
MAJ tríóið
MAJ-tríóið (einnig ritað M.A.J. tríóið) var angi af Mandólínhljómsveit Reykjavíkur sem starfaði lengi á fimmta áratug síðustu aldar en tríóið starfaði á árunum 1945 til 50. Meðlimir MAJ tríósins voru hjónin Tage Ammendrup og María Magnúsdóttir Ammendrup, og Jón Kornelíus Jónsson, Tage og Kornelíus munu hafa leikið á mandólín en María á gítar.
Tríóið kom fram sem skemmtikraftar á árshátíðum og þess konar skemmtunum en einnig á tónleikum Mandólínhljómsveitar Reykjavíkur, undir það síðast kom söngkonan Sigrún Jónsdóttir stöku sinnum með þremenningunum.