Bone symphony (1982-86)

Bone symphony áður en Ragnhildur kom til sögunnar

Hin hálf íslenska hljómsveit Bone symphony hafði alla burði til að gera góða hluti í Bandaríkjunum og Bretlandi en hætti áður en til þess kom, eftir hana þó liggur fimm laga plata sem innihélt m.a. smellinn It‘s a jungle out there.

Það mun hafa verið í ársbyrjun 1982 sem Jakob Frímann Magnússon, sem þá bjó í Los Angeles í Bandaríknunum, og Scott Wilk kynntust og fóru að vinna tónlist með hjálp tölva, og fljótlega fengu þeir til liðs við sig Mark Levinthal  sem hafði áður unnið með Scott m.a. við kvikmyndatónlist. Allir þrír notuðu hljóðgervla við tónlistarsköpun sína og varð sveitin, sem fékk nafnið Bone symphony, meðal þeirra allra fyrstu sem notfærði sér tæknina á þennan hátt vestan hafs. Scott var söngvari sveitarinnar.

Bone symphony fór að túra um vesturströnd Bandaríkjanna með tæki sín og tól, fékk fljótlega plötusamning við Capitol records um útgáfu plötu þar vestra og í Bretlandi og sveitin fór að vinna fimm laga plötu sem kom síðan út 1983. Hún bar nafn sveitarinnar og þar bar hæst lagið It‘s a jungle out there en það var einnig gefið út á smáskífu og gekk ágætlega. Hér heima fékk platan ágæta dóma í Tímanum, Þjóðviljanum, Morgunblaðinu og Helgarpóstinum.

Hingað til Íslands kom Bone symphony um haustið 1983 og dvaldi hér fram yfir áramótin við tónleikahald en um það leyti bættist Ragnhildur Gísladóttir í sveitina sem slagverksleikari og söngkona, hún lék m.a. með sveitinni hér á Íslandi og var með í myndbandi sem gert var við lagið It‘s a jungle out there og vakti mikla athygli hér heima.

Bone symphony

Fréttir hermdu að sveitin myndi fara héðan til Bretlands fljótlega á árinum 1984 og byrja að vinna þar plötu en eftir það heyrðist lítið frá sveitinni hér uppi á skerinu. Ástæðan var auðvitað að þau unnu erlendis en einnig að Stuðmannabatteríið sem Jakob og Ragnhildur voru nú bæði partur af tók æ stærri hluta af tímanum, Stuðmenn fóru á fullt um sumarið 1984, tóku upp kvikmyndina Hvíta máva, túruðu um landið, tóku upp og gáfu út, og svipað var uppi á teningnum sumarið 1985 svo Bone symphony varð að hálfgerðu vetrarstarfi. Ekki hjálpaði til þegar Stuðmenn í kjölfar tónleikaferðar til Kína vorið 1986 ákváðu að gerast heilsárssveit og þá var ljóst að dagar kvartettsins væru taldir.

Málið var Jakobi og Ragnhildi sérlega erfitt þar sem þau stóðu frammi fyrir því að velja um annars vegar Bone symphony sem var í raun allir vegir færir með efni sem leit vel en aftur á móti í óvissu um tekjur og frama, hins vegar Stuðmenn sem áttu hug og hjörtu landsmanna með miklar og tryggar tekjur auk vinsælda.

Þrátt fyrir að endalok Bone symphony yllu nokkrum særindum innan sveitarinnar vann Mark með þeim Stuðmönnum m.a. að tónlistinni í kvikmyndinni Hvítum mávum en þeir Scott höfðu báðir starfað við kvikmyndatónlist í Hollywood auk auðvitað Jakobs sem einnig hafði komið þar við sögu.

It‘s jungle out there hefur lifað lengst laga Bone symphony en það kom hefur komið út á safnplötum s.s. Pottþétt 80‘s (1999) og Disco M.A.D. (1983). Þá kom út safnplata (ólögleg útgáfa) með sveitinni í Ástralíu árið 2016.

Lag með Bone symphony, One foot in front of the other, kom við sögu í kvikmyndinni Revenge of the nerds (1984) og kom út á plötu með tónlistinni úr myndinni en einnig heyrist sama lag með sveitinni í myndinni Ted 2 (2015) og í fjórða þætti fjórðu seríu af Family guy teiknimyndaþáttunum.

Þá má geta þess að lokum að söngkonan Bonnie Tyler gerði eigin útgáfu af laginu It‘s a jungle out there (1984).

Efni á plötum