Ingimundur fiðla (1873-1926)

ingimundur-fidla

Ingimundur Sveinsson

Ingimundur fiðla var kunnur flökkumaður og fiðluleikari, af mörgum álitinn furðufugl en var að öllum líkindum bráðgreindur og með framúrskarandi tónlistarhæfileika.

Ingimundur Sveinsson fæddist í Meðallandinu í Vestur-Skaftafellssýslu haustið 1873 og ólst upp í sárri fátækt en hann var einn af systkinum sem töldu líklega á annan tug, Jóhannes Kjarval listmálari var á meðal þeirra en Ingimundur var tólf árum eldri en hann.

Tónlistarhæfileikar Ingimundar munu hafa uppgötvast á unga aldri, hann hafði fengið einhverja leiðsögn á orgel og var hann orðinn organisti í Meðallandinu fremur ungur. Hann mun einnig hafa leikið á harmonikku en fiðlan átti síðar eftir að verða aðal hljóðfæri hans.

Ingimundur mun hafa verið á þrítugs aldri þegar hann giftist ekkju á Eyrarbakka sem var töluvert mikið eldri en hann. Þegar leiðir þeirra skildu eftir að hafa búið um skeið í Reykjavík, breyttist lundarfar hans eftir því sem sögur segja og á þeim tíma lagðist hann á flakk, starfaði í fremur stuttan tíma á hverjum stað en tók ljósmyndir af fólki og skemmti gjarnan fólki með fiðluleik en honum hafði áskotnast rússnesk fiðla með einhverjum hætti.

Tónlist Ingimundar, sem nú var iðulega nefndur Ingimundur fiðla, var bæði af frumsömdum og blönduðum toga, og mun hann hafa blandað brotum úr verkum gömlu meistaranna svo úr varð sérstök blanda af tónlist sem kallaði fram sterk viðbrögð áheyrenda en fólk mun jafnvel hafa tárast eða grátið undir fögrum leik hans svo hann hefur án nokkurs vafa haft tónlistarhæfileika þótt alþýðulistamaður væri.

Frumsamin lög hans munu hafa verið allmörg og gengið undir titlum á borð við Kona í barnsnauð, Skilvindan á Skorrastað og Tíkin og tittlingurinn, síðast talda lagið mun hafa verið skírskotun til hundsgelts og fuglasöngs – hafi einhver verið í vafa.

Einnig sérhæfði hann sig í að leika ýmis náttúrunnar hljóð eftir á fiðluna, má þar nefna fuglahljóð og önnur umhverfishljóð. Ingimundur mun hafa eytt miklum tíma á tímabili í að æfa sig á hljóðfærið og skipti þá engu máli hvaða tíma sólarhrings var um að ræða, hann mun stundum hafa staðið í flæðamálinu og látið gárurnar um að leika rythmann og svo spilaði hann við þann takt.

Fiðlan var hans einkenni en á ferðum hans um landið var með honum kona að nafni Sigríður (einnig kölluð Tobba) sem hafði óljóst hlutverk á meðan Ingimundur lék á fiðluna, þó segir heimild að hún hafi dansað. Þannig mun Ingimundir ekki einungis hafa leikið á tónleikum heldur líka á dansleikjum, og þá mun hann ennfremur hafa sungið með.

ingimundur-fidla1

Ingimundur og Tobba

Margar sögur hafa verið sagðar af Ingimundi. Eitt sinn hafði hann verið beðinn um að spila á fiðlu sína fyrir gesti á fyrsta farrými farþegaskips, sem hann gerði ef hann fengi eina krónu að launum. Svo spilaði hann lengi á hljóðfærið, reyndar mun lengur en menn ætluðu og var fólkið orðið þreytt á fiðluleiknum, þegar einhver bað hann um að hætta sagðist hann myndu gera það ef hann fengi aðra krónu greidda. Og svo varð.

Önnur saga af honum segir að nokkrir unglingar hafi aurað saman í eina krónu til að fá hann til að spila á fiðluna. Ingimundur spilaði í mjög skamman tíma en hætti svo skyndilega. Þegar unglingarnir vildu fá meiri fiðluleik sagði hann einfaldlega: það er ekki lengi verið að spila fyrir eina krónu!

Líf Ingimundar hlaut þó sviplegan endi en hann var þá á fimmtugasta og fjórða aldursári, hann hafði þá verið að leika á fiðlu fyrir fjölda fólks (sögur segja það ýmist hafa verið í Heiðmörk eða í Viðey) og eftir tónleikana hafi hann lagst út í náttúruna þegar drukkinn maður sparkaði í andlit hans og kjálkabraut. Það mein dró hann síðan til dauða ekki löngu síðar.

Ingimundur fiðla hefur gjarnan verið settur í flokk með furðufuglum eins og Gvendi dúllara, Sæfinni með sextán skó og Þórði malakoff, og margar sagna um hann hafa verið skrásettar og verið mönnum hugleiknar. Þannig ritaði Gunnar M. Magnúss bókina Ingimundur fiðla og fleira fólk (1982) sem hafði m.a. að geyma frásagnir af honum, og einnig er til ljóð eftir Þorstein Valdimarsson sem ber titilinn Ingimundur fiðla.

Engar upptökur hafa varðveist með fiðluleik Ingimundar fiðlu svo kunnugt sé enda upptökutæknin stutt á veg komin á meðan hann lifði.