Strengjasveit Tónlistarfélagsins í Reykjavík (1943-47)

Strengjasveit Tónlistafélagsins í Reykjavík

Strengjasveit Tónlistarfélagsins í Reykjavík var ekki eiginleg eining innan tónlistarfélagsins heldur hluti af Hljómsveit Reykjavíkur sem þá starfaði innan félagsins, þannig gat strengjasveitin verið nokkuð misjöfn að stærð, allt niður í tríó eða kvartett en yfirleitt var hér um tólf manna sveit að ræða.

Sveitin kom fyrst fram opinberlega þegar ellefu meðlimir úr Hljómsveit Reykjavíkur fluttu kammerverk á tónleikum í Gamla bíói árið 1943 undir nafninu Strengjasveit Tónlistarfélagsins í Reykjavík og sama ár léku þeir einnig á Grieg tónleikum. Það var svo ári síðar sem sveitin hóf að æfa að staðaldri og hlaut þá hið eiginlega nafn sitt, Strengjasveit Tónlistarfélagsins í Reykjavík en hún var þá reyndar einnig stundum nefnd Stroksveit tónlistarfélagsins. Sveitin starfaði til ársins 1947 en þá var Hljómsveit Reykjavíkur lögð niður sökum fjárskorts, árið 1950 var síðan Sinfóníuhljómsveit Íslands sett á laggirnar, m.a. úr leifum Hljómsveitar Reykjavíkur (og fleiri fyrirrennurum) og því má segja að strengjasveitin hafi verið einn af undanförum sinfóníuhljómsveitarinnar.

Verkefni sveitarinnar voru af margvíslegum toga, hún lék mestmegnis á tónleikum tónlistarfélagsins í Gamla bíó og Tjarnarbíói en einnig úti á landsbyggðinni, þannig fór hún t.d. í tónleikaferð til Norðurlands þar sem leikið var á Akureyri, Húsavík og Laugum í Reykjadal. Þá lék sveitin jafnframt utan tónlistarfélagsins s.s. í minningarathöfnum um þá sem létust með Goðafossi og Dettifossi.

Sem fyrr segir voru meðlimir Strengjasveitar Tónlistarfélagsins í Reykjavík yfirleitt tólf talsins en ætla má þó að fleiri nöfn hafi komið við sögu hennar enda hefur hún væntanlega verið eitthvað breytilega skipuð, hér eru nefndir Björn Ólafsson fiðluleikari, Sveinn Ólafsson lágfiðluleikari, Þorvaldur Steingrímsson fiðluleikari, Heinz Edelstein sellóleikari, Skafti Sigþórsson fiðluleikari, Þórir Jónsson fiðluleikari, Óskar Cortes fiðluleikari, Jón Sen fiðluleikari, Indriði Bogason fiðluleikari, Þórhallur Árnason sellóleikari, Jóhannes Eggertsson sellóleikari og Einar B. Waage kontrabassaleikari – allt karlmenn. Victor Urbancic var alla tíð stjórnandi sveitarinnar og lék líkast til með henni einnig.