Mandólínhljómsveit Reykjavíkur (1943-49)

Mandólínhljómsveit Reykjavíkur

Mandólínshljómsveit Reykjavíkur starfaði í um hálfan áratug á fimmta áratug síðustu aldar og lék þá margsinnis á tónleikum.

Sveitin var stofnuð haustið 1943 af Haraldi Guðmundssyni prentara en hann var stjórnandi hennar allan starfstíma hennar. Næstu fimm árin eða svo hélt sveitin tónleika fáeinum sinnum á ári en fjöldi meðlima var yfirleitt í kringum tuttugu, af báðum kynjum. Allir meðlimirnir voru nemendur Sigurðar H. Briem en skipan sveitarinnar samanstóð af mandólínum, gíturum og banjóum. Innan sveitarinnar störfuðu oktett, kvartett og tríó (MAJ-tríóið) og lék það síðastnefnda stundum á skemmtunum úti í bæ.

Þegar Haraldi bauðst prentarastarf í Vestmannaeyjum 1949, sem hann gat ekki hafnað, lagðist starfsemi Mandólínhljómsveitar Reykjavíkur niður en MAJ-tríóið starfaði eitthvað lengur.