Strengjasveit Tónlistarskólan í Reykjavík [1] (1942-80)

Tónlistarskólinn í Reykjavík (sem var stofnaður árið 1930) hafði verið rekinn af Tónlistarfélaginu í Reykjavík frá árinu 1932 sem á sama tíma annaðist rekstur Hljómsveitar Reykjavíkur. Tónlistarkennsla stóð því í nokkrum blóma á höfuðborgarsvæðinu og árið 1941 virðist hafa verið gerð fyrsta tilraun til að setja á fót strengjasveit innan skólans sem væri óháð Hljómsveit Reykjavíkur þótt ekki væri hjá því komist að margir af meðlimum sveitanna tveggja væru hinir sömu. Þessi tilraunasveit, sem sums staðar var kölluð stroksveit lék undir stjórn Victor Urbancic og líklega lék hún í nokkur skipti opinberlega, þ.á.m. í Ríkisútvarpinu.

Það var svo haustið 1942 sem strengjasveitin var stofnuð með formlegum hætti innan tónlistarskólans af Birni Ólafssyni fiðluleikara og átti hann eftir að stjórna þeirri sveit næstu áratugina. Þessari sveit var upphaflega ætlað að vera strengjasveit einvörðungu en fljótlega (1943) var nafni hennar breytt í Nemendahljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík enda lá beinast við að um væri að ræða hljómsveit undir víðara samhengi, nafni þeirrar sveitar var árið 1958 breytt í Hljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík en höfðu þá kennarar og jafnvel utanaðkomandi tónlistarfólk bæst í sveitina.

Strengjasveitin sem stofnuð var 1942 mun hafa verið fimmtán manna í upphafi og reyndar starfaði hún langt í frá samfleytt sem slík, næstu áratugina var aðal áherslan lögð á aðalhljómsveitina en endrum og sinnum poppaði strengjasveit upp innan skólans undir stjórn Björns, ekki finnast ýkja margar heimildir um það þó en árið 1947 var starfrækt strengjasveit sem skipuð var tuttugu og tveimur nemum, sextán fiðluleikurum, tveimur lágfiðluleikurum, þremur sellóleikurum og einum sem lék á kontrabassa.

Þegar rokkið kom til sögunnar og síðar bítlatónlistin virðist sem þeim hafi fækkað nokkuð sem lögðu stund á strengjahljóðfæranám og því hafi lengi vel ekki verið grundvöllur fyrir strengjasveit, árið 1968 var þó slík sveit starfrækt og svo aftur 1972 og mun Ingvar Jónasson hafa stjórnað þeirri sveit, ólíkt því sem fyrrum var voru nú nær eingöngu stúlkur sem lögðu stund á fiðlunám enda var orðið mun algengara að drengirnir lærðu á gítar, bassa eða trommur. Þessi tíu manna strengjasveit Ingvars var öflug og fór hún m.a. í tónleikaferðir um Vestfirði og Norðurland, og í henni voru nokkrar stúlkur sem síðar urðu þekktar s.s. Sesselja Halldórsdóttir lágfiðluleikari, Júlíana E. Kjartansdóttir fiðluleikari, Ágústa M. Jónsdóttir fiðluleikari, Helga Þórarinsdóttir lágfiðluleikari og Ólöf S. Óskarsdóttir sellóleikari sem líklega myndu teljast af fyrstu sterkri kynslóð kvenfiðluleikara hér á landi.

Næstu árin á eftir eða allt líklega til 1978 störfuðu strengjasveitir innan tónlistarskólans undir stjórn Ingvars og líklega Björns einnig en undir lok áttunda áratugarins kom hinn breski Mark Reedman til sögunnar og í kjölfarið var stofnuð ný strengjasveit óháð Hljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík sem strengjasveitin hafði óneitanlega alltaf verið hluti af. Sú sveit var stofnuð 1980 og varð þekkt fyrir afrek sín.