Magnús Ingimarsson (1933-2000)

Magnús Ingimarsson

Magnús Ingimarsson er að líkindum einn þekktasti tónlistarmaður á Íslandi sem mestmegnis starfaði á bak við tjöldin en hann lék á píanó og mörg önnur hljóðfæri, var hljómsveitastjóri, kórstjóri, laga- og textahöfundur, upptökustjóri en fyrst og fremst þó útsetjari sem flestir þekktustu tónlistarmenn landsins störfuðu með á sjöunda og áttunda áratugnum.

Magnús fæddist árið 1933 á Akureyri en fluttist með fjölskyldu sinni til Dalvíkur þremur árum síðar, það var síðan árið 1945 þegar hann var á þrettánda ári að fjölskyldan fluttist suður til Reykjavíkur en þar bjó hann til dauðadags.

Hugur Magnúsar hafði ekki endilega snúist til tónlistar því hann hafði lært til prentara og byrjaði að starfa við þá iðn árið 1952, reyndar eins og fjölmargir tónlistarmenn á þeim tíma. Á árunum 1952 til 1960 starfaði hann við prentsmiðjuna Eddu en sinnti tónlistinni einnig samhliða því.

Magnús hafði lært ögn á orgel norðan heiða en það mun hafa verið eina tónlistarnám hans lengi vel, hann var síðan kominn á miðjan aldur þegar hann hóf að læra tónfræði, hljómsveitastjórnun, útsetningar o.fl. við kennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík. Fyrsta hljóðfærið sem Magnús eignaðist var a.á.m. harmonikka sem honum áskotnaðist tólf ára gamall og lék hann á nikkudansleikjum eins og margir fleiri gerðu, stundum ásamt Gunnari Kristjánssyni.

Árið 1952 þegar hann var nítján ára gamall, hóf hann að starfa með GK tríóinu og lék þar á harmonikku en var einnig um tíma í Lúðrasveit verkalýðsins sem var að taka til starfa á þessum árum. GK tríóið starfaði þar til í ársbyrjun 1955 en þá veiktist Magnús heiftarlega og lá á spítala fram á vor, í kjölfarið hafði hann litla krafta og megnaði ekki að halda á nikkunni og varð hans aðalhljóðfæri upp frá því píanóið þótt hann hefði í raun ekkert lært á það hljóðfæri, Magnús var hins vegar afar músíkalskur og lá píanóið vel fyrir honum. Magnús var um það leyti orðinn nokkuð þekktur en hann hafði þá nokkru áður stofnað söngkvartettinn Marz bræður, sá kvartett hafði þá sungið inn á plötur, með Ingibjörgu Þorbergs sem var vel þekkt. Með Marz bræðrum byrjaði Magnús að raddsetja og þar með að útsetja en það varð síðar sérgáfa hans ef svo mætti að orði komast. Þess má geta að hann lék stundum einnig undir á gítar með Marz bræðrum.

Um miðjan sjötta áratuginn fór Magnús að láta meira að sér kveða, þá hóf hann að leika með danshljómsveitum sem píanóleikari og reyndar lék hann einnig stundum á gítar, m.a. með hljómsveit Karls Jónatanssonar sumarið 1955 og í revíusýningum með hljómsveitum Carls Billich og Jan Morávek. Hann söng og lék eitthvað í þessum revíum en þær nutu mikilla vinsælda á þeim tíma, þá samdi hann einnig tónlist fyrir revíur sem hann vann við, oftar en ekki í samstarfi við Flosa Ólafsson – Sunnan sex, Ringulreið o.fl.

Magnús við píanónið

Magnús lék með fjölda hljómsveita næstu árin, 1955-56 lék hann með Hljómsveit Stefáns Þorleifssonar, 1956-57 með Hljómsveit Jóhannesar Eggertssonar í Vetrargarðinum í Tívolíinu í Vatnsmýrinni, 1957-58 á Hótel Borg með Hljómsveit Jónasar Dagbjartssonar og 1958-59 með Hljómsveit Gunnars Ormslev í Framsóknarhúsinu (sem síðar gekk m.a. undir nafninu Glaumbær). Á þessum árum störfuðu þessar sveitir mestmegnis  yfir vetrartímann og voru því ráðnar til eins árs í senn, þannig gengu hljóðfæraleikararnir oft á milli sveita og voru sumir þeirra mjög eftirsóttir. Um þetta leyti var Magnús í fyrsta sinn með hljómsveit í eigin nafni en þá var söngleikurinn Rjúkandi ráð eftir Jón Múla og Jónas Árnasyni settur á fjalirnar og annaðist Magnús útsetningar og hljómsveitastjórnun, það átti hann eftir að gera oftar í samstarfi við þá bræður Jón Múla og Jónas – t.d. með Allra meina bót (1961), Járnhausinn (1965) og Delerium búbonis (1968). Sveit Magnúsar lék inn á nokkrar plötur á þessum árum, m.a. með Ingibjörgu Smith og Skapta Ólafssyni.

