Magnús og Jóhann (1969-)

Magnús og Jóhann 1972

Samstarf tónlistarmannanna Magnúsar Þórs Sigmundssonar og Jóhanns Helgasonar er margrómað og nöfn þeirra eru gjarnan sett fram í sömu andrá þótt þeir hafi hvor um sig sent frá sér ógrynni sólóplatna, samið mörg af þekktustu og vinsælustu lögum íslenskrar tónlistarsögu og tekið þátt í fjölda annarra verkefna. Þeir hafa langt frá því starfað samfellt allan þann tíma en alltaf fundið hvor annan á nýjan leik í tónlistarsköpun sinni.

Þeir félagar, Magnús Þór Sigmundsson (f. 1948) og Jóhann Helgason (f. 1949) komu úr Njarðvíkum og Keflavík og kynntust árið 1966 þegar Magnús gekk til liðs við keflvísku hljómsveitina Rofa sem Jóhann var í, við þær mannabreytingar breytti sveitin um nafn og kallaðist eftir það Nesmenn en sveitin starfaði til ársins 1969. Um það leyti hófst eiginlegt samstarf þeirra Magnúsar og Jóhanns en það mun að mestu hafa farið fram í risherbergi Magnúsar í Njarðvíkum. Það var svo vorið 1971 sem dúettinn kom fyrst opinberlega fram undir nafninu Magnús og Jóhann en það mun hafa verið á tónleikum á vegum félagsskaparins Vikivaka sem var áhugaklúbbur fólks um þjóðlagatónlist, tónlist þeirra mátti klárlega skilgreina sem þjóðlagapopp þar sem þeir léku báðir á gítar, sungu og rödduðu og þeim var þannig oft líkt við Simon og Garfunkel.

Þeir vöktu nokkra athygli fyrir tónlist sína og vorið 1972 spurðist út að þeir væru að vinna að breiðskífu hjá Pétri Steingrímssyni í Tannlæknasalnum, platan kom fljótlega út undir merkjum Scorpion records og bar nafn þeirra, Magnús og Jóhann en hún gekk einnig undir nafninu „The rape of lady justice“, sem var einn lagatitlanna á henni. Platan fékk ágætar viðtökur, fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu, góða í Vikunni og þokkalega í Poppbók Jens Guð löngu síðar, og seldist í um tvö þúsund og fjögur hundruð eintökum sem þótti dágott. Vinsælasta lag plötunnar var án efa upphafslag hennar, Mary Jane og heyrist það enn reglulega leikið í útvarpi, allt efnið á plötunni var frumsamið en Barry Nettles kom einnig að textagerðinni. Um þetta leyti komu þeir félagar einnig fram í sjónvarpsþætti og vöktu þar lukku, svo framtíðin var einkar björt fyrir þeim.

Strax um haustið 1972 fóru þeir Magnús og Jóhann til Bretlands og tóku upp tveggja laga plötu [Sweet Cassandra / When the morning comes] við undirleik hljómsveitarinnar Náttúru á vegum Orange records en forsvarsmaður fyrirtækisins hafði boðið þeim það. Til stóð að þeir færu einnig í tónleikatúr ásamt fleirum um Bretland og víðar, á vegum útgáfunnar en af því varð ekki. Útgáfunni seinkaði og önnur smáskífa kom út með þeim félögum en þeir höfðu í millitíðinni tekið upp nafnið Pal brothers og kom sú skífa undir því nafni. Hin smáskífan kom síðar út, titli Sweet Cassandra hafði þá verið breytt í Yakkety yak, smacketty smack, og þá höfðu þeir tekið upp nafnið Change. Í kjölfarið varð dúettinn Change að hljómsveitinni Change sem er önnur saga og merkileg, en Magnúsar og Jóhanns nafnið var lagt til hliðar í bili.

Magnús og Jóhann

Næstu árin fengust þeir Magnús og Jóhann við frægðardrauma sína í Bretlandi undir merkjum Change eða til ársins 1976 þegar þeir meikdraumar voru úti, þá voru þeir báðir farnir að semja fyrir aðra tónlistarmenn og höfðu skapað sér heilmikið nafn sem lagahöfundar ekkert síður en söngvarar og gítarleikarar. Á Change árunum höfðu þeir reyndar sent frá sér tvær barnaplötur, annars vegar fjögurra laga plötu undir nafninu Ábót og hins vegar breiðskífu undir nafninu Grámann og Hrámann. Báðar nutu þær plötur nokkurra vinsælda.

