Mattý Jóhanns (1942-)

Mattý Jóhanns

Söngkonan Mattý Jóhanns söng í áratugi með hljómsveitum á skemmtistöðum borgarinnar sem sérhæfðu sig í gömlu dönsunum, það er ekki ofsögum sagt að hægt sé að titla hana drottningu gömlu dansanna.

Mattý (Matthildur Jóhannsdóttir) fæddist árið 1942 og bjó lengi í Mosfellssveitinni þar sem hún ólst upp en hún er yngri systir Margrétar Helgu Jóhannsdóttur leikkonu. Þær systur urðu áberandi í félagslífi sveitarinnar tengt tón- og leiklist, og t.d. var Mattý í söngkvartettnum Kátum systrum sem söng og skemmti víðs vegar á árunum 1967 og 68 – Mattý lék þá iðulega undir á gítar, á þeim tíma söng hún einnig í kirkjukór Lágafellssóknar.

Um tíma kom hún einnig fram á miðnæturkabaretts-skemmtunum á áttunda áratugnum sem eftirherma þar sem hún söng hlutverk ýmissa þekktra söngkvenna, frægðarsól hennar reis þó líklega hæst þegar Baldur Brjánsson „skar hana upp“ með berum höndunum í frægum sjónvarpsþætti.

Segja má að eiginlegur söngferill Mattýjar hafi hafist þegar hún söng í óperunni Ástardrykknum árið 1969, það var svo þremur árum síðar sem hljómsveitaferillinn hófst en hún átti eftir að syngja á öldurhúsum höfuðborgarsvæðisins næstu áratugina með hljómsveitum sem sérhæfðu sig einkum í gömlu dönsunum. Þetta voru sveitir eins og Hljómsveit Sigmundar Júlíussonar, H.G. kvartettinn, Hljómsveit Jóns Sigurðssonar, Þristar, Drekar, Ármenn og Perlan en meðal dansstaða má nefna Ingólfscafé, Lindarbæ, Ártún, Templarahöllina o.fl. Mattý söng nokkuð sleitulítið fram til ársins 1996 en minna eftir það. Mattý hefur sungið minna hin síðari ár og þegar dansstaðatímabilinu lauk hóf hún samstarf með Vilhelm Guðmundssyni harmonikkuleikara en þau komu mikið fram allt til 2010, síðustu árin hefur hún eitthvað sungið og leikið á gítar fyrir eldri borgara.