Valdimar Örn Flygenring og Hendes verden (1991)

Valdimar Örn Flygenring og Hendes verden ásamt Jóni Skugga upptökustjóra

Hljómsveitin Valdimar Örn Flygenring og Hendes verden starfaði í um eitt ár árið 1991 og sendi frá sér eina plötu.

Hendes verden var hugarfóstur Valdimars Arnar Flygenring leikara og hálfgert sólóverkefni en hún var stofnuð í upphafi ársins 1991 og var þá tríó, Halldór Lárusson trommuleikari og Björn Vilhjálmsson bassaleikari skipuðu þá sveitina með Valdimari Erni sem söng og lék á gítar.

Um vorið hafði Hendes verden tekið á sig aðra mynd, þá var sveitin komin í hljóðver til að taka upp plötu undir stjórn Jóns Skugga, og kom um svipað leyti fram opinberlega í fyrsta sinn. Meðlimir hennar voru þá Valdimar Örn og Halldór en Þórður Högnason bassaleikari var þá kominn í stað Björn, sem hrein viðbót var gítarleikarinn Einar Kr. Pálsson kominn í sveitina en hann lék einnig á ýmis önnur hljóðfæri. Tónlistin var sérkennileg blanda djass, blús og jafnvel rokkabillí og var hún eftir Valdimar.

Lítið spurðist til Valdimars Arnar Flygenring og Hendes verden næstu mánuðina en um haustið birtist sveitin aftur og tilbúin með útgefna plötu, hún fékk titilinn Kettlingar. Enn höfðu orðið breytingar á sveitinni, Bergsteinn Björgúlfsson trommuleikari var nú kominn í stað Halldórs.

Kettlingar hlutu góðar viðtökur poppskríbenta og hlaut platan alls staðar prýðilega dóma, í DV, Vikunni, Þjóðviljanum og Morgunblaðinu.

Þrátt fyrir yfirlýsingar þess efnis Valdimars að sveitin myndi fylgja plötunni eftir með tíðu tónleikahaldi, fór lítið fyrir henni eftir útgáfu plötunnar og e.t.v. hafði það sitt að segja um hversu illa hún seldist.

Lag með sveitinni kom út á safnplötunni Forskot á sæluna um svipað leyti og platan kom út.

Efni á plötum