Þeir Magnús og Jóhann fóru hvor í sína áttina þegar Change ævintýrinu lauk, Jóhann kom fljótlega heim og starfaði með ýmsum þekktum sveitum s.s. Póker, Celsius, Lummunum og Þú og ég auk þess að gefa út sólóplötu, Magnús var hins vegar áfram í Bretlandi um tíma og gaf út þrjár sólóplötur áður en leiðir þeirra Jóhanns lágu aftur saman fyrir alvöru, reyndar hafði Jóhann eitthvað komið við sögu á plötum Magnúsar.

Árið 1979 má segja að samstarf þeirra Magnúsar og Jóhanns hafi hafist aftur, þeir komu í nokkur skipti fram tveir með gítara og sungu, m.a. á stórum tónleikum í Laugardalshöllinni, á þjóðhátíð í Eyjum og á stórum jólatónleikum. Um haustið tóku þeir upp „lifandi“ plötu sem ráðgert var að kæmi út fyrir jólin á vegum Hljómplötuútgáfunnar en ekki varð úr því, hins vegar kom út sólóplata með Magnúsi um það leyti.

Plata þeirra Magnúsar og Jóhanns kom síðan út haustið 1980 og gáfu þeir hana út sjálfir í takmörkuðu upplagi, platan bar nafn þeirra og var sem fyrr segir tekin upp „lifandi“ en þó í hljóðveri á nítján tímum, hún var því nokkuð hrá og lítið nostrað hvorki við upptökurnar né umbúðirnar sem voru einfaldar. Platan var tvískipt, íslensk lög voru á fyrri hliðinni (sem bar heitið Hugsanir Yuslans) en textar síðari hliðarinnar voru á ensku (hún hét Born to lose). Hún fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu, Dagblaðinu og Þjóðviljanum en fremur slaka í Poppbók Jens Guð.

Magnús og Jóhann 1980

Plötunni var nokkuð fylgt eftir með tónleikahaldi og það bar til tíðinda þetta haust að þeir félagar héldu tónleika í Keflavík í fyrsta skipti. Annars voru þeir nokkuð hlaðnir verkefnum um þetta leyti, enn ein sólóplata Magnúsar kom út á sama tíma og Jóhann hafði samið öll lög og flesta texta á plötu Hauks Morthens sem einnig kom út fyrir jólin 1980.

Magnús og Jóhann komu reglulega fram næstu árin og héldu tónleika, fjögur ár liðu þar til næsta plata leit dagsins ljós en það var haustið 1984. Sú plata bar titilinn Ljósaskipti og var tvískipt eins og platan á undan, fyrri plötuhliðin hafði að geyma jólalög (m.a. jólalög eftir aðra) en sú síðari andlegar skírskotanir, það var Skálholtsútgáfan sem stóð að útgáfunni en upptökur höfðu farið fram í Stúdíó Mjöt um haustið. Ljósaskipti fékk þokkalega dóma í DV en önnur gagnrýni virðist ekki hafa birst um plötuna, og svo virðist sem platan hafi fremur litla athygli fengið efnis hennar vegna.

Sem fyrr komu Magnús og Jóhann fram á tónleikum en einnig á söngskemmtunum en slíkar skemmtanir voru geysivinsælar á níunda áratugnum, og voru gjarnan haldnar á skemmtistöðum eins og Broadway og Hótel Íslandi. Það var svo árið 1991 sem þeir félagar fóru að vinna að nýrri plötu, hún kom út haustið 1992 í tilefni af tuttugu ára samstarfi eins og það var kallað, og hét Afmælisupptökur. Platan hafði verið tekin upp á Púlsinum við Vitastíg og var einnig unninn sjónvarpsþáttur upp úr þeim upptökum en einvala lið þekktra tónlistarmanna var þeim til aðstoðar, sá þáttur var sýndur um haustið. Afmælisupptökur hafði að geyma í bland gamalt og nýtt efni og fékk platan þokkalega dóma í DV og Pressunni.

