Ábót [2] (1974)

Ábót2

Ábót

Ábót (hin síðari) var aldrei eiginleg hljómsveit en hún var stúdíóverkefni þeirra félaga úr Keflavík, Jóhanns Helgasonar og Magnúsar Þór Sigmundssonar vorið 1974 en þeir voru þá einnig í hljómsveitinni Change sem um þetta leyti var að reyna að slá í gegn í Bretlandi. Afrakstur þeirrar stúdíóvinnu var lítil hljómplata.

Ábót var því eins konar hliðarverkefni þeirra en til liðs við sig fengu þeir Hrólf Gunnarsson trommuleikara, Björgvin Gíslason gítarleikara og Þorstein Ólafsson hljómborðsleikara (sem reyndar er þekktari fyrir landsliðsferil sinn í knattspyrnu en hann var markvörður Íslands um árabil). Einnig koma við sögu á plötunni nokkrar kvenraddir úr Kvennakór Suðurnesja.

Platan hlaut ágætar viðtökur og fékk platan t.a.m. góða dóma í Vísi en fleiri dómar birtust líklega ekki um þessa plötu. Hún var gefin út af nýju hljómplötufyrirtæki, Joke hljómplötur sem var í eigu Jóns Ólafssonar.

Platan var fjögurra laga og naut nokkurra vinsælda, einkum lagið Litla músin en það var hefur oft verið gefið út síðan, meðal annars á safnplötunum Barnagull (1986), Bítlabærinn Keflavík (1998) og Svona var það 1975 (2008). Ennfremur hafa aðrir söngvarar tekið það upp á arma sína, Gísli Guðmundsson á plötunni Óli prik, besti vinur barnanna (1985) og Birgitta Haukdal á plötunni Perlur (2004).

Þeir Magnús og Jóhann áttu eftir að koma með aðra barnaplötu, breiðskífuna Allra meina bót, sem út kom ári síðar (1975) með öðrum mannskap undir nafninu Grámann og Hrámann, en einnig hafa þeir félagar komið að fjölmörgum barnaplötum síðar, s.s. Börn og dagar, Pósturinn Páll, áðurnefnd Óli prik o.fl.

Efni á plötum