Bone China (1992-94)

Bone China

Hljómsveitin Bone China var efnileg sveit sem lék rokk í anda Jet Black Joe, Dos Pilas og slíkra snemma á tíunda áratugnum.

Bona China birtist snemma árs 1993 á öldurhúsum borgarinnar og var dugleg við tónleikahald þann tíma sem hún starfaði. Nokkur lög með sveitinni komu út á safnplötum s.s. Grensunni (Stanslaust stuð), Bandalögum 6: Algjört skronster og Ýkt stöff, sem allar komu út árið 1993 en vorið eftir (1994) var sveitin horfin af sjónarsviðinu.

Meðlimir Bone China voru Sigurður Runólfsson söngvari, Einar Már Bjarnason gítarleikari, Reginn Freyr Mogensen gítarleikari, Ingimundur Óskarsson bassaleikari og Davíð Ólafsson trommuleikari. Hugsanlega lék bassaleikarinn Þórarinn Freysson einnig með sveitinni um tíma.