Change (1972-76)

Change 73

Change 1973

Saga hljómsveitarinnar Change, afsprengi Magnúsar Þór Sigmundssonar og Jóhanns Helgasonar, er kennslubókardæmi um vonir og væntingar Íslendinga um meikdrauma erlendis, sem vel að merkja öll íslenska þjóðin tók þátt í. Vonir og væntingar sem smám saman urðu að engu. Sveitarinnar verður minnst fyrst og fremst fyrir það og í seinni tíð einnig fyrir hljómsveitarsamfestinga sem í þeirri tíð þóttu glæsilegir en þykja í dag barn síns tíma.

Change hófst í raun sem samstarf og verkefni þeirra Suðurnesjafóstbræðra, Magnúsar Þór Sigmundssonar og Jóhanns Helgasonar en þeir höfðu þá um nokkurt skeið starfað sem dúettinn Magnús og Jóhann, fyrst á Íslandi og síðan Bretlandi.

Þeir félagar voru einmitt staddir í London veturinn 1972-73 í þeim tilgangi að koma sér á framfæri þegar Orange-útgáfan breska fór að sýna efni þeirra áhuga en þeir kölluðu sig Pal brothers um þetta leyti.

Svo fór tveggja laga plata með lögunum Yakety yack, smacketty smack og When the morning comes, var gefin út vorið 1973 en platan var unnin í hljóðveri Orange. Fyrra lagið naut nokkra athygli og varð einkum vinsælt hér heima. Platan var gefin út undir flytjendanafninu Change en það hafði verið ákveðið með litlum fyrirvara og virðist engan veginn hafa verið ætlað til lengri tíma notkunar. Í raun var ekki um hljómsveit að ræða ennþá heldur aðeins samstarfsverkefni Magnúsar og Jóhanns en þeir höfðu fengið íslenska hljóðfæraleikara til liðs við sig í upptökunum, krafa útgefandans mun hins vegar hafa verið að um hljómsveit yrði að ræða en ekki dúett þeirra tveggja.

Um vorið eða um svipað leyti og þessi fyrsta tveggja laga plata kom út, gengu því Sigurður Karlsson trommuleikari og Birgir Hrafnsson gítarleikari til liðs við þá félaga en þeir komu úr hljómsveitinni Svanfríði sem þá var nýhætt, og varð þá úr fjögurra manna sveit með þeim, Magnús Þór á gítar og Jóhann á bassa en þeir sungu ennfremur báðir. Þá fyrst er í raun hægt að tala um að hljómsveitin Change væri stofnuð.

Change 74

Change 1974

Eitthvað mun sveitin hafa spilað um sumarið (1973) í Bretlandi en um haustið kom sveitin heim til Íslands í frí, þá mun Jóhann hafa kiknað undan miklu álagi og leitaði sér lækninga vegna þess hér heima. Þá höfðu miklar tröllasögur gengið á Íslandi um meinta „kynvillu“ þeirra fóstbræðra og hassneyslu og reyndist erfitt að kveða niður slíkar sögur, það hefur eflaust ekki heldur orðið til að minnka álagið á þá félaga.

Þrátt fyrir að Change-nafnið hefði verið notað á tveggja laga plötuna notuðu þeir Pal brothers nafnið á öðrum tveimur litlum plötum sem komu út um haustið ´73, enda höfðu þær verið teknar upp áður en Birgir og Sigurður komu til sögunnar, þar náði lagið Candy girl nokkurri hylli hér heima. Plöturnar tvær voru gefnar út saman í pakka, í eins konar albúmi. Þær fengu þokkalega dóma í Vísi.

Sveitin hét nú orðið Change eins og áður segir og þeir sveitarmeðlimir fóru á fulla ferð í byrjun árs 1974, starfaði hún að mestu hér á Íslandi fram til vors en þá fluttust þeir búferlum til Bretlands á nýjan leik. Miklar væntingar voru gerðar til sveitarinnar og átti að tjalda öllu til svo hún næði frægð og frama. Útgefendur virtust hafa trú á sveitinni og tónlist hennar og um tíma leit jafnvel út fyrir að tónlistarmennirnir John Miles og Bob Marshall gengju til liðs við hana en þeir voru þekktir breskir tónlistarmenn. Samhliða því sem unnið var að tónlist Change voru þeir Magnús og Jóhann í hliðarverkefnum eins og fjögurra laga barnaplötunni Ábót, sem út kom á Íslandi um haustið 1974.

