Grámann og Hrámann (1975)

engin mynd tiltækGrámann og Hrámann var stúdíóverkefni og hliðarspor þeirr Change-liða Magnúsar Þórs Sigmundssonar og Jóhanns Helgasonar en þeir höfðu vorið 1974 gefið út litla plötu undir nafninu Ábót.

Þeir mættu á sjónarsviðið aftur ári síðar undir þessu nafni, Grámann og Hrámann og höfðu félaga sína úr Change sér til fulltingis, utan þess að Björgvin Halldórsson kemur ekkert við sögu.

Þetta verkefni var hugsað sem beint framhald af Ábótarplötunni og nú var ráðist í stærra verkefni, stóra plötu sem tekin var upp í Chappell studios í London haustið 1975 en þar voru margar íslenskar plötur unnar um þetta leyti, m.a. Sumar á Sýrlandi.

Platan kom út skömmu fyrir jólin og hlaut kannski minni athygli fyrir það að vera seint á ferðinni en það skýrðist af því að skurður hennar mistókst og því þurfti að skera plötuna á nýjan leik.

Hún hlaut titilinn Allra meina bót en ekki var getið á plötuumslagi hverjir þessir Grámann og Hrámann væru, hvað þá aðstoðarmennirnir Blámann, Támann og Skámann en þá var í tísku að svokallaðar „leynihljómsveitir“ gæfu út plötur, þar er skemmst að minnast Lónlí blús bojs og Stuðmanna. Í raun var þó aldrei neitt leyndarmál hverjir stæðu að baki útgáfu plötunnar og birtust viðtöl við þá félaga í fjölmiðlum þ.a.l.

Umslag plötunnar var nýstárlegt en það myndskreytti breski listamaðurinn Steve Achword, framhlið þess hafði að geyma einhvers konar felumynd en einnig fylgdi fyrsta upplagi plötunnar barmmerki (í sjö mismunandi útfærslum) sem sýndi hluta umslagsins. Fálkinn sem sá um dreifingu plötunnar keypti upp fyrsta upplag hennar.

Platan hlaut yfirleitt nokkuð góðar viðtökur plötugagnrýnenda dagblaðanna, t.d. í Þjóðviljanum og Vísi en ekki voru allir á eitt sáttir með texta hennar, og t.d. var lagið Nag (Vonakona) bannað í Ríkisútvarpinu. Lagið var tileinkað kvennaárinu en í því má heyra rifrildi hjóna um ferðalag sem verið er að skipuleggja, í lok lagsins þarf ekki mikið ímyndunarafl til að skilja sem svo að konunni sé komið fyrir kattarnef með afar óþyrmilegum hætti.

Nokkur laganna urðu vinsæl eins og Mamma, gefðu mér grásleppu en hljómsveitirnar Á móti sól og Buff tóku það upp á sína arma um þrjátíu og fimm árum síðar og gáfu út á nýjan leik í sinni útsetningu.

Þrátt fyrir góðar viðtökur og að margir telji plötuna meðal þeirra bestu barnaplatna sem gefin hefur verið út á Íslandi, hefur hún týnst í áranna skaut og hefur t.d. aldrei verið gefin út á geislaplötuformi.

Þeir félagar Magnús og Jóhann komu hins vegar að fjölmörgum barnaplötum í kjölfarið og má þar nefna plötur eins og Börn og dagar, Pósturinn Páll, Óla priks-plöturnar og fleiri.

Efni á plötum