Árið 1960 lék Magnús um skamman tíma með Hljómsveit Björns R. Einarssonar en um haustið gekk hann til liðs við Svavar Gests og hljómsveit hans en þeir Svavar áttu eftir að eiga langt og farsælt samstarf í ýmsum geirum tónlistarinnar. Magnús var gerður að aðalútsetjara sveitarinnar og margar plötur með sveitinni áttu eftir að koma út á næstu árum með útsetningum hans, þar má nefna plötur með Sigrúnu Jónsdóttur, Ragnari Bjarnasyni, Elly Vilhjálms, Önnu Vilhjálms og Berta Möller.

Svavar var vinsæll útvarpsmaður á þessum árum og stýrði útvarpsþáttum um árabil í Ríkisútvarpinu, hljómsveit hans lék þá gjarnan í þáttunum og einhverju sinni kom upp sú hugmynd að setja á fót lítinn kór sem syngja myndi í einum þætti en þættirnir voru alltaf sendir út í beinni útsetningu. Það varð úr að Magnús valdi hóp söngvara úr karlakórnum Fóstbræðrum en þeir urðu fjórtán talsins þar sem fleiri komust ekki inn í upptökusalinn. Þar varð til sönghópurinn Fjórtán fóstbræður sem sló samstundis í gegn þar sem hann söng syrpu af þekktum lögum í léttum útsetningum Magnúsar við undirleik hljómsveitarinnar, og varð fastur liður í þáttum Svavar upp frá því. Magnús varð síðan söngstjóri félaganna, útsetjari og upptökustjóri á plötum sem kórinn sendi frá sér á næstu árum við miklar vinsældir en Svavar Gests stofnaði einmitt fyrirtæki sitt, SG-hljómplötur til að gefa út fyrstu plötu Fjórtán fóstbræðra.

Þegar SG-hljómplötuútgáfan stækkaði og dafnaði sá Svavar sér ekki fært um að reka hljómsveit sína áfram sökum anna og árið 1966 lagði hann niður hljómsveit sína. Magnús notaði þá tækifærið og stofna aftur sveit í eigin nafni, Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar sem starfaði einkum á Röðli (og á héraðsmótum á sumrin) næstu árin eða til ársins 1972, eftir það vann hann einkum að útsetningum o.fl. fyrir Svavar Gests.

Magnús þriðji frá hægri ásamt nokkrum þekktum andlitum í hljóðveri Svavars Gests

Söngvarar á borð við Önnu Vilhjálms, Vilhjálm Vilhjálmsson og Þuríði Sigurðardóttur sungu með hljómsveit Magnúsar og á næstu árum kom út fjöldi platna á vegum SG-hljómplatna með þessum söngvurum þar sem hljómsveit Magnúsar lék undir útsetningar hans. Og Magnús átti eftir að koma við sögu sem útsetjari, hljómsveitarstjóri, píanóleikari og upptökustjóri á tugum platna á vegum útgáfunnar næstu árin, hann vann t.d. nokkrar litlar og stórar plötur með Ómari Ragnarssyni (m.a. jólaplötur hans þrjár með Gáttaþefi), þrjár breiðskífur með systkinunum Vilhjálmi og Elly Vilhjálms, fjórar með Silfurkórnum sem lutu sömu forskrift og Fjórtán fóstbræður (og nutu mikilla vinsælda), auk platna með Guðmundi Jónssyni, Einsöngvarakvartettnum, Nútímabörnum og Gísla Rúnari Jónssyni. Einnig átti hann stóran þátt í tónlist á plötum sem höfðu að geyma leikrit s.s. Karíus og Baktus, Litla Ljót og Verkstæði jólasveinanna.

Sem fyrr greinir starfaði Magnús nokkuð með Flosa Ólafssyni, þ.á.m. sem lagahöfundur, útsetjari og hljómsveitarstjóri við nokkur áramótaskaup Sjónvarpsins – frægast þeirra er vafalaust skaupið 1969 en í kjölfarið sendu Flosi og hljómsveitin Pops frá sér tveggja laga plötu sem hafði að geyma lögin Ó ljúfa líf (Oh happy day) og Það er svo geggjað að geta hneggjað en síðarnefnda lagið var samið af Magnúsi. Magnús samdi reyndar fjöldann allan af lögum og textum en fæst þeirra náðu á plötur enda voru mörg þeirra samin sérstaklega fyrir revíusýningar og leikhús. Þekktasti texti Magnúsar er líklega við lagið Marína, sem Sigrún Jónsdóttir söng upphaflega 1958 en það hefur komið út nokkrum sinnum síðan m.a. í útgáfum Guðrúnar Gunnarsdóttur og Friðriks Ómars, og Lummanna.

