Strengjasveit Tónlistarskólans í Reykjavík [2] (1980-2017)

Strengjasveit Tónlistarskólans í Reykjavík árið 1982

Strengjasveit Tónlistarskólans í Reykjavík starfaði í hartnær fjóra áratugi og vakti víða athygli hér heima og erlendis, sveitin ól af sér fjölda þekktra hljóðfæraleikara sem sumir hverjir hafa myndað hryggjarstykki Sinfóníuhljómsveitar Íslands, öðlast alþjóðlega frægð og viðurkenningu, sent frá sér plötur og þannig mætti áfram telja.

Strengjasveit hafði verið starfrækt innan Tónlistarskólans í Reykjavík með hléum og á áttunda áratugnum hafði Ingvar Jónasson haldið utan um slíka sveit með að því er virðist þokkalegum árangri. Þegar Bretinn Mark Reedman kom til starfa við skólann 1978 tók hann við strengjasveitinni sem þá strangt til tekið var hluti af Hljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík, haustið 1980 stofnaði hann hins vegar sveit sem var alveg óháð stóru sveitinni og skyldi starfa sjálfstætt innan skólans en hann var þá með marga efnilega hljóðfæraleikara sem hann áleit að fengju þá meiri athygli, sveitin kallaðist Strengjasveit Tónlistarskólans í Reykjavík. Hér er rétt að taka fram að um eldri nemendur strengjadeildarinnar var hér að ræða, nemendur sem voru lengra komnir og höfðu lært undir handleiðslu Reedmans, Guðnýjar Guðmundsdóttur og Gunnars Kvaran.

Fljótlega var ljóst að strengjasveitin væri efnileg í meðförum Reedmans og strax árið 1981 fór hún í tónleikaferð til Akureyrar og birtist svo einnig í sjónvarpsþætti en um þetta leyti hafði tónlistarskólinn fagnað 50 ára afmæli sem þá varð tilefnið. Sveitin lék í kjölfarið reglulega á tónleikum og vakti hvarvetna athygli meðal tónlistaráhugafólks.

Árið 1982 var ráðist í stór verkefni, strengjasveitin lék snemma árs á tónlistarhátíðinni Myrkum músíkdögum þar sem fengist var við verk samtímamanna og svo um sumarið tók sveitin þátt í alþjóðlegri keppni ungra strengjaleikara sem haldin var í Belgrad í Júgóslavíu (síðar Serbíu), þar sem hún lék verk frá ýmsum tímum þannig að segja má að tónlistin sem sveitin lék hafi verið nokkuð fjölbreytileg.

Strengjasveitin 1988

Í Júgóslavíu var ekki beinlínis ráðist á garðinn þar sem hann var lægstur því keppinautarnir voru eingöngu atvinnumannahljómsveitir – sú íslenska var eina áhugamannasveitin og aukinheldur lang yngst en meðlimir hennar voru þá á aldrinum 15-22 ára. Sveitin hafnaði þar í fjórða sæti og hlaut þar með bæði nokkra alþjóðlega viðurkenningu og athygli og opnaði um leið augu almennings og fjölmiðla hér heima sem vafalaust hefur verið meðlimum hennar mikil hvatning en sveitina skipuðu eins og fyrr segir efnilegir hljóðfæraleikarar, ellefu talsins en þau voru Bryndís Halla Gylfadóttir sellóleikari, Guðrún Þórarinsdóttir lágfiðluleikari, Örnólfur Kristjánsson sellóleikari, Svava Bernharðsdóttir lágfiðluleikari, Bryndís Pálsdóttir fiðluleikari, Vera Ósk Steinsen fiðluleikari, Sigurlaug Eðvaldsdóttir fiðluleikari, Hávarður Tryggvason kontrabassaleikari, Gréta Guðnadóttir fiðluleikari, Auður Hafsteinsdóttir fiðluleikari og Sigrún Eðvaldsdóttir fiðluleikari, og öll hafa þau starfað við tónlist síðan og skapað sér nafn í tónlistarheiminum. Þessi gullútgáfa af sveitinni kom aftur saman árið 1988, héldu líklega eina tónleika þá og kölluðu sig þá Strengjasveitina í Reykjavík til aðgreiningar frá hinni eiginlegu strengjasveit. Ári eftir Júgóslavíu-ferðina kom út kassetta með sveitinni á vegum Fermata en hún hafði að geyma efni sem hún flutti í Belgrad.

Í kjölfar árangursins í Júgóslavíu bættust við verkefni og m.a. þótti við hæfi að strengjasveitin gengi inn í Íslensku kammersveitina sem var stofnuð um haustið 1982, og á næstu árum var heilmikið að gera hjá sveitinni fyrir utan reglulegt tónleikahald sem strengjasveit tónlistarskólans s.s. í Bústaða- og Grensáskirkjum. Þannig átti hún eftir að leika reglulega á alþjóðlegri tónlistarhátíð í Aberdeen í Skotlandi, á viðburðum Listahátíðar í Reykjavík og víðar. Þá fékk sveitin jafnframt sérhæfðari verkefni í hendurnar og frumflutti jafnvel verk fyrir strengjasveitir. Árið 2001 lék sveitin t.a.m. á alþjóðlegri hátíð æskuhljómsveita í Berlín í Þýskalandi og frumflutti þar verk eftir Stefán Arason sem í kjölfarið hlaut evrópsk tónskáldaverðlaun.

Strengjasveit Tónlistarskólans í Reykjavík 1997

Strengjasveitin var í grunninum skólastrengjasveit og því var mikil endurnýjun í sveitinni, hún hélt þó að því er virðist sínum standard og á næstu árum og áratugum starfaði hún undir stjórn Mark Reedman og ól af sér fleira þekkt tónlitarfólk. Fleiri virðast hafa komið að stjórnun sveitarinnar einnig enda var um tíma um að ræða yngri og eldri deild hennar – hér má nefna Gunnar Kvaran, Rut Ingólfsdóttur, Unni Maríu Ingólfsdóttur, Gunnstein Ólafsson og Roland Vamos. Eldri sveitin sem innihélt yfirleitt á annan tug hljóðfæraleikara, fékk þó iðulega athyglina en sú yngri lék m.a. á jólatengdum viðburðum fyrir eldri borgara o.þ.h.

Strengjasveit Tónlistarskólans í Reykjavík virðist hafa starfað til ársins 2017 en þá sameinaðist skólinn Tónlistarskóla FÍH undir merkjum Menntaskólans í tónlist, ekki liggur fyrir hver eða hverjir stjórnuðu sveitinni síðustu árin sem hún starfaði.

Efni á plötum