The Magnetics (1981)

The Magnetics

Dúettinn The Magnetics var hálf íslenskur en meðlimir hans voru Stuðmaðurinn og kamelljónið Jakob Frímann Magnússon og Bandaríkjamaðurinn Alan Howarth en þeir félagar voru meðal fyrstu til að taka tölvutæknina í sína þjónustu í tónlistinni.

Samstarfið kom til af því að þeir unnu tónlist við heimildamyndina Brasilíufarana sem Jakob vann að árið 1981 í Los Angeles þar sem hann bjó um það leyti. Í kjölfarið hófu þeir að koma fram undir nafninu The Magnetics og gáfu út plötu samhliða því, fyrst tveggja laga plötuna Jaki og síðan tíu laga breiðskífuna A historical glimps of the future sem hafði m.a. að geyma tónlist úr fyrrnefndri kvikmynd. Þeir félagar unnu einnig með Jóhann Helgasyni um þetta leyti og komu við sögu á plötu hans, Tass sem kom út sama ár.

Til að fylgja A historical glimps of the future eftir og um leið að kynna þess tegund tónlistar sem var að öllu leyti unnin með trommuheilum, samplerum og hljóðgervlum, fór dúettinn í tónleikaferð um haustið 1981 – fyrst um Ísland og síðan um Skandinavíu, Holland og Þýskaland. Einnig var á prógramminu tónlist af sólóplötu Jakobs, Jack Magnet en hún hafði komið út þá um sumarið. Á Íslandi slóst Bubbi Morthens í för með þeim félögum með gítarinn að vopni en þá hafði hann nýverið verið rekinn úr Utangarðsmönnum og átti eftir að stofna Egó fáeinum vikum síðar.

Platan A historical glimps of the future fékk varla nema sæmilegar viðtökur, hún fékk þokkalega dóma í Tímanum og Dagblaðinu en þeir félagar fengu nokkuð að kenna á blaðamönnum þegar tæknin virkaði ekki alltaf sem skyldi á tónleikum tvíeykisins.

The Magnetics starfaði fram undir áramót 1981-82 eða þar til Evróputúrnum lauk en Jakob stofnaði fljótlega á nýju ári aðra sveit, Bone Symphony.

Efni á plötum