Á þessum tíma voru Magnús og Jóhann nokkuð virkir bæði í spilamennsku og plötuútgáfu því haustið 1993 sendu þeir frá sér aðra plötu, Lífsmyndir Magnúsar og Jóhanns. Sú plata var sextán laga, ellefu þeirra voru eldri lög en fimm voru ný og í flutningi ýmissa þekktra listamanna, nokkur nýju laganna slógu í gegn og má segja að lagið Ást við fyrstu sýn hafi lifað lengst en það var í flutningi Páls Óskars Hjálmtýssonar og er löngu orðið sígilt, einnig nutu lögin Stríð og friður og Æði nokkurra vinsælda. Platan fékk mjög misjafna dóma í dagblöðum, hún hlaut t.a.m. slaka dóma í Pressunni en þokkalega í Degi og DV, ágæta í Morgunblaðinu, gagnrýnendum var sérstaklega uppsigað við nýja útgáfu af Yaketty yak, smackety smack sem þótti afar „öðruvísi“ en platan var öllu poppaðri en fyrri plötur dúósins.

Magnús og Jóhann

Síðustu ár aldarinnar fór lítið fyrir Magnúsi og Jóhanni sem og fyrstu ár nýrrar aldar, Jóhann var þó öllu virkari og gaf út nokkrar sólóplötur á þessum tíma en Magnús nánast hvarf alveg af sjónarsviðinu til ársins 2005. Það var svo árið 2006 sem þeir félagar voru með eins konar kombakk á Menningarnótt og svo aftur 2009 en þess á milli sinntu þeir öðrum verkefnum.

Árið 2010 leiddi tónlistarmaðurinn Jón Ólafsson dúettinn saman á nýjan leik í hljóðver og upp úr því samstarfi kom út tvöföld fjörutíu laga safnplata. Flest laganna voru eins og má gera ráð fyrir eldri lög þeirra frá ferlinum en átta lög höfðu verið tekin upp sérstaklega fyrir plötuna, það voru lög eftir þá félaga sem aðrir listamenn höfðu áður gert vinsæl en þeir fluttu sjálfir í þetta skipti. Þetta voru stórsmellir eins og Seinna meir, Ást við fyrstu sýn, Ég labbaði í bæinn og Söknuður. Á plötunni léku með þeim nokkrir kunnir tónlistarmenn en þess var gætt að látleysið í hljóðfæraleiknum og söngraddirnar væru í forgrunni, kjölfarið héldu þeir Magnús og Jóhann tónleika sunnan heiða og norðan með aðstoð sömu tónlistarmanna en yfirskriftin var fjörutíu ára samstarfsafmæli þeirra félaga. Platan sem fékk titilinn Ástin og lífið 1971-2011 hlaut prýðilegar viðtökur, hún fékk mjög góða dóma í Fréttatímanum og Fréttablaðinu.

Viðtökurnar urðu dúettnum hvatning til frekari verka, þeir komu héldu áfram að koma fram á tónleikum, spiluðu á Menningarnótt og hituðu m.a.s. upp fyrir hljómsveitina Eagles í Laugardalshöllinni. Í framhaldinu réðust þeir í gerð annarrar plötu með Jóni Ólafssyni, efnið hafði að mestu verið tekið upp í hljóðverstörninni 2010 og í þetta sinn var einvörðungu um nýtt efni að ræða, fyrsta plata þeirra sem eingöngu hafði að geyma lög á íslensku. Sú plata kom út á vegum Senu (eins og sú á undan) og hét Í tíma. Platan fékk mjög góða dóma í Fréttablaðinu og lagið Sumir dagar varð nokkuð vinsælt. Plötunni fylgdu þeir lítillega eftir með spilamennsku og m.a. komu þeir fram á Hammond-hátíðinni á Djúpavogi 2013.

Síðustu árin hafa þeir Magnús og Jóhann lítið spilað saman opinberlega en þeir voru þó með tónleika í Bæjarbíói í Hafnarfirði 2017 en tilefnið var þá fjörutíu og fimm ára afmæli fyrstu plötu þeirra. Hér er ekki reiknað með að þeir félagar séu hættir allri spilamennsku saman þótt þeir séu komnir yfir sjötugt.

Eins og nærri má geta hafa lög með dúóinu komið út á ógrynni safnplatna í gegnum árin.

Efni á plötum