Um svipað leyti fóru Change-liðar að vinna að alvöru að breiðskífu og var H.B. Barnum ráðinn upptökustjóri að verkinu en hann var m.a. þekktur fyrir að hafa starfað með The Osmonds og Tom Jones, svo dæmi séu tekin.

Svo fór að þeir Change-limir voru ekki fyllilega sáttir við Orange útgáfuna og slitu samstarfi við hana, ákváðu að gefa hana sjálfir út í samstarfi við Chappel útgáfuna í Bandaríkjunum. Áður komu þó út tvær tveggja laga plötur, með lögunum Lazy London lady / Arkmaker og Get your gun / Sunshine, en þær höfðu verið teknar upp um vorið, þær fengu varla nema sæmilega dóma í Vísi en Sunshine skífan þó heldur skárri.

Jakob Frímann Magnússon hljómborðs- og píanóleikari vann nú einnig orðið með Change að stóru plötunni og mun hann um tíma hafa talist fullgildur meðlimur sveitarinnar. Auk hans komu einnig bandarískir sessionleikarar að plötunni en Barnum fór gagngert til Los Angeles til þeirra verka. Meðan á þessu öllu stóð var blásið upp í fjölmiðlum hér heima að sveitin stæði á þröskuldi heimsfrægðar og almenningur fékk þær grillur í höfuðið að hér væru jafnvel á ferðinni hinir næstu Bítlar, svo miklar urðu væntingarnar og þegar sveitin kom heim um jólin 1974 til tónleikahalds varð heilmikill fjölmiðlasirkus tengdur því þar sem fjölmiðlarnir kepptust um að taka viðtöl við sveitarmeðlimi, taka af þeim myndir og fjalla um verðandi heimsfrægð þeirra.

Change undirrita útg.samning

Change við undirritun útgáfusamnings við EMI

Sveitin notaði tækifærið og spilaði víða um jól og áramót og til stóð að halda tónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem hefðu þá orðið þeir fyrstu slíku hér á landi þar sem sinfóníu- og poppsveitir leiddu saman hesta sína. Af því varð þó ekki og kenndu menn um tímaskorti.

Breiðskífan kom síðan út fyrir jólin, hún var samnefnd sveitinni og fékk ágæta viðtökur hér heima, seldist þokkalega og fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu og frábæra í Alþýðublaðinu og Tímanum en gagnrýnandi þess blaðs tók svo djúpt í árinni að nefna hana bestu plötu sem komið hefði út á Íslandi. Jens Guðmundsson sem skrifaði Poppbókina nokkrum árum síðar og gerði úttekt á helstu plötum íslenskrar tónlistarsögu varð ekki eins hrifinn. Það sem almennt þótti vel gert á plötunni var gott sánd en platan þótti þó heldur róleg og skorti vinsældarsmell. Engar sögur fara af viðtökum gagnrýnenda ytra.

Platan seldist ekki sérlega vel í Bretlandi og margir vilja reyndar meina að þar hafi þorskastríðið átt sinn þátt en platan var t.d. bönnuð á útvarpsstöðvum í Hull.

Change fékk liðsauka þarna um áramótin 74-75 þegar Björgvin Halldórsson bættist í hópinn en þáverandi hljómsveit hans, Hljómar voru þá nýhættir.
Nokkrum vikum síðar spurðist út að Tómas M. Tómasson bassaleikari væri einnig orðinn liðsmaður sveitinnar og var þá bandið orðið sex manna, skipað þeim Björgvini, Tómasi, Jóhanni, Magnúsi, Sigurði og Birgi en Jakob taldist ekki fullgildur meðlimur Change, enda kom hann ekkert að þeirri vinnu sem nú fór í hönd.

Sveitin fór nú að vinna að næstu stóru plötu og fljótlega kom í ljós að meðlimir sveitarinnar og áðurnefndur Barnum áttu ekki leið saman, þeim þótti hann róa sveitina fullmikið niður og því fór svo að leiðir skildust. Þeir unnu því áfram að plötunni án hans.

Change spilaði ekki mikið í Bretlandi í framhaldinu, þeir komu reyndar fram í breskum sjónvarpsþætti ásamt Bay City Rollers en það virtist ekki skila sveitinni miklu. Frægðin lét á sér standa og menn fóru smám saman að gerast óþreyjufullir enda fór megnið af tíma þeirra í bið.

