
Strengjakvartettinn Hugo
Strengjakvartettinn Hugo starfaði um árabil undir lok liðinnar aldar og fram á þessa öld og kom reglulega fram opinberlega þótt ekki væri hann starfræktur samfleytt.
Kvartettinn mun hafa verið stofnaður innan Tónmenntaskólans í Reykjavík vorið 1995 og voru meðlimir hans alla tíð þau Una Sveinbjarnarsdóttir og Hrafnhildur Atladóttir fiðluleikarar, Guðrún Hrund Harðardóttir lágfiðluleikari og Hrafnkell Orri Egilsson sellóleikari, nafn kvartettsins sem hlaut nafnið Hugo (stundum ritað Húgó) var myndað úr upphafsstöfum þeirra Hrafnhildar, Unu, Guðrúnar og Orra.
Strengjakvartettinn Hugo hlaut styrk og æfði því stöðugt sumarið 1995, og kom síðan fram á tónleikum um haustið áður en hluti hans fór utan til framhaldsnáms og eftir það starfaði hann fremur stopult þótt aldrei væri kvartettinn lagður niður. Þannig lék hann reglulega á tónleikum næstu árin eða allt líklega til 2012, ekki finnast heimildir um að kvartettinn hafi starfað lengur en það.
Þess má geta að kvartettinn kom við sögu á plötu Kippa Kanínus – Happens secretly, sem kom út 2005.