Magnús vann líka fyrir aðra en tengdust SG-hljómplötum og var hann einkum fenginn til við að útsetja fyrir strengi og blásturshljóðfæri, þannig útsetti hann t.d. lagið Söknuður fyrir hljómsveitina Roof tops sem varð geysilega vinsælt, en einnig má nefna ólík verkefni af ýmsum toga eins og fyrir Ríó tríó, Júdas, Vilhjálm Vilhjálmsson, Jóhann G. Jóhannsson, Mannakorn, Steinku Bjarna, Ólaf Þórðarson, Halla og Ladda, Brunaliðið, Rut Reginalds, Sumargleðina, HLH-flokkinn, Karlakór Keflavíkur og Gunnar Þórðarson svo dæmi séu nefnd, stundum lék hann einnig á píanó á þeim plötum sem hann vann við.

Magnús í sjónvarpssal

Magnús starfaði um tíma við útvarp, hann sá t.d. um útvarpsþætti sem báru nöfnin Söngur og sunnudagsgrín og Á sumarkvöldi, en auk þess kom hljómsveit hans oft fram í sjónvarpsþáttum sem höfðu að geyma tónlist, einnig sjónvarpsleikritum eins og Silfurtúnglinu. Þá er ótalið þegar hann stjórnaði hljómsveit í Söngvakeppni sjónvarpsins sem haldin var 1981, en þar var hann einnig í dómnefnd keppninnar. Magnús starfaði nokkuð fyrir Þjóðleikhúsið á sjöunda og áttunda áratugnum, gerði útsetningar fyrir tónlistaratriði í leikritum og söngleikjum, og samdi jafnvel tónlist fyrir leikritið Köttur úti í mýri en það var sett á leiksvið Þjóðleikhússins 1974. Hann kom einnig að verkefnum eins og plötunni Áfram stelpur og vísnaplötunni Út um græna grundu.

Árið 1978 byrjaði Magnús að starfa aftur í prentverkinu eftir langt hlé og við það minnkaði hann nokkuð við sig í tónlistinni. Það var svo árið 1981 sem hann hætti nánast alveg í tónlistinni og helgaði sig prentiðninni, þá starfaði hann við Prentsmiðjuna Eddu og var gerður þar að yfirverkstjóra og síðan sölustjóra en þegar sameiningar urðu innan prentgeirans árið 1994 missti hann starf sitt og sat það lengi í honum. Þá kom hann aftur inn í tónlistargeirann þótt ekki væri það með sömu látum og áður.

Á þessu „síðara“ skeiði Magnúsar var aðkoma hans að tónlistinni með nokkuð öðrum hætti, hann fékkst t.a.m. við kennslu við Söngskólann í Reykjavík auk þess að þjálfa og stjórna kórum innan skólans. Auk þess hélt hann utan um söngleikja- og dægurtónlistarnámskeið við skólann. Magnús hélt áfram að útsetja fyrir hina og þessa en landslagið í þeim geira tónlistarinnar var nú orðið allt annars eðlis en áður, hann útsetti m.a. Stórsveit Reykjavíkur, Kór Langholtskirkju, Sinfóníuhljómsveit Íslands og fleiri, auk þess sem hann útsetti tónlistina í söngleiknum Vellinum eftir Hrafn Pálsson en tónlistin kom út á plötu.

Magnús kom lítið fram þessi síðustu ár sem hljóðfæraleikari, hann stýrði þó og starfaði með skammlífu Big bandi FBM en kom stöku sinnum fram sem bakgrunnsleikari og undirleikari, t.d. með Elly Vilhjálms. Hann var um sextíu og fimm ára gamall þegar hann veiktist alvarlega og lést svo um ári síðar, aldamótaárið 2000.

Hér hafa verið stiklað á stóru um tónlistarferil Magnúsar Ingimarssonar en fleira er hægt að nefna, hann kom t.d. að fleiri kórum en Fjórtán fóstbræðrum og Silfurkórnum, hann stjórnaði Lögreglukórnum í fast að áratug og fleiri kórar nutu liðsinnis hans, þá stofnaði Magnús og stýrði um tíma stórsveit innan FÍH á áttunda áratugnum og kom m.a. við sögu á risatónleikum sem sýndir voru í Ríkissjónvarpinu. Meðal smærri verkefna Magnúsar má nefna útsetningar fyrir sönglagakeppnina Trimmlagakeppnina svokölluðu, dómnefndarstörf við danslagakeppnir SKT, undirleik með ýmsum skemmtikröftum s.s. Ómari Ragnarssyni, og margt fleira.

Magnús hlaut í raun aldrei opinbera viðurkenningu fyrir starf sitt sem útsetjari, hljómsveitarstjóri, hljóðfæraleikari eða annað sem hann kom að þótt fyllsta ástæða hefði verið til þess, safnplatan Íslandslög 5: í kirkjum landsins, gefin út af Skífunni árið 2000 var helguð minningu hans en þar við sat. Hlutur hans í ferli margra tónlistarmanna er æði mikill og ekki er víst að tónlistarfólk eins og Vilhjálmur Vilhjálmsson hefði notið jafn mikillar velgengni án hans.