsson trommuleikari, Helgi Reynir Jónsson hljómborðaleikari, Anna Sigríður Snorradóttir og Ragna Björg Ársælsdóttir sem annast röddun, Troy Engle og Daniel Flam sem leika á ýmis strengja- og málmblásturshljóðfæri, og strengjasveit sem ber nafnið Supreme track.

Alls eru á plötunni þrettán lög eða e.t.v. mætti frekar segja ellefu lög og tvö aukalög, annað þeirra er endurútgáfa af laginu Ert þú vitnið? af fyrstu plötu Bjarna sem þarna hefur fengið yfirhalningu en hitt er kunnglegra undir titlinum Nótt í Moskvu og var á sínum tíma sungið af Ragnari Bjarnasyni (og fleirum). Lagið hefur í áratugi verið sungið á Raufarhöfn undir textanum Rennur sól og er Bjarni með gjörningnum að treysta varanlega geymslu þess og varðveislu um aldir og ævi.

Strax við fyrstu hlustun ber platan nokkuð handbragð Vignis í útsetningum, gítarleik og röddun og er vel því hún er fagmannlega unnin, tónlistin rennur að mestu sem ein heild, einungis aukalögin tvö stinga nokkuð í stúf hvað það varðar enda stíll þeirra allt annar, og þau einnig ólík innbyrðis. Og þótt víða sé komið við í útsetningum með strengjum, brassi og jafnvel stálgítar kemur það ekki niður á heildarhljómnum og þær skreytingar fegra smekklega án þess að skyggja á annað, það sama má segja um raddanir.

Tónlist Bjarna og rödd eru þægileg áheyrnar, lagasmíðarnar hefðbundnar að uppbyggingu og margar hverjar jafnvel fyrirsegjanlegar ef svo mætti að orði komast en þó án þess að vera um of einfaldar eða kunnuglegar annars staðar frá. Bjarni er þó Bubba maður, það fer ekki á milli mála og heyrist vel í lögum eins og Krabbinn og Þegar draumarnir svíkja.

Textarnir koma úr ýmsum áttum en Bjarni á flesta þeirra sjálfur, þótt þeir séu á margan hátt ólíkir eðli málsins samkvæmt hafa þeir sameiginlegan flöt og mynda með lagasmíðunum þessa heild sem er nefnd hér ofar, þar vegur þyngst að lögin koma í hárréttri röð á plötunni að mati undirritaðs. Textarnir eru yfirleitt vel ortir og persónulegir, sérstaklega þeir sem Bjarni hefur sjálfur samið en um leið opnar hann sig einlæglega upp á gátt og það er allt að því óþægilegt, samt sé ég þetta ekki gert á annan hátt enda má segja að platan sé uppgjör hans við tímabil í lífinu.

Enginn vafi er góð og vel unnin plata, það er jafnframt styrkur hennar að erfitt er að draga út eitt eða fleiri lög umfram önnur og mörg þeirra eiga klárlega erindi í útvarpsspilun án þess þó að vera einhverjir stórsmellir. Á sama hátt má segja að ekkert laganna sé slakara en annað. „Aukalögin“ tvö hafa nokkurt tilfinningagildi fyrir Raufarhafnarbúa og sú ákvörðun Bjarna að varðveita Rennur sól (Nótt í Moskvu) með þessum hætti er virðingarverð, þó er eins og vanti herslumuninn upp á að dramatíkin í laginu skili sér, kannski hefði bara þurft eina hálfnótu hækkun til að stækka lagið. Alltént eru lögin tvö örlítið stílbrot á annars góðri heild.

Allur frágangur er til fyrirmyndar, umslag plötunnar smekklegt og allar upplýsingar vel læsilegar hvort sem um geisladiska- eða vínylplötuútgáfuna er að ræða. Textar komast vel til skila og er vel.

Samandregið má segja að þessi plata sé vel unnin á allan hátt og aðstandendum til mikils sóma, það eru ekki margir einyrkjar sem hafa kjark til að gefa út geisladisk og tvöfalt vínylplötualbúm á þeim tíma sem tónlistarveiturnar á netinu sjá um mestallt flæði og sölu tónlistar í heiminum. Besta plata Bjarna til þessa.