Ingimundur Árnason (1895-1964)

ingimundur-arnason1

Ingimundur Árnason

Ingimundur Árnason kórstjórnandi var mikils metinn í tónlistarlífi Akureyringa meðan hans naut við en segja má að hann hafi byggt upp karlakóramenningu bæjarins.

Ingimundur sem fæddist á Grenivík árið 1895 lærði á orgel í æsku og tónlistaráhugi hans og -hæfileikar urðu til þess að hann var orðinn organisti í heimabyggð fyrir fermingu. Um tvítugt stjórnaði hann blönduðum kór á Grenivík.

Orðspor af kórstjórnendahæfileikum Ingimundar varð til þess að farið var á leit við hann 1922 að hann stjórnaði nýstofnuðum karlakór sem settur hafði verið á laggirnar á Akureyri. Hann hafði þá verið starfandi fyrir útibú KEA (Kaupfélag Eyfirðinga á Akureyri) á Grenivík en einhverjar ráðstafanir voru gerðar til að hann fengi starf á Akureyri.

Svo fór að Ingimundur tók tilboðinu, starfi hjá KEA og söngstjórn karlakórsins sem fengið hafði nafnið Geysir. Kórnum stýrði hann í áratugi eða allt til ársins 1954 (með stuttum hléum) og gerði hann Geysi að öflugum kór norðan heiða, kórinn vakti reyndar feikimikla athygli hvar sem hann kom fram og má segja að hátindi hans hafi verið náð á Alþingishátíðinni á Þingvöllum sumarið 1930. Kórinn fór í söngferðalög innan lands sem utan og söng inn á fjölmargar plötur og í útvarpi undir stjórn Ingimundar, þannig varð kórinn einn besti karlakór landsins og Ingimundur einn virtasti kórstjórnandi sinnar samtíðar.

Hann var ekki einungis kórstjórnandi heldur kom hann einnig að tónlistarstarfinu frá öðrum hliðum, hann var t.d. hvatamaður og einn af stofnendum Heklu, sambands norðlenskra karlakóra og var í stjórn Tónlistarbandalags Akureyrar svo dæmi séu tekin af félagstengdum störfum hans.

Ingimundur hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir starf sitt í þágu tónlistargyðjunnar, hann var kjörinn heiðursfélagi Sambands íslenskra karlakóra, hann hlaut ennfremur fálkaorðuna og þess má geta að brjóstmynd var gerð honum til heiðurs á sextugs afmælis hans.

Ingimundur lést 1964, tæplega sjötugur að aldri.