Meðlimir sveitarinnar komu þó að ýmsum hliðarverkefnum í Bretlandi, þeir léku t.a.m. undir á plötunni Sumar á Sýrlandi sem Jakob Magnússon og Valgeir Guðjónsson unnu að undir nafni Stuðmanna, sem þá var ekki orðin eiginleg hljómsveit. Björgvin söng þar að auki tvö lög á plötunni. Þeir Magnús og Jóhann unnu einnig að annarri barnaplötu um haustið, Allra meina bót, sem kom út um jólin.

Change 75b

Change í göllunum góðu

Sumarið 1975 kom út tveggja laga plata í Bretlandi á vegum EMI sem þá var komið inn í dæmið, hún innihélt lögin Ruby baby og If I og gekk þokkalega en fyrrgreinda lagið átti einmitt að verða titillag stóru plötunnar sem smám saman var að taka á sig endanlega mynd. Hluti af markaðssetningu sveitarinnar fólst í að galla hana upp, og af því tilefni var farið með hljómsveitina til klæðskera og þeir klæddir upp í hljómsveitargalla, eins konar samfestinga kyrfilega merkta Change. Þannig sprönguðu meðlimir sig um götur Lundúna og vöktu þó nokkra eftirtekt þótt ekki væri nema fyrir múnderinguna. Myndir af þeim félögum birtust fljótlega í miðlum hér heima og sýndist sitt hverjum. Því verður þó ekki neita að Change-gallarnir hafa elst einkar illa og eru í dag iðulega sýndir í skoplegu samhengi. Tískugildið vék fyrir skemmtanagildinu með tímanum.

Um sumarið kom hljómsveitin heim til Íslands og spilaði víða en fékk ekki alveg eins mikla athygli fjölmiðla og nokkrum mánuðum fyrr þegar hún kom heim um jólin. Sveitin spilaði þó á útitónleikum í Austurstræti og var vel mætt á þá tónleika þrátt fyrir leiðindaveður. Haustið 1975 unnu meðlimir Change að því að klára plötuna og var því verki líklega nánast lokið þegar sveitin kom aftur heim um jólin, þá höfðu þeir átt í einhverri rimmu við útgefendur plötunnar sem vildu m.a. breyta nafni sveitarinnar, það kom þó aldrei til greina af hálfu Change-liða.

Það var ljóst um jólin að sveitarmeðlimir voru orðnir langþreyttir á því að ekkert var að gerast í þeirra málum og varla meira en svo að þeir hefðu haft í sig og á í Bretlandi síðustu mánuðina, vonir þeirra og væntingar höfðu smátt og smátt verið að breytast í eins konar biðtíma eftir einhverju sem virtist ekki ætla að verða. Styrktaraðilar voru aukinheldur smám saman farnir að yfirgefa verkefnið.

Í ársuppgjörum fjölmiðlanna hér heima var Change þó framarlega í flokki, sveitin var kjörin bjartasta vonin ´76 af Vísi, og einnig var Björgvin valinn besti söngvarinn og Tómas besti bassaleikarinn. Aðrir meðlimir sveitarinnar voru heldur ekki langt undan í sínum flokkum. Það virtist þó hilla undir endalok sveitarinnar því fljótlega eftir áramótin 1975-76 var uppi orðrómur um að sveitin væri hætt, nokkru síðar var það staðfest að þeir Birgir, Sigurður og Tómas væru allir hættir og ekki löngu síðar lagði Change endanlega upp laupana þótt þremenningarnir sem eftir voru reyndu að klóra eitthvað í bakkann.

Ævintýrinu var lokið og í raun skildi sveitin lítið eftir sig tónlistarlega séð, þótt platan fengi ágæta dóma skorti hana „hittara“ eins og áður segir og því er eini minnisvarði hennar lagið Yakety yak, Smacketty smack sem gekk í endurnýjun lífdaga áratugum síðar þegar það var notað í auglýsingaskyni og hvert mannsbarn á Íslandi þekkir það þess vegna. Það er þó ekki víst að allir átti sig á uppruna lagsins, enda er það svolítið „erlendis“.

Óútgefna platan bíður enn útgáfu en sagan segir að hún hafi m.a. að geyma lag Gylfa Ægissonar, Í sól og sumaryl með enskum texta. Einnig ku smáskífa með lögunum Wild cat og Hold on enn vera óútgefin. Breiðskífan síðan 1974 var hins vegar endurútgefin tuttugu árum síðar og þá með Yackety yak, smacketty smack sem aukalag.

Efni á plötum